16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4834 í B-deild Alþingistíðinda. (4106)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Frsm. (Bragi Níelsson):

Herra forseti. Í nál. heilbr.- og trn., sem hér liggur fyrir, greinir að í n. hafi verið haldnir fjölmargir fundir um þetta mál og n. leggur einróma til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem síðar greinir, en við endanlega afgreiðslu málsins var Ragnhildur Helgadóttir ekki viðstödd.

1. brtt., sem n. flytur, er við 3. tölul. 25. gr. Þar er aðeins um prentvillu í frv. að ræða þar sem stóð: „Þeir lífeyrissjóðir sem eiga aðild“ o. s. frv., en ber að vera: „Þeir lífeyrissjóðir sem ekki eiga aðild að samkomulagi“ o. s. frv.

2. brtt. er um að í upphafi 26. gr. skuli standa: „Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1980.“ Þarna er gildistöku laganna frestað um 4 mánuði frá því sem stendur í frv.

Í þriðja lagi er brtt. um að á eftir 26. gr. komi svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

„Ákvæði til bráðabirgða. Fyrir 1. jan. 1980 skal ríkisstj. leggja fram frv. til laga sem létti greiðslubyrðar á Atvinnuleysistryggingasjóði og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eða tryggi þeim nýja tekjustofna.“

Eins og ég sagði áðan voru haldnir mjög margir fundir um frv., og eins og kom fram í ræðu ráðh. við 1. umr. þessa máls voru töluverð mótmæli gegn ýmsum liðum. Flestallir þeir aðilar, sem um málið hafa fjallað, og reyndar heldur fleiri voru kallaðir til viðtals við n. og reynt var að vinna þetta eins og kostur var, og fagna ég því að endanlega urðu nm. sammála.

Þetta merka mál hefur því miður verið mjög langan tíma í n. og það þýðir að skammur tími er til að koma því í gegnum þingið. En það má vera öllum mönnum ánægjuefni að endanlega fékkst algjör samstaða og ég undirstrika það: algjör samstaða í nefndinni.

Ég vona því að hv. d. treysti sér til þess að hraða meðferð málsins svo að sá fjölmenni hópur aldraðs fólks, sem hér um ræðir og réttindasnauður í ellinni, megi horfa til bjartari framtíðar.