09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4518 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

184. mál, tollskrá

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það fór lítið fyrir hinni siðferðilegu forustu í svarræðu hæstv. fjmrh. Ég gerði sérstaka fsp. til hæstv. ráðh. um hvort honum fyndist eðlilegt, að á sama tíma og hann og ýmsir aðrir ráðh. í ríkisstj. koma til launafólksins í landinu, til okkar þm., og biðja um niðurskurð á félagslegum framkvæmdum, biðja um niðurskurð á framlögum til menningarmála, biðja um stuðning við löggjöf sem skerðir kjörin í landinu, sýni þeir í verki hvað snertir ferðalög ráðh. sömu ríkisstj., a. m. k. sumra hverja, að flottræfilshátturinn er áfram í algleymingi. Það er alveg rétt, að 6–7 millj. eru ekki stórfé á því sparnaðar- og niðurskurðarborði sem hæstv. fjmrh. hefur gerst sérstakur talsmaður fyrir, og þeirri efnahagsstefnu að herða sérstaklega kjör láglaunafólksins í landinu hefur hann einnig verið sérstakur talsmaður fyrir. Það er álíka röksemd og heyrðist frá sama ráðh. í umr. innan stjórnarflokkanna fyrr í vetur um að lyftingin á þakinu hjá starfsmönnum ríkisins kostaði ekki mjög mikið fé og þess vegna væri allt í lagi að gera hana. En það er spurningin um hina táknrænu forustu sem hæstv. fjmrh. hefur algerlega brugðist að veita í þessum efnum. Það þýðir ekki að koma akandi í nýrri lúxuskerru til alþýðu þessa lands og segja: Nú þarf að spara! Slíkur gjörningur gerir að verkum að menn trúa ekki að ráðh. í ríkisstj. séu reiðubúnir að sýna þann vilja í verki sem þeir eru að biðja aðra um að sýna. Það er ekki hægt að meta þessi atriði á grundvelli þess hvað þau kosta, heldur hvaða áhrif og hlutverki þau gegna í þeirri forustu sem við höfum kosið ráðh. okkar til að fara með.

Hæstv. fjmrh. sagði: Það þarf ekki að ræða það að ráðherraembætti fylgi bílar. Jú, það er einmitt það sem þarf að ræða, hæstv. fjmrh. Sá grundvallarhugsunarháttur, að ráðherraembætti sé einhvers konar yfirpótentátatign í þessu landi og embættinu sjálfu þurfi óhjákvæmilega að fylgja bifreið, sýnir einmitt skort á skilningi á hvers konar táknræna og málefnalega leiðsögn ráðh. í nútíma lýðræðisþjóðfélagi er ætlað að sýna. Ég get hins vegar sagt hæstv. ráðh. að ég er þeirrar skoðunar að embættisbifreið sé e. t. v. nauðsynleg í tilteknum verkum og tilteknum erindagjörðum sem ráðh. þarf að sinna fyrir hönd íslenska ríkisins. En þau verk eru ekki mjög mörg. Og ráðh. þarf ekki bifreið umfram aðra landsmenn eða sérstök fríðindi til hennar frekar en annað fólk sem gengur til vinnu sinnar daglega í þessu landi. Ráðherrastarf er í eðli sínu ekkert öðruvísi í lýðræðisþjóðfélagi en hvert annað starf. Það á ekki að undirstrika hátign þess starfs með slíkum ytri táknum sem sumir hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. hafa talið nauðsynlegt að öðlast. Þess vegna er ég algerlega ósammála þeirri skoðun sem hæstv. fjmrh. lét í ljós, að það væri sjálfsagt mál að ráðherraembætti ætti að fylgja bifreið. Ég tel þvert á móti að við eigum að taka upp sams konar sið og tíðkast í ýmsum öðrum lýðræðisríkjum, að hið opinbera á tiltekinn fjölda bifreiða sem það notar til sérstakra embættisverka, sérstakra embættiserinda ráðh. sjálfra, en ekki til daglegra þarfa fyrir þá og fjölskyldur þeirra. Ég er alveg viss um að sú hugsun, sem hæstv. ráðh. setti fram um hvað væri sjálfsagt og ekki þyrfti að ræða, er andsnúin þeirri hugsun sem stór hluti þjóðarinnar hefur gagnvart þessu efni, ég skal ekki fullyrða hve stór, en hann er alla vega mjög stór.

Það er líka rangt hjá hæstv. ráðh., að flokkarnir beri allir ábyrgð á þeim reglum sem hér voru settar. Þær voru ekki bornar undir flokkana, mér vitanlega. Og eftir því sem frásögn hefur komið fram af þeim reglum, sem hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir, knúði hann þær í gegn á ríkisstjórnarfundi með mjög skjótum hætti.

Mér fannst í raun og veru allur málflutningur hæstv. fjmrh. vera þeirrar ættar, að hann væri að lýsa andstöðu sinni við þá gagnrýni sem fram hefur komið í þessu þjóðfélagi á einmitt þau ytri tákn upphafningarinnar sem ráðherrabílakerfið er í þessu landi. Hann vildi gera lítið úr þeirri gagnrýni. En sú gagnrýni er mjög mikilvæg og hún hefur ekki þagnað í þessu þjóðfélagi. Hún hefur ekki þagnað m. a. vegna þess, að á sama tíma og sumir hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstj. koma dag eftir dag til þjóðarinnar og þingsins með kröfur um aðhald, kröfur um fórnir, kröfur um að skerða eyðsluna, horfir þjóðin upp á að þeir ganga sjálfir á undan í embættum sínum um að auka eyðsluna. Og þó að ekki séu miklir fjármunir í húfi geta slíkar aðferðir grafið undan þeirri siðferðilegu forustu sem þjóðin þarf á að halda í þeim miklum erfiðleikum sem hún er nú að glíma við. Ég vil þess vegna skora á hæstv. fjmrh. að endurskoða bæði grundvallarafstöðu sína til þessa máls og eins til þeirra reglna og starfshátta sem tíðkast hafa á þessu sviði. Ég vil enn fremur ítreka ósk mína til hans um að hann geri grein fyrir með hvaða hætti þeir ráðh. í núv. ríkisstj., sem keypt hafa sér nýjar bifreiðar, hafi gert það. Hæstv. forsrh. greip fram í áðan og taldi þá vitneskju, sem ég setti fram um bílakaup hans, vera ranga. Við skulum þess vegna ekkert láta liggja milli hluta hvernig bílakaupum hæstv. forsrh. hefur verið háttað, við skulum fá það á borðið. Þau eru vonandi ekkert launungarmál frekar en þessar reglur. Og ég ítreka þá ósk mína að hæstv. fjmrh. geri bæði þingheimi og þjóðinni grein fyrir með hvaða hætti hinir nýju ráðherrabílar, allir saman, hafa verið keyptir, hvort þar er að einhverju leyti um lán að ræða eða ekki og hverjir ráðh. það eru þá sem hafa fengið sér lán og hvaða ráðh. það eru sem hafa látið ríkið kaupa algerlega undir sig bifreiðar.