10.05.1979
Efri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4593 í B-deild Alþingistíðinda. (3730)

283. mál, útvarpslög

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Það var vikið að nokkrum efnisatriðum og m, a. var beint til mín beinni fyrirspurn um áhrif þessarar gjaldtöku, ef af verður, þ. e. 10% í sjóðinn, á dagskrárgerðina. Það er því rétt að ég rifji upp örfá atriði.

Í fyrsta lagi er það rétt, að afnotagjöldin fara inn í vísitölu. Þess vegna hefur á vissum tímum verið mjög erfitt að fá þau færð upp til samræmis við hækkað verðlag. Þau eru núna langt fyrir neðan það sem þau voru upphaflega sem hlutfall af áskriftargjöldum blaða. Ég kunni þetta einu sinni, hvað 5% gerða í vísitölu, en ég kann það ekki lengur. Það er að vísu mjög lítið brot af prósenti sem það verkar á vísitöluna, en það hefur auðvitað sín áhrif.

Út af þessu með áhrifin á dagskrárgerðina, þá er auðvitað að það fé, sem lagt er í húsbyggingu, verður ekki notað í annað. Það er nokkuð langt síðan sett var í lög að það skyldi leggja 5% í framkvæmdasjóðinn. En framkvæmdin hefur verið nokkuð sveigjanleg, þannig að það er ekki nóg með að það hafi stundum ekki verið lagt í sjóðinn sama árið og átti að gera það, heldur skotið á frest. Þetta var svo alvarlegt um áramótin 1974–1975 að þá var einnig það, sem búið var að leggja í sjóðinn, lánað í reksturinn. Þá var yfirdrátturinn orðinn svo mikill í Landsbankanum að það lá við lokun á öllum reikningum og þar með á allri starfseminni. Og þá var það nánast að kröfu bankans að í staðinn fyrir að hafa á bók þá fjármuni sem búið var að leggja til hliðar í sjóðinn, þá voru þeir lánaðir í reksturinn til þess að draga úr hlaupareikningsvöxtum. Og þannig hefur þetta verið mjög svo sveigjanlegt í framkvæmd.

Núna t. d. standa málin þannig, að þegar ákveðið var afnotagjaldið seinni hluta árs 1978, þá var það ákveðið það hátt að það átti að vera hægt að leggja 10% til hliðar. Þó það væri ekki skylda samkv. lögunum leit menntmrn. svo á, eins og kemur fram í bréfi þess, að það væri heimilt að ætla þetta til húsbyggingar. Í útvarpslögum segir að það megi ekki nota tekjur útvarpsins til annars en að standa undir rekstri þess eða búnaði, og við álitum í rn. að þetta væri í lagi. Og það var lagt á með þetta í huga þá, og það varð afgangur reikningslega á árinu 1978 sem svaraði þessu. Þannig er þetta sem sagt um síðustu áramót. Núna aftur á móti var hækkun afnotagjalda á fyrri hluta ársins ekki samsvarandi dýrtíð og þess vegna er þröngt um vik á þessum árshelmingi og þess vegna er eðlilegt að menn hugleiði hvort samþykkt þessa ákvæðis núna kynni ekki að verka eins og högg á fjármálin og verða til þess að draga úr dagskrárgerðinni eða rýra þann hlut sem hún hefur. En ég álít að miðað við þann sveigjanleika í framkvæmd, sem hefur verið viðhafður á undanförnum árum, þurfi það ekki að verka þannig.

Það er aðeins tvennt sem ég vil nefna að lokum til frekari áréttingar því sem ég sagði við 1. umr. þessa máls. Framkvæmdasjóður er svo lengi búinn að vera til að það er búið að taka hann tvisvar, ef ekki þrisvar sinnum til annarra nota heldur en byggja upp framtíðarhúsnæði. Hann var notaður til þess að innrétta bráðabirgðahúsnæði á Skúlagötunni, en áður hefur hann farið í slíkt hið sama og einhvern tíma enn áður var honum með stjórnvaldaráðstöfunum varið til enn fjarskyldari hluta en það er að innrétta húsnæði til bráðabirgða.

Og svo er annað atriði sem ég vil nefna núna og ég kom ekki inn á við 1. umr. að nú er allt tilbúið til að bjóða út næsta áfanga útvarpshúss. En samstarfsnefnd hefur verið hikandi að samþykkja fyrir sitt leyti að fara í útboð vegna þess að ekki væri séð fyrir fjármögnuninni allt verkið á enda, því ákvæði eru í lögum um að þess skuli gætt að framhaldið sé tryggt þegar farið er af stað með einn tiltekinn áfanga. M. a. þess vegna held ég að samþykkt þessa frv. væri ákaflega nauðsynleg fyrir framgang þessa verks, sem allir virðast lýsa sig samþykka, þ. e. byggingu útvarpshúss.