18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5011 í B-deild Alþingistíðinda. (4329)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Umr. um frv. til l. um breyt. á l: nr. 101 frá 1966, um Framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o. fl., hefur nú verið dálítið drepið á dreif, svo að ekki sé meira sagt, og jafnvel leystist upp í almennar stjórnmálaumr. í framhaldi af þeim sem fóru fram á hv. Alþ. í gærkvöld og var útvarpað.

Hér kom í ræðustól áðan hv. 7. þm. Reykv., Vilmundur Gylfason, og var skemmtilegur að vanda. Það, sem helst bar e. t. v. til tíðinda í ræðu hans, voru viðhorf hans til stjórnarinnar, en fólk bíður nú með öndina í hálsinum eftir að vita hver afdrif hennar verða, því að það var athyglisvert að hann nánast afmunstraði hæstv. forsrh. með því að kalla hann 1. þm. Norðurl. v. og lagði á það mikla áherslu að hann hefði aðeins um sinn verið kjörinn til þess að sinna forustustörfum í þeirri sveit sem við köllum hér hæstv. ríkisstj. Hv. þm. vék einnig í máli sínu að okkur sjálfstæðismönnum og dró okkur sundur í hafra og sauði; annars vegar í frjálshyggjumenn, fulltrúa neytenda, og hins vegar í sótsvarta framsóknarmenn, fulltrúa ríkisafskiptanna. Það er ósköp eðlilegt að reynt sé af hálfu Alþfl. að gera sér mat úr þeirri staðreynd sem hlýtur að verða í stórum flokki, — flokki sem hefur inni að halda fulltrúa úr öllum stéttum landsins, að draga fram í sviðsljósið þá erfiðleika sem verða hjá slíkum flokki þegar um stefnumörkun er að ræða. En áður en ég vík að því væri ástæða til þess að spyrja hv. þm. Alþfl., hvort einhugurinn í þessu máli sé jafnmikill og af er látið. Mig langar sérstaklega að spyrja í því sambandi, ef einhver þeirra skyldi heyra til mín, þeir hafa nú horfið úr augsýn minni um hríð, hver sé staða t. d. hv. þm. Finns Torfa Stefánsson, 2. landsk. Mér er nær að halda að sjónarmið hans fari ekki í öllum atriðum saman við þau sjónarmið sem heyra mátti af vörum þeirra félaga, hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og Vilmundar Gylfasonar. Fyrir skömmu mátti lesa mikla grein í Alþýðublaðinu, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason skrifaði og var ákaflega athyglisverð fyrir þann rökstuðning sem kom fram í þeirri grein. Hann benti á að í Sjálfstfl. væri nú komin upp sveifla í átt til frjálshyggju og þar með væri Sjálfstfl. að marka stefnu sína til hægri, hann hefði gerst íhaldsflokkur. Á sama tíma sagði hann að Alþfl. væri orðinn frjálshyggjuflokkur, lýsti honum svipað og hann lýsti Sjálfstfl., og komst þá að þeirri niðurstöðu, að Alþfl. væri orðinn frjálslyndur flokkur. Slíkur málflutningur og rökstuðningur ber þess merki að hv. þm. er farinn að óttast dálítið um fylgi sitt, og það er ósköp eðlilegt þegar tillit er tekið til þess, hvernig Alþfl. hefur staðið sig í núverandi stjórnarsamstarfi.

Það er jafnframt athyglisvert að umr. fara ekki fram í dagblöðum bæjarins um stefnu hæstv. ríkisstj. eða stefnuleysi, heldur hafa umr. fyrst og fremst átt sér stað með þátttöku fulltrúa Alþb. og Alþfl. um stefnu sjálfstæðismanna í efnahagsmálum sem á sínum tíma var sett fram s. l. febr. undir nafninu: „Endurreisn í anda frjálshyggju.“ Það er kannske tímanna tákn, að þessi stefna, sem sjálfstæðismenn hafa markað, er fremur til umr. heldur en sú stefna eða það stefnuleysi sem einkennir núv. hæstv. ríkisstj. En ótti Alþfl, byggist að sjálfsögðu á því, að Sjálfstfl. og Alþfl. eiga um margt sameiginlegan atkvæðamarkað, ef svo má að orði komast. Það er alveg ljóst, að Alþfl. bólgnaði jafnvel meira en verðbólgan í síðustu kosningum vegna þess að hann hlaut fylgi ýmissa aðila í þjóðfélaginu sem ella hefðu kosið Sjálfstfl. Hv. þm. Alþfl. finna nú á degi hverjum fyrir því, að um atkvæðahrun er að ræða. Það sjá þeir í dagblöðum bæjarins þegar hér fara fram skoðanakannanir, að fylgið hefur hrunið af þeim. Þeir hafa hörfað og hörfað og hafa reyndar lagt á flótta í viðskiptum við aðra stjórnarflokka, og nú er svo komið að þeir hræðast ekkert meira en kosningar í landinu, þótt í orði kveðnu þykist þeir hafa hugrekki til að bera.

Það, sem kannske ýtir einkum undir það að maður gæti álitið að kosningar væru í nánd, er annars vegar það þegar hæstv. viðskrh. er farinn að hæla ástandinu í landinu úr hófi fram. Þá býður manni í grun að nú hljóti undur og stórmerki að vera í nánd, því að auðvitað þarf hæstv. ráðh. að geta gumað af góðu starfi í ríkisstj. Hins vegar marka ég þetta af því sem ég hef áður vikið að, hver afstaða Alþfl. er og hver ótti hv. þm. Vilmundar Gylfasonar virðist vera við þá frjálshyggjusveiflu sem undanfarið hefur átt sér stað í Sjálfstfl. Um það hins vegar, hvað gerist að kosningum loknum, er erfitt að segja. Ég er þó viss um það, að eftir því sem lengra verður til kosninga, því meiri möguleikar eru á því að Sjálfstfl. fari einn með stjórn landsins að þeim loknum. Verði hins vegar kosningar í bráð má reikna með tveggja flokka stjórn. En eitt er víst, að um stjórnarskipti verður ekki að ræða fyrr en að loknum kosningum og um stjórnarsamstarf Sjálfstfl. og Alþfl. verður ekki að ræða fyrr en Alþfl.-menn hafa verið kjöldregnir í kosningum þannig að hægt sé við þá að tala í fullri alvöru og hreinskilni þegar að því kemur að mynda ríkisstj.

Auðvitað er of snemmt að ræða um þetta, en ég hef gert það hér vegna þess að umr. um það mál, sem er á dagskrá, hafa meira og minna snúist upp í slíkar umr. um málefni. Ástæðan er auðvitað sú, að hæstv. landbrh. leggur ofurkapp á að fá það frv., sem hér er til umr., í gegn á þessu þingi, á þeim fáu dögum sem eftir eru, og Alþfl. telur að það eigi að gerast með aðstoð stjórnarandstöðunnar. Ég vil þess vegna taka það skýrt fram strax, að í slíkum stórmálum eins og hér er verið að ræða verður auðvitað ríkisstj. að koma sér saman um hvað hún ætli að gera, og á ég þá fyrst og fremst við þann þátt frv. sem felst í bráðabirgðaákvæðinu og fjallar um 3.5 milljarða kr. er Framleiðsluráð landbúnaðarins á að fá heimild til þess að fara með. Aðeins þegar stjórnin hefur komið sér saman er eðlilegt að slíkt frv. sé lagt fram á þinginu, og þá mun Sjálfstfl. að sjálfsögðu koma fram sínum sjónarmiðum. Það er á ábyrgð þessarar ríkisstj. sem þessum málum er hreyft, og auðvitað er það í samræmi við allar venjur hér á landi að stjórnarflokkar verða að koma sér saman um slík mikilvæg málefni. Með þessu hef ég ekki verið að víkja að þeim erfiðleikum sem bændastéttin, landbúnaðurinn og reyndar þjóðin öll á við að glíma vegna alkunnra erfiðleika í landbúnaði, enda ætla ég ekki að ræða þau mál sérstaklega að sinni. Það er þó ljóst, og það vil ég taka skýrt fram, að markaðskerfið, sem er það kerfi sem við sjálfstæðismenn álítum að sé farsælast að nota í þjóðarbúinu til þess að ná fram sem bestum lífskjörum, á ekki við að fullu leyti í landbúnaðarmálum frekar en í okkar nágrannalöndum.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði hér áður, að ein af ástæðunum fyrir þeim vandamálum, sem við stöndum frammi fyrir, er að sjálfsögðu það misvægi í almennum mannréttindum sem ríkir hér á landi og birtist fyrst og fremst í kosningarréttinum, sem er misjafn, þannig að vægi atkv. í fámennum byggðarlögum, þar sem landbúnaður er stundaður, er miklu meira en á þéttbýlum svæðum þar sem fyrst og fremst er um neytendur að ræða.

