11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4703 í B-deild Alþingistíðinda. (3903)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. frsm. og eins af flm. á ég sæti í þeirri n. sem tók það upp hjá sér af eigin hvötum að kanna og íhuga það mál sem hefur verið sett fram á þskj. 546. Að sjálfsögðu á málið sér dálítið sérstaka fortíð, sérstaka sögu, annars vegar af formsástæðum, það er óvenjulegt að n. flytji slíkt mál inn til þingsins, og hins vegar áreiðanlega af efnisástæðum.

Mér heyrðist hv. 1. þm. Vesturl. gera því skóna að það væru annarleg sjónarmið, áróður og þess háttar, sem lægju að baki því, að við ákváðum að fara út í rannsókn — „athugun“ — á þessu máli. Það má vel vera að það hafi legið til grundvallar hjá einhverjum nm., en svo er ekki háttað a. m. k. hvað mig varðar og ég held ýmsa fleiri sem í n. eru. Get þá bent til dæmis á flokksbróður hv. þm. Halldór E. Sigurðssonar, Einar Ágústsson, sem átti sæti í þessari n. og stendur að flutningi þessarar tillögu.

Þegar reynt er að gera það tortryggilegt að n. flytji mál af eigin hvötum eða jafnvel af annarlegum ástæðum mætti kannske rifja það upp, að landbn. flytja stundum mál að beiðni ráðh. þegar ríkisstj. kemur sér ekki saman um það. Það er utanaðkomandi þrýstingur og e. t. v. annarlegar ástæður, gætu sumir orðað það sjálfsagt, þeir sem ekki væru sammála efni málsins. Ég geri ráð fyrir því, að nm. í landbn. hafi á reiðum höndum skýringar á því, að þeir telji slíkt ekki vera annarleg sjónarmið, jafnvel þótt viðkomandi ráðh. fari þá leiðina. Á sama hátt teljum við okkur ekki skuldbundna að taka ekki upp mál þegar um þau hefur verið skrifað í blöðum.

Þetta vildi ég taka strax fram út af formshliðinni, því að það skiptir dálítið miklu máli og er kannske hluti þessa máls að hér er farið inn á nýjar brautir, með afskaplega hógværu sniði þó.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að það hefur enginn sjúkdómur fundist í regnbogasilungnum. Regnbogasilungurinn er alinn upp allt öðruvísi en venjulegur silungur og er eins konar borgarbarn sem er bráðþroska og vex fljótt. Þess vegna hefur hann verið arðgæfur, þótt ég efist ekki um að hinn sé betri á bragðið, eins og mér heyrðist hæstv. ráðh. vera að gefa í skyn með orðum sínum. En það breytir ekki því, að það getur verið og hefur reyndar verið álit sérfræðinga í seinni tíð að alheilbrigður regnbogasilungur geti verið smitberi samt sem áður. Og það er þess vegna sem þetta mál hefur siglt í strand.

Við erum hér á landi um þessar mundir að lifa nokkurs konar tímamót, þar sem tvö grundvallarsjónarmið stangast á: annars vegar þau sjónarmið að fara skuli út í nýjar atvinnugreinar sem hugsanlega gefa arð og eru þess vegna hagkvæmar fyrir þjóðfélagið, og hins vegar þau verndunarsjónarmið sem hljóta ætið að koma til skjalanna og verða æ meira áberandi í okkar þjóðfélagi. Hér er um það að ræða að vernda náttúru landsins fyrir sjúkdómum sem gætu komið upp í verðmætum fiskstofnum í fersku vatni hér á landi, og það er að sjálfsögðu ákaflega skiljanlegt og æskilegt markmið að halda þeim hreinum, ekki síst þegar tillit er tekið til þeirrar staðreyndar, að það hefur víðast hvar ekki tekist og sums staðar hafa menn jafnvel gefist algerlega upp á því að reyna að halda ósýktum stofni í laxfiskum.

Hitt er svo annað mál, að það getur stundum gerst að ýmsir sérfræðingar, sem fara með slík mál bæði á þessu sviði og jafnvel á mengunarsviðinu sem er nú í tísku að tala mikið um, reyni að vernda sína stöðu. Við eigum stundum að setja okkur í spor þetta sem í dag eiga að segja til um hvort þessi og þessi framkvæmd hafi einhverja hættu í för með sér, hafi mengun í för með sér o. s. frv. Þessir menn þurfa vegna framtíðarinnar að vernda sína hagsmuni og hagsmunir þeirra eru að koma í veg fyrir að þeir sjálfir persónulega hafi gert mistök á einhverju ákveðnu stigi ákvörðunartökunnar. Þess vegna verða slíkir aðilar oft ákaflega íhaldssamir og það er jafnframt skiljanlegt.

Við skulum taka t. d. álverksmiðjuna eða verksmiðjuna á Grundartanga og ímynda okkur að þeir, sem voru harðast gegn þeim verksmiðjum af mengunarástæðum, hefðu fengið að ráða. Og við skulum ekki bara ímynda okkur það, — við skulum ímynda okkur að þeir, sem harðast börðust gegn verksmiðjunni í álverinu, hefðu haft rétt fyrir sér. Ef svo væri, þá væru íbúar Hafnarfjarðar allir steindauðir, ekki einn einasti þeirra á lífi. En að því er mér skilst, — ég hef reyndar ekki komið þangað suður eftir undanfarna daga, — er þar allt kvikt af lífi og það sem þjakar þá meira að segja enn meira þessa stundina en mengun álversins er fýla frá fiskimjölsverksmiðju sem þar er rekin.

