16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4878 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Upphaflegur tilgangur minn með framlagningu frv. um breyt. á lögum nr. 57 frá 1978, um heilbrigðisþjónustu, var þrenns konar.

Í fyrsta lagi hugðist ég breyta kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga úr 50%, eins og skiptingin er nú, í 85% þátttöku ríkissjóðs og 15% þátttöku sveitarfélaganna, eins og verið hefur í mörg ár, en var breytt á þinginu í fyrra. Mér finnst eðlilegt að skiptingin sé hin sama varðandi viðhaldskostnaðinn og allan annan rekstrarkostnað húsanna og reyndar byggingarkostnað líka.

Í öðru lagi hugðist ég breyta heilsugæslustöðinni á Þórshöfn úr eins læknis stöð í tveggja lækna og stöðinni á Raufarhöfn úr eins læknis stöð í H stöð, þ. e. a. s. í stöð sem ekki væri með fastan lækni.

Í þriðja lagi ætlaði ég að leiðrétta mörk heilsugæsluumdæma í samræmi við það sem í reynd er nú. Varðandi fyrsta atriðið, kostnaðarskiptinguna, er það að segja, að fjmrh. féllst ekki á breytinguna á þeim forsendum að kostnaðarauki ríkissjóðs væri ekki á fjárlögum þessa árs. Vitanlega er það rétt. Því var það atriði tekið út úr frv. þegar það var lagt fyrir hv. Ed., með það í huga að bíða með það til haustsins að breyta kostnaðarskiptingunni og taka mið af því við gerð fjárlaga fyrir árið 1980.

Hv. heilbr.- og trn. Ed. hefur svo breytt frv. mjög mikið. Hún virðist gera ráð fyrir að H stöðvar, þ. e. a. s. stöðvar þar sem eru ljósmæður eða hjúkrunarfræðingar og aðstaða fyrir lækna, falli niður. Sé ég satt að segja enga röksemdafærslu fyrir því, enda er í till., eins og þær koma frá a., gert ráð fyrir heilmörgum H stöðvum. Mér finnst þetta vera rökleysa hjá n., satt að segja.

Í brtt. n. er gert ráð fyrir að tvær H stöðvar breytist í H 1 stöðvar, þ. e. a. s. í Grindavík og á Grundarfirði. Í Grindavík standa málin þannig, eða hafa staðið þannig til skamms tíma, eftir því sem ég best veit, að þeir vilja ekki H 1 stöð. Þeir vilja ekki breyta til fyrr en þeir fá H 2 stöð, vegna þess að nú hafa þeir þjónustu frá Keflavík, sem er H 2 stöð með þremur læknum, og þeir vilja ekki, a. m. k. hefur það verið til skamms tíma sjónarmið þeirra breyta fyrr en þeir geta fengið H 2 stöð. Um Grundarfjörð er það að segja, að ef þar verður læknir væri eðlilegast miðað við fólksfjölda að ekki yrði nema H 1 stöð eða eins læknis stöð í Stykkishólmi, en þar er núna H 2 stöð.

Þeir lögðu líka til í n., að Eskifjörður yrði H 2 stöð í stað H 1. Um það er að segja, að það er a. m. k. álit rn. að of lítið sé þar að gera fyrir tvo lækna. Læknar verða auðvitað að hafa talsvert að gera, því að annars hafa þeir ekki þær tekjur sem þeir geta sætt sig við.

N. féllst ekki á breytingu á Raufarhöfn og Þórshöfn. Í þessum till. n. felast m. ö. o. till. um að þrjú ný læknisembætti verði lögfest. Mér finnst slíkt varla tímabært meðan stöðuheimildir fást ekki fyrir þeim heilsugæsluembættislæknum sem nú þegar eru í lögum.

Herra forseti. Ég legg til að frv., eins og það er nú komið frá Ed., verði vísað til hv. heilbr.- og trn. þessarar d., en ég tek það fram og undirstrika að ég er andvígur samþykkt þess, eins og það kemur frá Ed., og legg því ekki til að því verði vísað til 3. umr. Ég mun leiðrétta mörk heilsugæsluumdæma með reglugerð og flytja brtt. við heilbrigðisþjónustulögin að nýju strax í haust, m. a. í þeim tilgangi að breyta kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga að því er varðar viðhaldskostnað sjúkrahúsa og búnaðar þeirra.