08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (399)

62. mál, aðstoð við sveitarfélög vegna lagningar bundins slitlags á vegi í þéttbýli

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki tekið nema einu sinni til máls um þetta mál og því hvergi nærri talað mig dauðan, eins og hinn framliðni hv. þm. Jón G. Sólnes hafði, svo ég noti hans orð raunverulega eða efni þeirra. En ég tel að að meginefni til hafi athugasemdin, sem hann flutti áðan, verið þörf. Það er rétt, að þm. Norðurl. e. tóku að sér að flyt ja þetta mál til þess að bæta úr nauðsyn bæjarstjórnar Akureyrar, eins og fram kom í samróma samþykkt hennar, til þess að fá innheimt gjöld til að standa undir kostnaði við varanlega gatnagerð á Akureyri. En meginefni þess, sem fram á var farið, var hins vegar að fá það fært í lög, að krefja mætti þessara gjalda af íbúum við þær götur, sem komið var varanlegt slitlag á og búið að koma götunum í gott horf, um ótakmarkaðan tíma til baka. Það var ekki um að ræða 5 ára afturvirkni, heldur afturvirkni um ótiltekinn tíma. Það er náttúrlega sannast sagna, að hv. þm. Jón G. Sólnes, eins og aðrir þeir hv. þm. sem tekið hafa til máls um þessa þáltill., þeir hafa lýst yfir stuðningi við meginefni hennar. En hv. þm. Jón G. Sólnes gerði þá grein fyrir andstöðunni sem hann nú hefur tekið gegn hugmyndinni um afnám takmarkana og afturvirkni í þessu tilfelli, að hann teldi að nú væri skattpíning orðin svo mikil með þjóð vorri, að jafnvel samstaðan í bæjarstjórn Akureyrar sem fram kom í frv. sem við fluttum fyrir hana á sínum tíma, mundi nú brostin fyrir skattpíningar sakir, sem sýnir ábyrgðartilfinningu hv. þm.

Við umr. hinar fyrri hér í deildinni mælti.hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir á þá lund, er athugasemd var gerð við andstöðu hennar við hugmyndina um afturvirkni þessara gjalda, að það væri kostur á þm., að hann gæti skipt um skoðun og undir það hlýt ég að taka. En í málefnum eins og þessum, sem varða slíkt hagsmunamál byggðarlags sem hér er um fjallað, hygg ég að það gæti ekki talist hæfilegt sjónarmið stjórnmálamanna, síst af öllu alþm., að skipta bara um skoðun þegar menn séu búnir að nota hana. Það er heldur mikið örlæti á skoðanaskipti í máli eins og þessu. Hafi það verið rétt, eins og segir í grg. með fyrrnefndu lagafrv. frá 1975, að það sé réttlætismál, að einnig þeir og e.t.v. fyrst og fremst þeir, sem lengst hafa notið þeirra fríðinda að búa við malbikaða götu og hreina gangstétt, taki sinn þátt að fullu í kostnaði við að koma upp slíku afbragðs umhverfi fyrir aðra íbúa bæjarins, sem jafnlengi hafa goldið opinber gjöld að öðru jöfnu, en ekki fengið þessu framgengt hjá sér, þá ætti svo að vera enn.

Úr því að ég er kominn upp í ræðustólinn á annað borð, þó að ég vilji ekki blanda mér í snöggsoðna, en vingjarnlega deilu tveggja þm. Vesturlands um það, hvað annar þeirra hafi sagt, þá vil ég vekja athygli á einu. Ég þóttist hafa heyrt ræðu hv. þm. Braga Níelssonar býsna vel og skilið hana, en annar ónefndur þm. er vændur um að hafa gert hvorugt. Ég skildi mál hans á þá lund, að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að við álagningu hins afturvirka gjalds um 5 ár til baka hefðu reynst slíkir meinbugir á og gjaldið orðið svo óvinsælt í vitund fólksins, að nú teldi hann sig ekki geta stuðlað að slíku, hann teldi það rangt. Eftir því sem ég hef næst komist lágu meginvandræðin í því og meginóréttlætið kom þar fram, að hin heimila afturvirkni náði ekki nema 5 ár aftur í tímann. Það voru því tiltölulega fáir, sem þessi aukafjárheimta virkaði á, og alls ekki þeir sem verðugastir hefðu verið þess að fá nú að gjalda nokkuð, þ.e.a.s. þeir sem lengst höfðu búið við þessi gæði sem meðborgarar þeirra höfðu ekki búið við, og af þeim sökum hafi bæjarstjórnirnar neyðst til að nýta þessa heimild til hlítar, nema þá Skagamenn, eins og fram kom í ræðu hv. þm. áðan, sem treystu sér ekki til að nota þessa heimild nema að hálfu. Ef afturvirkninni hefðu ekki verið sett þessi mörk, þá hefðu orðið miklu fleiri aðilar, sem gjaldið hefðu borið, og þess vegna komið minna á hvern og einn.

Ég ítreka það sem ég áður sagði, að skoðun mín er sú, að þar sem hér sé um að ræða möguleika á því að gera þorpin okkar úti um land þrifalegri og hollustusamlegri með þessum hætti, þá sé e.t.v. um að ræða byggðamál allra byggðamála og nauðsynlegt sé fyrir okkur að létta svo sem verða má undir með sveitarstjórnunum úti um land að koma þessu máli fram, þar sem er malbikun gatnanna og snyrtilegur frágangur. Við erum ekki með flutningi þessa máls að leggja þá skyldu á herðar neinnar sveitarstjórnar að innheimta gjald með þessum hætti, heldur erum við aðeins að opna þann möguleika, að þær sveitarstjórnir, sem þurfa slíku að beita, geti gert það. Eftir sem áður yrði á valdi sveitarstjórnanna hvernig þessi heimild yrði nýtt. Það eru íbúar sveitarfélaganna sem kjósa sveitarstjórnirnar, og má þá e.t.v. telja eðlilegt að þetta mál kæmi til álita í sveitarstjórnarkosningum, þannig að íbúar sveitanna fengju að kjósa um þetta mál sjálfir í sveitarstjórnarkosningum og réðu því þá nokkuð sjálfir; hvort heimild af þessu tagi yrði nýtt.