17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4893 í B-deild Alþingistíðinda. (4222)

295. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum um Háskóla Íslands er dálítið stórt um sig, en ekki að sama skapi veigamikið efni þess.

Menntmn. ræddi þetta frv. og kvaddi á sinn fund rektor Háskólans og háskólaritara.

Forsaga málsins er sú í örstuttu máli, að eftir mikla þróun og vöxt í starfsemi Háskólans og samhliða því ótal breytingar á reglugerð og starfsreglum var orðið óhjákvæmilegt að samræma reglugerðarákvæðin og færa ýmis atriði reglugerðar Háskólans til samræmis við nýja starfshætti sem óhjákvæmilega koma til í svona stórri stofnun þegar árin líða og þegar eins mikil þróun verður og þar hefur átt sér stað.

Til þess að unnt sé að koma á slíkri nauðsynlegri samræmingu og öðrum óhjákvæmilegum breytingum á reglugerð Háskóla Íslands þarf einnig að breyta nokkrum ákvæðum laga um Háskólann, og að því lýtur þetta frv.

Málið ber þannig að hér á hv. Alþ. og er þannig komið til 2. umr. í þessari hv. d., að það er ágreiningslaust frá n., sem undirbjó þetta mál — og hæstv. ráðh. skýrði frá skipan hennar. En meðferðin öll tók á þriðja ár. Háskólaráð gerði lítils háttar breytingar og það var einnig ágreiningslaust frá því. Síðan kemur málið frá menntmrn. og svo frá menntmn. þessarar hv. d. ágreiningslaust að öðru leyti en því, að minni hl. n., hv. þm. Oddur Ólafsson, er andvígur ákvæði 28. gr. — Við skulum aðeins víkja að því síðar.

Ég þekki þetta mál töluvert vegna fyrri afskipta minna af því og ég tel mjög brýnt vegna starfa og vegna skipulagsmála Háskóla Íslands að ljúka þessu máli nú með setningu laga og reglugerðar. Ég held að það knýi nú enn á um þetta, að nú eru fram undan rektoraskipti í Háskólanum og það væri mjög æskilegt að geta skilið við þetta mál í höfn þegar rektoraskiptin verða og fremur óæskilegt fyrir nýjan rektor að taka við þessu máli óafgreiddu.

Eins og ég sagði leggur menntmn. einróma til að frv. verði samþ. Meiri hl. leggur til að það verði samþ. óbreytt, en minni hl. með þeirri breyt. einni að niður falli heimild til Háskóla Íslands til þess, eins og segir í frv., „að eiga og reka lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala.“ Minni hl. vill fella þetta niður. Ég tel að þetta sé nánast eina verulega efnisbreytingin sem í frv. felst, en hitt séu breytingar sem leiði af þeirri þróun sem orðið hefur í þessari stofnun, eins og ég vék áðan að.

Ég vil aðeins nefna helstu rökin fyrir því að veita Háskólanum þessa heimild.

Það er í fyrsta lagi, að það hefur stundum verið erfitt og stundum mjög erfitt — að vista stúdenta í lyfjafræði hjá lyfsölum í bænum. Það voru á tímabili á meðan ég var í menntmrn. mjög miklir erfiðleikar á þessu, en núna er þetta í lagi. Það hefur náðst um það gott samkomulag að þessu sinni. En slíkir erfiðleikar gætu komið upp aftur.

Annað er svo það, að talið er að ekki sé hægt að taka hér upp kennslu til kandídatsprófs í lyfjafræði nema Háskólinn hafi þessa heimild, hafi ráð á eigin stofnun til þess að undirbúa nemendur til kandídatsprófs.

Og svo er í þriðja lagi, svo ég fari ekki að orðlengja þetta neitt, að með því að Háskólinn ræki, eins og segir í þessu ákvæði, lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala fengist betri aðstaða fyrir Háskólann og prófessorana, sem þar starfa, til rannsókna í þessari grein og jafnframt til nokkurrar framleiðslu lyfja. Þá mundi sem sagt nýtast til þess sú sérþekking sem fyrir er í Háskóla Íslands.

Ég tel þetta sterk rök í málinu. Það var örlítið rætt um það á nefndarfundi hvernig þetta mundi vera hjá nágrönnum okkar, en það varð ekki fyllilega upplýst. En hvort sem nú er fyrir hendi t. d. á hinum Norðurlöndunum sérstök lyfsala á vegum háskóla, eins og rætt er um hér, þá held ég að hitt fari ekki á milli mála, að háskólarnir þar eru miklu stærri og grónari og öflugri stofnanir en okkar ungi háskóli. Þær hafa sjálfsagt margfalda aðstöðu til þess að vinna að þessum málum á eigin rannsóknarstofnunum, þó að það sé í öðru formi en hér er stefnt að. Ég vil einnig benda á að þetta yrði með vissum hætti hliðstætt því að Háskólinn hefur aðgöngu að ríkisstofnunum, ríkisspítölunum, til þjálfunar á öðrum sviðum.

Ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi, að það er ákveðin stefna núv. hæstv. ríkisstj. að taka slíka heimild í lög. Auk þess sem það í þessu frv. er í frv. um lyfjadreifingu einnig gert ráð fyrir slíkri heimild.

En hvað sem líður ágreiningi varðandi þetta atriði, þá vona ég að hv. þdm. séu mér sammála um að þetta út af fyrir sig sé einfalt mál og tiltölulega auðvelt að taka til þess afstöðu og að menn sjái sér fært þrátt fyrir þennan ágreining að afgreiða þetta frv. út úr d. En sem sagt, meiri hl. menntmn. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt.