08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram við þessa umr., að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. Ég vil skýra með nokkrum orðum hvers vegna ég geri það.

Þann málflutning, að ein mikilvægasta ástæðan fyrir verðbólgunni hafi verið sú, að vextir hér á landi hafi ekki verið nógu háir undanfarin ár, tel ég vera meira en lítið hæpinn. Menn tala um að það sé farið illa með sparifjáreigendur, að hinir neikvæðu vextir hafi leitt það af sér að mikil eignatilfærsla hafi átt sér stað undanfarin ár í þjóðfélaginu. Út af fyrir sig er það rétt. Hins vegar virðast menn ekki taka tillit til þess, að háir vextir eru ekki lítið verðbólguhvetjandi, og það þarf að líta á og taka tillit til fleiri þátta efnahagsmátanna en aðeins eins þeirra, a.m.k. áður en tekin er ákvörðun um svo mikla breytingu sem felst í þessu frv.

Það er virðingarvert út af fyrir sig að koma af stað umr. um hlutskipti sparifjáreigenda í verðbólguþjóðfélagi sem okkar og nauðsynlegt að gera athugun á því, hver hlutur þeirra raunverulega er og með hvaða hætti væri unnt að rétta þeirra hlut án þess að slík aðgerð hefði verðbólguáhrif, þannig að hlutur þeirra væri litlu eða engu betri þegar á allt væri lítið og upp er staðið. Það vill líka oftast gleymast, að tekjur af inneign af sparifé eru skattfrjálsar, þegar fram fer umr. um þessi mál. En hvers virði er það, a.m.k. fyrir þá sem hafa af öðru verulegar tekjur? Það vill oft brenna við að málið allt er ekki skoðað í samhengi, t.d. hvernig raunvextir mundu verka á framleiðsluna í heild í landinu og einstaka þætti hennar þegar til lengri tíma er lítið, hvaða áhrif mundu þeir hafa á atvinnuástandið og kaupgjaldsþróunina í landinu. Og ef raunvaxtastefnan yrði upp tekin og lögfest, eins og þetta frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir, og frá þessu yrði undantekningarlaust ekki hvikað, væri þá ekki nauðsynlegt að gera a.m.k. ýmsar ráðstafanir áður til að koma í veg fyrir meiri háttar áföll?

Einn af flm. talaði um tombóluvaxtakjör sem nú væru. Vill ekki þessi hv. þm. tala við ungt fólk sem er eða hefur verið að koma yfir sig íbúð og verður nú að borga í mörgum tilfellum 33% í vexti? Ætli margt af þessu unga fólki sé sammála þessum hv. þm. um að það séu tombóluvextir? Vill ekki hv. þm. gera athugun á því, hvernig fólk með venjulegar tekjur getur staðið undir slíkum vöxtum, hvað þá ef þessir vextir væru um eða yfir 50%?

Hv. flm. tala um að það þurfi að breyta lánsupphæð og kjörum á íbúðalánum til að hlutur húsbyggjenda verði ekki fyrir borð borinn þegar raunvaxtastefnan kemur til framkvæmda. En hvers vegna byrja þessir hv. þm. ekki á byrjuninni, að koma slíkum breytingum á, og menn geri sér þá fulla grein fyrir með hvaða hætti það verði gert, áður en ákveðið er hvort og þá hvenær raunvextir verða alfarið upp teknir?