Annað atriði, sem vert er að draga fram í þessum umr., er það, að alger nauðsyn er að fyrr en síðar verði settar niður á einn stað þær aðgerðir sem þegar hafa átt sér stað og eiga eftir að eiga sér stað og teljast til stuðnings, einkum fjárstuðnings, við bændur. Af og til á þessu þingi, sem nú hefur setið, höfum við þm. fengið á borðið til okkar till. um vissan stuðning við bændastéttina í formi félagslegra úrbóta, svo að eitthvað sé nefnt. En aldrei er reynt að ná tökum á málinu í heild. Þetta verður að sjálfsögðu að liggja fyrir, og ég er hér með skýrslu um hvernig þetta lítur út á Norðurlöndunum. Hún er tekin saman af 4 mönnum sem þangað fóru á s. l. ári. Þar kemur í ljós að slíkt starf hefur að sjálfsögðu verið unnið í okkar næstu nágrannalöndum.

Aðalástæðan fyrir því, að ég kem hér upp í ræðustólinn við 2. umr., en ég gerði það jafnframt við 1. umr. málsins, er sú, að ég tel að í 1. og 2. gr. frv. sé um að ræða atriði sem þurfi að skoða mun betur en gert hefur verið. Þar á ég við það atkunna úrræði, að nú eigi bændastéttin að semja beint við ríkisvaldið um kjör sín eins og þau koma fram í verðmyndun landbúnaðarafurða. Mér er kunnugt um að um þetta er víðtæk samstaða manna, að ég hygg úr öllum stjórnmálaflokkum, en það eru líka til menn og jafnvel í öllum hinum sömu stjórnmálaflokkum, a. m. k. flestum þeirra, sem telja að fyrst eigi að reyna annað kerfi. Mig langar til þess að spyrja hv. nm. að því, sem fjölluðu um þetta frv., hvort þeir hafi t. a. m. kynnt sér niðurstöður og álit minni hl. framleiðsluráðslaganefndar sem starfaði á síðasta ári og fram á þetta ár, skilaði áliti sínu 5. mars s. l. og lagði til að allt annað kerfi væri upp tekið. Mig langar til að spyrja að því vegna þess að sú skýrsla liggur fyrir og upphaf þess máls, sem hér er til umr., má rekja til þeirrar staðreyndar, að Alþýðusamband Íslands, sem var aðili að svokallaðri sexmannanefnd, dró sig í hlé og neitaði að starfa í slíkri n. sem tekur afstöðu til verðs á landbúnaðarafurðum. Þetta var forsendan. Þarna er að leita rótanna að þessari meinsemd. Það er þess vegna sem menn hafa brugðist við og sagt: Við eigum ekki önnur ráð en þau að leita beint til ríkisvaldsins og semja beint við það. — Mig langar til þess, með leyfi forseta, í stuttu máli þó, að gera grein fyrir þessum till. Að þessum till. stóðu annars vegar Brynjólfur Bjarnason, sem var fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands, og hins vegar Ásmundur Stefánsson framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, og ég tel það vera mjög merkilega niðurstöðu þegar annars vegar fulltrúi Vinnuveitendasambandsins og hins vegar fulltrúi Alþýðusambandsins komast að sameiginlegri niðurstöðu í máli. Mér finnst þá vera full ástæða til þess að kanna málið til hlítar. Í almennum aths. minni hl. segir svo í upphafi, með leyfi forseta:

