09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4520 í B-deild Alþingistíðinda. (3631)

184. mál, tollskrá

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vænti þess að hv. d. hafi tekið eftir neitun fjmrh. við að upplýsa hv. d., á sama tíma og hann óskar eftir að d. samþ. það frv. sem hann hefur lagt fram. Hann neitar að upplýsa í d. með hvaða hætti einstakir ráðh. í ríkisstj. hafa keypt sér bifreiðar. Hann færir engin rök fyrir neitun sinni, ekki eina röksemd, heldur eingöngu neitar hv. Ed. Alþ. um að svara því, með hvaða hætti einstakir ráðh. hafa keypt sér bifreið, og reynir að skýla sér á bak við að í ríkisstj. hafi verið full samstaða um reglurnar. En það er alveg ljóst að sumir ráðh. hafa ekki hagnýtt sér reglur hæstv. fjmrh., en aðrir hafa gert það. Því mun verða fylgt eftir bæði innan þings og utan að knýja hæstv. fjmrh. til svara við þessari spurningu, vegna þess að hún sýnir einmitt að að baki öllu þessu liggur rík tilhneiging hjá hæstv. ráðh. til að leyna þjóðina því, hvernig þessum málum er háttað. Það á ekki að gefa upplýsingar nema um það sem nauðsynlegt er og þegar kemur að því að leggja öll spilin á borðið segir hæstv. ráðh. nei. Spurt er um meðferð á opinberu fé sem fjmrh. er ábyrgur fyrir í þessari ríkisstj., og hann neitar að gefa hv. Ed. Alþ. upplýsingar um hvernig því opinbera fé hefur verið ráðstafað. Það kalla ég mikil tíðindi.