15.05.1979
Sameinað þing: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4768 í B-deild Alþingistíðinda. (4020)

210. mál, iðnnám

Flm. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 422 svo hljóðandi till. til þál. um iðnnám, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta endurskoða gildandi reglugerð nr. 143 1967, um iðnfræðslu, m. a. með það í huga, að símvirkjun verði talin til iðngreina og að símvirkjun verði tekin upp sem námsefni í iðnskóla.“

Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp grg. sem fylgir. Hún hljóðar svo:

„Samkv. núgildandi reglugerð um iðnfræðslu er símvirkjun ekki talin með sem iðngrein. Engu að síður er krafist bæði verklegs og bóklegs náms, sem lýkur með prófi, til þess að mega stunda þessa atvinnu.

Sérstakur skóli, Póst- og símaskólinn, annast þessa fræðslu. Skólanefnd er skipuð af póst- og símamálastjóra, sem einnig ræður skólastjóra, en skólanefndin ræður síðan kennara og prófdómara.

Ekki munu aðrir fá heimild til náms í símvirkjun en þeir, sem ráðnir eru til starfa hjá Pósti og síma. Símvirkjanám er því algerlega lokað og engin trygging fyrir því, að þeir, sem áhuga hafa á náminu, geti nokkru sinni aflað sér þeirrar þekkingar, reynslu og réttinda sem nauðsynleg eru til að mega leggja starfið fyrir sig.

Almennt er þegnum þjóðfélagsins gert kleift með hinu almenna skólakerfi að afla sér þeirrar skólagöngu, sem hugurinn stendur til og fáanleg er hér á landi, án þess að krafist sé vinnuráðningar í starfsgreinum áður en nám er hafið. Þróun þessara mála er sú, að nú er unnt að ljúka iðnnámi frá iðnskóla í mörgum starfsgreinum án þess að nemandinn þurfi að vera á námssamningi í greininni.

Auk þess að bæta úr ósanngjörnu misrétti, sem viðgengist hefur í þessum efnum, leiðir þessi skipan til verulegs sparnaðar fyrir ríkissjóð, þar sem sérskóla Pósts og síma mætti leggja niður þegar námið væri flutt í skóla sem þegar eru starfræktir.

Ætla má að einokun og hvers konar höft á athafnafrelsi eigi þverrandi fylgi að fagna, og líklegt, að einokunaraðstaða sú, er lög um fjarskipti, nr. 30 frá 1941, færa Pósti og síma í hendur, verði fljótlega felld niður. Er þá nauðsyn á því, að unnt sé að leita til annarra en starfsmanna símans um verkefni er snerta símvirkjun og notendur síma þurfa að fá framkvæmd.“

Með flutningi till. til þál. um iðnnám er lagt til, að símvirkjun verði lögvernduð iðngrein og nám í greininni verði tekið upp í iðnskólum. Till. er um að starfsgrein, sem nú er lokuð, verði opnuð og þeim, er þess óska, veitt þau sjálfsögðu réttindi að fá tækifæri til að leita sér menntunar í þeirri starfsgrein sem hugurinn stefnir til. Enda þótt till. nái fram að ganga og iðngreinin verði opnuð skerðir það að sjálfsögðu á engan hátt réttindi Landssímans til að halda sérnámskeið fyrir starfsfólk sitt eftir því sem ástæður og sérstök verkefni gefa tilefni til. Slíkt er algengt hjá stórum fyrirtækjum. Hins vegar stendur einkaaðstaða Landssímans til þess að þjálfa og mennta símvirkja í vegi fyrir og tefur þá óhjákvæmilegu þróun, að símvirkjun og símtækni verði framkvæmd af fleiri aðilum en þessari einu stofnun.

Þeirri röksemd hefur verið haldið á loft, að verkefni símvirkja væru eingöngu á vegum Landssímans og því eðlilegt að hann hafi fræðsluna með höndum hér eftir sem hingað til. Því miður er ástandið þannig, að hér á landi er starfsvettvang símvirkja aðeins að finna hjá einum aðila. Þessi till. stefnir að því að bæta úr því ástandi.

Aukin tækni og örar framfarir á sviði fjarskipta opna víðara svið og fleiri starfsmöguleika. Ef þessari iðngrein eru sköpuð eðlileg skilyrði til þróunar er ekkert því til fyrirstöðu að komið verði á fót innlendum framleiðsluiðnaði í greininni. Þar bíða verkefni fyrir iðnmenntað fólk án þess að það þurfi að vera á vegum Landssíma Íslands.

Auk verkefna fyrir sérmenntaða tæknimenn á þessu sviði virðist framleiðsla í þessari grein umfram ýmsar aðrar gefa fólki með skerta starfsorku möguleika á starfi, en eins og kunnugt er hefur skortur á verkefnum fyrir öryrkja og fatlaða verið mjög alvarlegt vandamál sem ekki verður gengið fram hjá. Forsenda þess að koma slíkum iðnaði á fót er að sjálfsögðu sú, að nauðsynleg tæknimenntun sé fyrir hendi.

Till. þeirri, sem hér er flutt, er ætlað að bæta úr þeim annmörkum sem á því eru að svo geti orðið. Iðngreinin er lokuð. Í hana komast ekki aðrir en þeir sem ráða sig til starfa hjá Pósti og síma. Að námi loknu eru starfsmöguleikar engir annars staðar en hjá sömu stofnun, eins og nú er háttað málum. Meðan Landssíminn heldur einkarétti sínum í sambandi við innflutning og lagnir á öllu er snertir síma og hefur auk þess einkarétt á að veita menntun í greininni skortir öll skilyrði til þess að iðngreinin geti þróast og dafnað á eðlilegan hátt eins og aðrar iðngreinar sem opnar eru þeim sem óska.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. leyfi ég mér að gera það að till. minni að málinu verði vísað til allshn.