07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Út af ummælum hv. þm. Alexanders Stefánssonar vil ég aðeins segja það, að ég hef engar áhyggjur af þeim ummælum sem komu fram í leiðara Vísis, og tel enga ástæðu til að gera þau að umræðuefni á hv. Alþ. Það hefur þannig æxlast með mig, að þau tvö málgögn, sem forusta Sjálfstfl. notar til þess að berja niður Albert Guðmundsson, Morgunblaðið og Vísir, hafa kosið að nota mig beint og óbeint sem tæki í aðför sinni að Albert Guðmundssyni. Til þess að koma þessari aðför og dómi um Albert Guðmundsson á framfæri í leiðara Vísis var því talið nauðsynlegt að láta mig fljóta með. Forustu Sjálfstfl. er velkomið að halda áfram að láta mig fljóta með, ef hún telur það nauðsynlegt til þess að koma höggi á Albert Guðmundsson.