Nú hefur að vísu verið lagður í það gífurlegur kostnaður að koma í veg fyrir slíka fýlu sem þar er af þeirri verksmiðju, og það er alveg af sömu rót runnið og það mál sem við erum að tala um. Þar er um að ræða nýjar kröfur sem eru uppi í þessu þjóðfélagi um að það séu mannréttindi að lifa í lyktarlausu umhverfi, og út af fyrir sig geta allir tekið undir slíkar kröfur. En við verðum líka að átta okkur á því að það kostar peninga.

Ég hef rætt um þessi mál saman vegna þess að þau falla dálítið saman hvað þetta varðar. Að vísu er annars vegar um að ræða hugsanlega smitandi sjúkdóma og hins vegar er um að ræða mengun. Hvort tveggja er ný fyrirbrigði sem að fullu verður að taka tillit til við atvinnuþróun landsmanna, en mega samt ekki — og á það vil ég leggja þunga áherslu — mega samt ekki verða til þess að draga allan kjark úr framþróun í atvinnumálum í þessu landi. Um það snýst þetta mál.

Þetta mál snýst um það, hvort ríkisvaldið með einum eða öðrum hætti er tilbúið að koma til liðsinnis við unga atvinnugrein sem eflaust á möguleika í þessu landi. Við í hv. allshn. Nd. höfum lagt til að það verði metið, hve miklu fjármagni þurfi að verja til þessa máls, og svo jafnframt, hvort ástæða sé til þess, að ríkissjóður taki að sér að leggja fram fjármagn í því sambandi, og ég jafna því fjármagni til fjármagns sem notað er til þess að styðja ungar atvinnugreinar — áhættufjármagns sem ríkið leggur fram í upphafi, meðan verið er að kanna hvort ung atvinnugrein getur lifað. Þetta er gert í nálægum löndum. Við höfum of lítið gert af þessu tagi hér á landi, t. d. í iðnaðinum, en okkur ber að gera það og það er hluti af rannsóknar- og þróunarstarfsemi fyrir atvinnuvegina. Það var á þeim sjónarmiðum sem þetta starf okkar í n. byggðist m. a.

Ég hef þegar lýst því, að ég tel að n. hafi að sjálfsögðu haft fullkominn rétt þegar hún tók að sér þetta starf, og það sem meira er að af þessu starfi hefur þegar hlotist talsvert gagn. Þar má t. d. minnast á þá n. sem hæstv. landbrh. talaði um áðan að sett hafi verið á laggirnar í svipuðu skyni. Ég get ekki fullyrt það, en ég hygg að sú nefndarstofnun hafi komið til vegna áhrifa frá þessu máli. Og þá má kannske til gamans spyrja: Voru það ekki annarleg ytri áhrif, voru það ekki annarlegar ástæður sem höfðu þar áhrif á ráðuneytisstjórann? Ég efast ekki um að starf okkar hafði áhrif á hann, og ég fagna því að svo gerðist, því ég held að málið sé þess eðlis að okkur beri að styðja það.

Það var rætt um það líka, hvers vegna ekki væri hægt að halda áfram Laxalónsstöðinni. Það gerði hv. 1. þm. Vesturl. Hæstv. ráðh. svaraði því til, sem rétt er, að erfiðleikarnir eru þeir, að sú stöð er að verða vatnslaus vegna byggðarinnar í Reykjavík, þannig að ekki verður hægt að halda henni úti miklu lengur. Það verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess þegar er verið að meta verðmæti slíkrar stöðvar. Ég lít ekkí á það sem persónulegan stuðning við Skúla Pálsson á Laxalóni, síður en svo, heldur sem undirstöðuathugun, þetta sé fjármagn sem við leggjum fram í þessu atvinnuskyni af því að við erum að reyna að finna og okkur alþm. ber skylda til þess að reyna að finna nýjar arðsamar atvinnugreinar hér á landi.

Ég vil taka það skýrt fram vegna orða hv. 1. þm. Vesturl: að það er hvergi í grg., að ég held, a. m. k. ekki með mínu samþykki, minnst á þvermóðsku stjórnvalda eða þvermóðsku fyrrv. ráðh. í þessu sambandi. Þvert á móti — og það vil ég taka mjög skýrt fram — tel ég að fyrrv. hæstv. landbrh. hafi brugðist drengilega við í þessu máli. Það vil ég taka skýrt fram. Á sínum tíma, þegar upp kom sýking í allt öðrum stofni, ekki regnbogasilungsstofninum að Laxalóni, heldur öðrum stofni, brást fyrrv. hæstv. landbrh., hv. þm. Halldór E. Sigurðsson, drengilega við, og við öðru hafði ég ekki búist. Þess vegna kom það mér eiginlega dálítið á óvart hver afstaða hans var til málsins, því að þetta mál er á engan hátt árás á hann. Ég tel þetta miklu frekar vera stuðning við þær aðgerðir sem hann hefur þegar byrjað á varðandi þetta mál og hann á heiður skilinn í því sambandi.

Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa till. Ég held, að hún sé ekki eins voðaleg og hv. þm. vill vera láta, og tel, að það sé ástæðulaust að halda uppi löngu málþófi um þetta mál. Ég vona satt að segja að þegar öllu er á botninn hvolft komi í ljós að við nm. og hann getum átt sameiginlega leið í þessum málum.