Í þessu sambandi hefur verið talað um að lengja lánstíma húsbyggjenda í a.m.k. 30 eða jafnvel 40 ár með fullri verðtryggingu og 3% vöxtum og að lánin yrðu hækkuð í 80% af byggingarkostnaði. Ferðamálasjóður hefur lánað með fullri verðtryggingu á liðnum árum. Hafa hv. þm. kynnt sér hvernig útkoman er hjá þeim sem slík lán hafa tekið? Menn ættu að kynna sér það áður en þeir binda sig við ákveðnar breytingar á lánskjörum á þessum lánum. Það hefur verið reiknað út hver endurgreiðslan yrði af slíkum lánum á 15, 20, 30 og 40 árum miðað við 30% meðalverðbólgu og 3% vexti. Í öllum tilfellunum er reiknað út frá 1 millj. kr. láni. Á 15 ára láni yrði endurgreiðslan 16 millj. 253 þús. kr., á 20 ára láni 38 millj. 857 þús. kr., á 30 ára láni 426 millj. 909 þús. kr. og á 40 ára láni 3 milljarðar 141 millj. 231 þús. kr. Hv. þm. geta svo reiknað sjálfir út hver endurgreiðslan yrði af 8 eða 10 millj. kr. láni eða hvað sem það nú er, 80% af byggingarkostnaði af meðalíbúð nú. Þessar tölur segja m.a. hvað margfeldniáhrifin aukast eftir því sem lánstíminn lengist.

Það verður vitanlega sagt hér á eftir, að svona útreikningar séu út í hött. En þá vil ég spyrja: Vilja menn láta reikna út hvernig endurgreiðsla slíkra lána hefði verið síðustu 20 árin? Í raun og veru þarf ekki nema athuga útkomuna á ferðamálasjóðslánunum.

Ég sé ekki betur en að eina leiðin, sem sé fær og þarf að athuga, sé að verðtryggja öll lán með sams konar verðtryggingu og raunar allar fjárfestingar, í hvaða formi sem þær eru, en þó yrðu að vera undantekningar frá því og þá sama sem engir vextir. Ég vil t.d. taka undir það sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði fyrr við þessa umr., að landbúnaður getur ekki staðið undir slíkum kjörum, þar sem endursala bújarða til búrekstrar er ekki með þeim hætti að hann geti tekið slík lán og staðið undir þeim. Og þar sem allt útlit er fyrir að samdráttur verði að eiga sér stað í framleiðslu búvara er ekki líklegt að það geri endursölu bújarða, a.m.k. til búskapar, auðveldari.

Ef rekstrar- og afurðalán verða látin bera raunvexti, eins og lagt er til með þessu frv., til hvers mundi það leiða? Hafa hv. flm. gert sér það ljóst? Nú eru vaxtagreiðslur hjá mörgum fyrirtækjum 50% af launakostnaði. Ef þessir vextir yrðu svo tvöfaldaðir eða meira, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. og mundi gerast að öllu öðru óbreyttu hjá okkur, hvað þá með landbúnaðinn? Hafa hv. flm. þessarar till. gert sér grein fyrir, hvaða áhrif þessi breyting mundi hafa t.d. á búvöruverðið í landinu? Ég vil ekki ætla neinum þeirra, sem standa að þessari tillögugerð, að þeir ætlist til þess að bændur yrðu látnir bera þær auknu byrðar sem hækkun vaxta á rekstrar- og afurðalánum hefði í för með sér, enda sé ég ekki betur en að það mundi ríða landbúnaðinum að fullu ef skilyrði raunin. Væri það ekki líka fjarstæðukennt að láta sér detta í hug að fulltrúar jafnaðarstefnu á Íslandi væru með nokkrar ráðagerðir í þá átt?

Hafa menn virkilega trú á því að hægt verði að halda uppi fullri atvinnu ef rekstrar- og afurðalán verða látin bera fulla raunvexti? Og væri það gert, hafa menn gert sér grein fyrir hvaða áhrif slíkt mundi hafa á gengisskráningu á gjaldmiðli okkar? Eða halda hv. flm. þessarar till. að sparifjáreigendur væru betur staddir ef vaxtahækkunin leiddi af sér gengislækkun sem vaxtahækkuninni mundi nema, sem er alveg eins víst að gerast mundi að öllu óbreyttu? Er ekki allt þetta mál flóknara en svo að hægt sé að samþ. það frv., sem hér er til umr., án þess að gera sér fulla grein fyrir áhrifum af slíkri lagabreytingu? — Það var talað um það s.l. föstudag í umr. um þetta mál, að það væri fleira en háir vextir sem væri iðnaði okkar fjötur um fót, og mér skildist þá að reynt væri að gera mjög lítið úr áhrifum vaxtanna á samkeppnisaðstöðu þessarar atvinnugreinar. Og mér skildist á máli hv. ræðumanns, að hann væri kominn á þá skoðun, að það væri mál til komið að fara að takmarka innflutning t.d. á iðnaðarvörum. Sé þetta rétt skilið hjá mér, þá er það mikil stefnubreyting sem hefur orðið hjá Alþfl., ef sá flokkur vill taka upp innflutningshömlur nú. Ætli við þurfum ekki líka að fara að taka til athugunar og endurskoðunar aðild okkar að ýmsum viðskiptasamningum við aðrar þjóðir, áður en við förum að beita viðskiptahömlum.