„Frumvarpsdrög þau, sem hér fylgja, eru nál. minni hl. framleiðsluráðslaganefndar, en hann skipa Ásmundur Stefánsson, fulltrúi Alþýðusambands Íslands, og Brynjólfur Bjarnason, fulltrúi Vinnuveitendasambands Íslands. Eins og fram kemur í almennri grg. um starf n. má rekja skipan hennar til þess, að með bréfi, dags. 31. jan. 1975, fóru aðilar vinnumarkaðarins fram á að þeim yrði gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í n. sem skipuð yrði til að endurskoða gildandi fyrirkomulag í verðlagsmálum búvara. Samtökunum er ljóst að stefnan í landbúnaðarmálum og verðlagning búvara hafa veruleg áhrif á hag umbjóðenda þeirra. Við framhaldsstefnumótunina í landbúnaðarmálum er því nauðsynlegt að samtökunum gefist aðstaða til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.“

Í till. um ný lög segir svo, með leyfi forseta, um 8. gr., þar sem rætt er um verðákvörðun og verðskráningu: „Verðlagsráð landbúnaðarins skal skipað 7 mönnum.

Skulu 2 tilnefndir af stjórn Stéttarsambands bænda, 1 af Framleiðsluráði landbúnaðarins, 2 af Alþýðusambandi Íslands og 1 af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ríkisstj. skipar formann verðlagsráðs. Jafnmargir varamenn skulu tilnefndir á sama hátt. Tilnefning í verðlagsráð landbúnaðarins gildir til eins árs í senn og skal ráðið fullskipað 1. júlí ár hvert. Ályktanir verðlagsráðs landbúnaðarins eru lögmætar ef meiri hl. samþykkir.“

Og í 9. gr.: „Formaður verðlagsráðs er tengiliður ríkisstj. og ráðsins um öll þau atriði sem varða fyrirgreiðslu hins opinbera, svo sem tilhögun á niðurgreiðslu búvöruverðs á innlendum markaði, útflutningsbætur, framleiðslu og framleiðslustöðvunarstyrki og önnur framlög eða aðgerðir sem áhrif hafa á afkomu framleiðenda.“

Eins og hv. þm. heyra er hér um að ræða talsvert annað fyrirkomulag en gert er ráð fyrir í því fvr. sem hér liggur fyrir til umr. í hv. d. Áður sátu í sexmannanefnd af hálfu neytenda fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Landsambands iðnaðarmanna og Sjómannafélags Reykjavíkur. Þar er því gerð breyting í þessu efni, auk þess sem fulltrúi ríkisins kemur þarna inn og verður oddamaður, svo að um margt svipar þessu kerfi til verðmyndunarkerfis sjávarútvegsins. Ég hef ekki heyrt að um þetta mál hafi verið fjallað eða þessar hugmyndir hafi komið upp í viðkomandi hv. n., sem um þetta mál fjallaði, eða hvort fulltrúar Alþýðusambands Íslands voru kallaðir til skrafs og ráðagerða til að kanna hvort annað kerfi væri e. t. v. heppilegra heldur en það sem lagt er til í frv. hæstv. ráðh. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherslu, vegna þess að ef það reynist rétt held ég að vanti talsvert á að þetta mál hafi fengið þá afgreiðslu sem vert væri.

