18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4941 í B-deild Alþingistíðinda. (4269)

80. mál, sala notaðra lausafjármuna

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur verið með þetta mál í athugun nokkurn tíma og hefur fengið umsagnir frá tveimur aðilum, Bílgreinasambandinu og viðskrn., sem lýsa yfir stuðningi við frv.

Á undanförnum árum, sérstaklega hér á aðalþéttbýlissvæði landsins, hefur þróast margvísleg verslun með bifreiðar, innanstokksmuni og annan varning. Á þessu sviði hafa orðið umfangsmikil viðskipti og mikil velta, sem þar gerist, og kaupendur þessara muna þurfa að hafa vissa tryggingu fyrir því, að þeir, sem um þessa verslun sjá, fari að öllu eftir settum reglum í þjóðfélaginu. Það hefur einnig borið við að slíkar verslanir geta, ef þær eru ekki undir opinberu lágmarkseftirliti, verið vettvangur þar sem menn reyna að koma í sölu stolnum varningi af ýmsu tagi. Fyrir þá sök og með margvíslegum öðrum rökstuðningi telur n. nauðsynlegt að samþykkja frv., þannig að lög séu sett sem tryggja að allir þeir, sem fást við verslun af þessu tagi, þurfi að fá sérstakt leyfi til þess og þeim beri að halda skrá yfir varninginn svo að gögn verslunarrekstrarins séu þannig að ef á þarf að halda sé hægt að hafa nauðsynlegt eftirlit með starfseminni. N. finnst aftur á móti að í 6. og 7. gr. frv. sé of ítarlega að málum kveðið og heppilegra sé að setja um þau atriði, sem þar eru nefnd, sérstaka reglugerð og beitir sér þess vegna fyrir brtt. og flytur þær á þskj. 800. Brtt. eru fólgnar í því, að í stað 6. og 7. gr. komi ný grein, 6. gr., þar sem ráðh. er veitt heimild til að ákveða að skrá skuli halda um allan varning sem veitt er viðtaka til endursölu, hvort sem hann er keyptur eða tekinn til umboðssölu. Í samræmi við þessa efnisbreytingu er nauðsynlegt að breyta einnig í 5. gr. orðinu „tölusettur“ í skráður, en prentvillupúkinn mun hafa komist í þskj. 800 á þann veg að strika út úr handritinu eitt orð. 1. liður á því að hljóða á þann veg: „Við 5. gr. Í stað orðsins „tölusettur“ komi: skráður“, en þetta hefur fallið niður í prentun. Mun ég samkv. ábendingu hæstv. forseta d. flytja sérstaka skrifl. brtt. þar sem þessi prentvilla er leiðrétt.

N. leggur að öðru leyti til að frv. verði samþ. með áorðnum breytingum.