En hvað sem um það má segja, þá er það furðuleg niðurstaða ef menn eru í raun og veru þeirrar skoðunar, að það skipti ekki neinu verulegu máli fyrir t.d. iðnaðinn þó hann verði að bera helmingi hærri vexti eða jafnvel 3–4 sinnum hærri en sá iðnaður erlendis sem við verðum að keppa við bæði á innlendum og erlendum mörkuðum. Ef öll þessi mál eru í þvílíkri þoku eins og þessi fullyrðing gefur til kynna, er ekki að furða þó till. um lausn þessara mála séu með ýmsum hætti og ekki allar mikið hugsaðar.

Það er mikið rætt um hversu illa sé farið með gamla fólkið, verðbólgan sé að brenna upp sparifé þess. Af málflutningi þessara manna að dæma, verður gamla fólkið sérstaklega illa úti hjá okkur síðustu ár. Ég stend í þeirri trú, að þessu sé alveg öfugt farið. Þó að verðbólgan hafi að vísu rýrt sparifé sem það á, þá eru tekjutrygging og lífeyrissjóðagreiðslur nú með þeim hætti, að það er í flestum tilfellum hreint öfugmæli að segja, að t.d. á þessum áratug hafi verið gengið á rétt gamla fólksins miðað við það sem áður var. Hitt er mér a.m.k. miklu meira áhyggjuefni, hver aðstaða ungs fólks er nú þegar það stofnar heimili. Ég fullyrði að í mörgum tilfellum sé aðstaða þess miklu verri en yfirleitt gamla fólksins. Og þegar gerðar eru ráðstafanir í efnahagsmálum, eins og hér er lagt til að gerðar verði, þarf ekki síður að hyggja að því og meta hvernig aðstaða ungs fólks verður eftir slíkar breytingar.

Þegar byggingarkostnaður er orðinn eins hrikalegur og nú er miðað við algeng launakjör og fjármagnskostnaðurinn er kominn upp úr öllu valdi og til umræðu er að hækka fjármagnskostnaðinn verulega frá því sem er, þá er ekki ástæðulaust að hafa áhyggjur af aðstöðu unga fólksins, því frumþarfir hverrar fjölskyldu eru íbúð til að búa í ásamt fæði og klæði.

Ég sé ekki betur, ef þetta frv. verður lögfest á þessu þingi, en að þá aukist sá vandi sem margt ungt fólk stendur frammi fyrir vegna skulda af íbúð, sem það á nú í erfiðleikum með að ráða við, þá verði slík breyting sem frv. felur í sér til þess að þetta fólk hljóti að missa íbúðir sínar í fjöldamörgum tilfellum, nema um leið verði gerðar ráðstafanir því til hjálpar. — Hér á vel við málshátturinn. „Í upphafi skal endinn skoða.“

Ég er ekki þeirrar skoðunar að fjármagnið eigi að deila og drottna í þessu þjóðfélagi. Ég tel að við eigum að stjórna því, til hvers fjármagnið er notað hverju sinni. Ég tel að stefna eigi að því, eins og frekast er kostur á, að jafna lífsaðstöðuna í þjóðfélaginu. Ef fjármagnið á að deila og drottna og þjóðin að lúta lögmálum þess, eins og mér virðist að lagt sé til með þessu frv., þá jafnast ekki lífsaðstaðan á meðan það ástand varir. Mér er því spurn: Hvernig er jafnaðarstefnan á Íslandi á vegi stödd á því herrans ári 1978?