Mig langar — með leyfi forseta — að fá að gera þessa mynd fyllri með því að lesa örstuttar skýringar við 8. og 9. gr. Um 8. gr. segir með leyfi forseta — í aths. þeirra tvímenninganna sem mynda minni hl. áður greindrar n. orðrétt:

„Ef á annað borð á að vera tekjuviðmiðun í lögunum telur minni hl. eðlilegt að fulltrúar neytenda séu aðilar að verðákvörðun. Við núverandi aðstæður verður að telja að ASÍ og BSRH séu heppilegustu fulltrúar neytenda. Í þessari grein er gert ráð fyrir því, að verðákvörðunin fari fram í verðlagsráði landbúnaðarins sem verði skipað 7 mönnum. Skulu 2 tilnefndir af stjórn Stéttarsambands bænda, 1 af Framleiðsluráði landbúnaðarins, 2 af Alþýðusambandi Íslands og 1 af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Ríkisstj. skipar formann ráðsins. Ákvarðanir verðlagsráðs eru endanlegar, þeim verður ekki áfrýjað, og þar af leiðandi er ekki gert ráð fyrir neinni yfirnefnd. Fulltrúi ríkisins er formaður n. og er þannig gert ráð fyrir því að ríkisstj. sé beinn samningsaðili. Eins og áréttað er í 9. gr. gerir þetta fyrirkomulag mögulegt að taka tillit til fjölmargra opinberra aðgerða, sem snerta landbúnað.“

Og um 9. gr. segir:

„Í þessari grein er áréttað það hlutverk formanns verðlagsráðs að vera fulltrúi ríkisstj. og tengiliður milli hennar og ráðsins um öll þau atriði sem varða fyrirgreiðstu hins opinbera.“

Auðvitað mætti hugsa sér það, að ef Neytendasamtökin væru byggð upp og gerð sterk fengju þau aðild að þessu máli, og í því sambandi vil ég vitna til ágætrar greinar sem hæstv. viðskrh. skrifar í síðasta tölublað Neytendablaðsins sem Neytendasamtökin gefa út, þar sem hann bendir m. a. á möguleika til samstarfs á milli Neytendasamtakanna annars vegar og Alþýðusambandsins eða launþegasamtakanna hins vegar sem gæti verið m. a. um verðákvörðun þar sem markaðskerfið á ekki við. En ég sagði fyrr í ræðu minni, að þrátt fyrir að ég teldi sjálfan mig mikinn frjálshyggjumann væri mér ljóst að um frjálsa verðmyndun væri ekki að ræða, því miður, í náinni framtíð í landbúnaði, þótt auðvitað ætti að styðja að því og ýta undir það að svo gæti verið þegar til lengri tíma er litið.

Ég hef að nokkru kynnt mér þau gögn sem fjórmenningarnir, sem komu úr Norðurlandaferðinni, lögðu fram og þar er að finna, sem maður kannske mátti segja sér sjálfum, staðreyndir um mikil opinber afskipti ríkja af þessum málefnum landbúnaðarins hjá frændum vorum á Norðurlöndunum, sérstaklega þó í Noregi og í Svíþjóð, en auðvitað gegnir öðru máli um Danmörku þar sem hún er hluti af Efnahagsbandalaginu. En ég vil minna á það, að einmitt um þessar mundir hafa farið fram ítarlegar umr. í Noregi og Svíþjóð, ekki aðeins um landbúnaðarmál, heldur um alla aðra atvinnuvegi, þar sem rauði þráðurinn hefur verið sá að hverfa frá niðurgreiðslu og styrkjum sem mest þeir geta, en færa þess í stað fjármagn og vinnuafl yfir til greina sem hafa meiri vaxtarmöguleika heldur en þessar greinar. Vissulega er þó tekið tillit til ýmissa annarra markmiða varðandi stefnuna, eins og byggðamarkmiða, enda gætir mikillar sérstöðu, t. d. í Noregi, vegna þeirra alkunnu landshátta sem þar eru.

