17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4887 í B-deild Alþingistíðinda. (4211)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka hæstv. forsrh. svör hans við fsp. mínum. Ég held að það hafi komið í ljós af svörum hæstv. forsrh. og þeim umr. og orðum, sem hér hafa fallið, og enn fremur af þeirri þögn, sem hér hefur ríkt, að það liggur ekki fyrir nein stefnumótun af hálfu hæstv. ríkisstj. í kaupgjaldsog kjaramálum. Hæstv, forsrh. orðaði það svo, að engin till. lægi fyrir í ríkisstj. varðandi þessi efni.

Það er sjálfsagt að skipa sáttanefnd til lausnar vinnudeilum allajafna, og sammála er ég hæstv. forsrh., að ætla verður slíkri sáttanefnd hæfilegan tíma til að gera tillögur um lausn slíkra deilna. En þá vaknar sú spurning, hvers vegna til þessa ráðs var ekki gripið fyrr en raun ber vitni. Leiðir það hug og grun að því, að innan ríkisstj. hafi verið á ferðinni aðrar tillögur, nefnilega sú hin venjulega aðferð núv. ríkisstj. að skipa fyrir um kaup og kjör með einhliða fyrirskipunum og lagaboði gagnstætt því sem sigurvegarar úr síðustu kosningum höfðu á kosningastefnuskrá sinni fyrir kosningar.

Ég vil líka skilja vel þau ummæli hæstv. forsrh., að ekki væri hæfilegt af hans hálfu að vera með sérstakar yfirlýsingar varðandi lausn þessara vinnudeilna. En þá held ég að nauðsynlegt sé að hæstv. forsrh. skipi samráðh. sínum hið sama, hann segi, svo að notað sé orðalag hans sjálfs, hásetum sínum fyrir verkum og áminni þá um það að vera ekki með yfirlýsingar um kaupgjalds- og kjaramál í tíma og ótíma. Ég held að einn hásetanna hafi hrósað sér af því, að fljótræðisleg yfirlýsing hans hafi leitt til þess að samningar tókust í flugmannadeilunni og þakið fauk þar af. Sjá menn af því hversu mismunandi skynsamlegar slíkar yfirlýsingar ráðh. eru.

Ég ítreka þá skoðun sem ég lét í ljós, að það er eðlileg krafa að fyrir liggi stefnumótun af hálfu ríkisstj. í svo viðamiklum og mikilvægum málum sem hér er um að ræða áður en þingi er slitið, um leið og ég fagna og undirstrika og efast ekki um efndir á þeirri yfirlýsingu og því loforði hæstv. forsrh.brbl. yrðu ekki gefin út sem ekki væri fyrir fram fullkomin vissa að nytu meirihlutastuðnings Alþingis.

Ég hlýt svo, áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, að gera aths. við þann þátt, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., þar sem hann talaði um athafnasamt þing. Sem betur fer hélt ég að enginn þm. væri haldinn þeirri sjálfsblekkingu að um athafnasamt þing hafi verið að ræða, nema þá ef ég á að taka hæstv. forsrh. alvarlega, sem ég yfirleitt geri, og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson. En ég held að þetta sé frekar sjálfsánægja og felst þá raunar því miður í henni sjálfsblekking.

Það er líka blekking í því fólgin að telja það mikið verk að hafa samþykkt efnahagslög fyrir rúmum mánuði hér á þingi, — efnahagslög sem í raun og veru hafa verið í undirbúningi hér í baksölum og á ríkisstjórnarfundum og flokksfundum stjórnarliðanna í allan vetur, rétt er það. En þegar þessi lög eru samþ. er úr þeim allur veigur og allt það sem gagn mátti gera. En ekki nóg með það. Nú 5 vikum eftir samþykkt þeirra er eiginlega ekki borið við að reyna að koma hinum ýmsu þáttum þeirra í framkvæmd og þessar 5 vikur hafa til viðbótar verið notaðar til þess að þverbrjóta lögin út og suður.

Herra forseti. Ég þakka umburðarlyndi forseta, en ítreka og legg áherslu á að nauðsynlegt var að hér á þingi kæmi fram hvernig málum er háttað, hvernig stefnuleysið er opinberað hjá núv. hæstv. ríkisstj. Hún er ráðlaus, hún er stefnulaus, við höfum ekki ríkisstj. nema að nafninu til, eins og síðasti hv. ræðumaður komst að orði.