Þetta var sá kjarni sem ég vildi koma hér að. Ég vildi benda á að það hefði verið unnið starf tveggja aðila vinnumarkaðarins, þeirra aðila sem ráða æðimiklu í þessu þjóðfélagi, og þeir hefðu náð samkomulagi, það samkomulag hafi gerbreytt forsendunum fyrir þeim breytingum sem hér er um að ræða, þar sem þar er lagt til allt annað kerfi og kerfi sem Alþýðusambandið mundi vilja gerast aðili að.

Ég vil þó aðeins í lokin, vegna þeirra orða og hugmynda sem hér hafa komið fram varðandi Sjálfstfl. og afstöðu hans í landbúnaðarmálum, um frjálshyggjumenn og afdankaða framsóknarmenn í Sjálfstfl., sem hv. 7. þm. Reykv. fjallaði um, fá að kynna hér í örstuttu máli hver landbúnaðarstefnan er um þetta atriði, en landsfundur Sjálfstfl. markaði hana fyrir skömmu. Menn verða að hafa það í huga, að í Sjálfstfl. starfa menn úr öllum stéttum og það að sjálfsögðu vekur ýmsa erfiðleika. Og það varð til þess, að á þessum landsfundi, sem ég áður vitnaði til, var ákveðið að stofna til nefndarstarfs í sumar og í haust um landbúnaðarmál sem skilaði til miðstjórnar flokksins áliti sem stætt væri á. Þessi mál eru því í okkar flokki eins og mörgum öðrum í deiglu og taka auðvitað mið af ríkjandi ástandi í landbúnaðinum, sem er slæmt í bráð, en þarf að markast í raun til miklu lengri tíma ef eitthvert vit á að vera í þessum málum. Í þessari landbúnaðarstefnu er víða komið við, en varðandi verðmyndunarmálin segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbúnaðinum séu búin skilyrði til jafns við aðra atvinnuvegi og starfsstéttir í tekjum, þjónustu og menntun. Ákvarðanir um verð á búvörum verði um sinn teknar með aðild ríkisvaldsins. Verðlagning miðist við að vel rekið bú af hóflegri stærð geti skilað tekjum til jafns við það sem gerist í öðrum atvinnugreinum. Þess sé gætt, að dugnaður og hagsýni fái notið sín.“

Meira les ég ekki, enda er það aðeins þessi litli kafli sem máli skiptir varðandi það mál sem við erum hér að ræða í nótt.

Með þessu orðalagi, það skal viðurkennt, var farin millileið. Þar var farin millileið á milli þeirra, sem vildu annars vegar beina samninga við ríkið, og hinna, sem vildu koma markaðslögmálunum frekar fyrir. Þetta segir ekki mikið, en staðfestir þó það, að þessi mál eru til umræðu og umfjöllunar í Sjálfstfl.

Ég tel, herra forseti, ekki ástæðu til þess að sinni að fjölyrða frekar um þetta mál. En ég vænti þess, að annaðhvort hv. nm., sem ég hef beint máli mínu til, eða hæstv. landbrh. gefi mér og öðrum hv. þm. tækifæri til þess að fá að kynnast því, hvort leitað hafi verið til þeirra aðila, sem ég hef hér vitnað til, þegar annars vegar frv. var gert úr garði og hins vegar þegar málið var til meðferðar í n. Ef svo hefur ekki verið gert, sem ég hef reyndar ekki hugmynd um, en ef svo reynist að það hafi ekki verið gert, ekki hafi verið tekið tillit til þessara nýju sjónarmiða sem hafa komið upp hjá Alþýðusambandi Íslands, þá held ég að það sé þess virði að skjóta á einum fundi í hv. landbn., kalla til sín þessa aðila og athuga hvort ekki sé hægt að fá niðurstöðu sem eflaust væri geðslegri fyrir fleiri aðila en sú niðurstaða sem hér liggur fyrir í viðkomandi frv.