21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5100 í B-deild Alþingistíðinda. (4466)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Fyrir nokkru lagði hæstv. fjmrh. fram í þessari deild frv. um breytingu á tollalögum þess efnis að fella niður úr lögunum heimild til að veita ráðherrum afslátt á innflutningsgjöldum bifreiða sem þeir keyptu. Nú er í sjálfu sér ekki nauðsynlegt til að hætta að nota þessa heimild að flytja um það sérstakt frv., og þegar þetta frv. kom hér til umr. í hv. d. beindi ég ýmsum spurningum til hæstv. fjmrh. um það, hvernig skipan bílamála ráðherra í þessari ríkisstjórn væri nú háttað. Ég rökstuddi þá ósk mína með tilvísun til þess, að í aðdraganda síðustu kosninga voru settar fram skýrar og eindregnar kröfur um bætt siðferði á opinberum vettvangi og opnun þeirra mála og breytingar sem fælu í sér að opinber störf, skyldu- og trúnaðarstörf í þágu þjóðarinnar, leiddu ekki sérstaklega til auðgunar þeirra, sem þeim störfum gegna, á óeðlilegan hátt umfram aðra þegna í þessu þjóðfélagi. Ég minnti á það, að sá sigur sem Alþb. og Alþfl. unnu í síðustu kosningum, var að okkar dómi margra m. a. unninn vegna þess, að við gerðum skýrari og afdráttarlausari kröfur til meðferðar opinberra fjármála, einkum og sér í lagi þeirra þátta þeirra sem snerta störf ráðherranna sjálfra og fjármuni þeirra, bílakost og annað í því sambandi, og það væri því skilyrðislaus krafa okkar margra, sem að þessari ríkisstj. stæðu, að þeir, sem við hefðum valið til að hafa forustu fyrir þessari ríkisstj., gengju á undan og sýndu það með sínu fordæmi, að innleiða ætti nýja hætti á þessu sviði. Það væri einkum og sér í lagi nauðsynlegt vegna þess, að á þessum sömu mánuðum hefur verið komið til okkar, meiri hlutans hér á Alþ., og komið til þjóðarinnar, launafólksins í landinu, og óskað eftir því, að það legði á sig margvíslegar fórnir með því að taka á sig byrðar í kjaramálum, með því að skera niður félagslegar framkvæmdir og fjármagn til menningarmála og allt annað sem má nefna í því sambandi, — á sama tíma væri það í hæsta máta óeðlilegt, að hér væru sýndar fyrir utan þinghúsið með hverri vikunni sem liði nýrri tegundir af bifreiðum, sem ráðherrar hefðu aflað sér, sem eins konar tákn um þá óhófseyðslu sem þeir teldu að mætti innleiða á því sviði.

Í framhaldi af þessu fór ég fram á það við hæstv. fjmrh., að hann gerði deildum þingsins skýra grein fyrir því, hvaða reglur giltu á þessu sviði, með hvaða hætti einstakir ráðherrar hefðu keypt bifreiðar sínar og hvert hefði verið framlag hins opinbera eða fyrirgreiðsla á því sviði. Því miður lýsti hæstv. fjmrh. því yfir þá, að hann sæi enga ástæðu til þess að gefa hv. d. þessar upplýsingar, þrátt fyrir það að bæði ég og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ítrekuðum sérstaklega að það væri höfuðkrafa, að upplýsingar um allt þetta mál kæmu upp á yfirborðið.

Þrátt fyrir þessa neitun hæstv. fjmrh. var fjh.- og viðskn. Ed. staðráðin og einhuga í því að leita sér allra upplýsinga um þessi efni. Kallaði nefndin á sinn fund ráðuneytisstjóra fjmrn., Höskuld Jónsson, og upplýsti hann að fimm ráðherrar í ríkisstj. hefðu fengið bíla til afnota með þeim hætti, að ríkið hefði sjálft keypt þá bíla og ætti þá, einn ráðh. hefði keypt bíl með þeim hætti að notfæra sér þá heimild, sem að vísu er enn í gildi þó ætlunin sé að fella hana niður, að fá afslátt á aðflutningsgjöldum, og einn ráðh. hefði tekið lán hjá ríkissjóði, 3 millj. kr. lán, til að standa straum af þessum bílakaupum. Annar ráðh. hefði tekið lán, en síðan endurgreitt það skömmu síðar.

Á þessum fundi lagði ráðuneytisstjóri fjmrn. jafnframt fram afrit af tillögum fjmrh. sem gerðar voru í ríkisstj. um reglur í þessum efnum, og var okkur tjáð að ætlunin væri að það hefði reglugerðargildi þó að slíkt sé ekki orðið enn. Þessar reglur eru svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Ríkið eigi bifreiðar til afnota fyrir ráðherra, enda séu bifreiðarnar merktar sem ríkisbifreiðar og eingöngu nýttar í erindum ráðherra. Bifreiðarnar væru alfarið reknar af ríkinu og við kaup þeirra væri leitast við að hafa sem flestar þeirra sömu tegundar með hliðsjón af sparnaði á viðhalds- og rekstrarkostnaði. Bifreiðarnar mætti merkja með öðrum hætti en nú tíðkast um ríkisbíla, t. d. með skjaldarmerki Íslands.

2) Ríkið semji við ráðherra um afnot af einkabifreiðum þeirra. Ríkið greiði allan rekstrarkostnað bifreiðanna skv. reikningum, en auk þess greiði það „fyrningarfé“, 10% á ári, sem reiknast af endurkaupsverði viðkomandi bifreiða. Ráðherra, sem kaupir bifreið, á kost á láni úr ríkissjóði allt að 3 millj. kr. með eðlilegum viðskiptakjörum.“

Aðspurður gaf ráðuneytisstjórinn þær upplýsingar, að þótt fyrri reglan væri eingöngu bundin við bifreiðar sem væru nýttar í erindum ráðherra, þá væri síðari reglunni beitt á þann hátt, að allur rekstrarkostnaður bifreiðanna væri greiddur, hvort sem fyrir lægi að þær hefðu verið notaðar í opinberum erindum eða ekki. Jafnframt kom það fram hjá ráðuneytisstjóranum, að fjmrh. hefði sjálfur ákveðið að þetta 3 millj. kr. lán, sem skv. reglunum á að vera á eðlilegum viðskiptakjörum, yrði til 10 ára með 19% vöxtum. Við gerðum ýmsir í nefndinni athugasemdir við það, að hugtakið „eðlileg viðskiptakjör“ væri skilgreint á þann hátt að svo lágir vextir væru tengdir láni til svo langs tíma, þar sem ljóst væri að í bankakerfinu væru nú miklu hærri vextir eða verðtrygging á slíkum lánum og það væri ljóst, að í verðbólguþjóðfélagi væri hægt að hafa umtalsverðan hagnað af því að taka lán á þessum kjörum.

Við spurðum ráðuneytisstjóra fjmrn. síðan að því, hverjir þessir ráðherrar væru, einkum og sér í lagi hvaða ráðh. það væri sem hefði tekið lán hjá ríkinu, þar sem ljóst væri að aðeins einn ráðh. hefði gert það og þannig hagnýtt sér þau kjör sem fjmrh. hefði ákveðið upp á eigin spýtur. Ráðuneytisstjórinn í fjmrn. neitaði að gefa þær upplýsingar og vísaði á forsrn. til að veita þær, þar sem hann taldi að bílamál ráðherra heyrðu undir það rn.

Nokkrum dögum síðar kom á fund nefndarinnár Gísli Árnason fulltrúi í forsrn. og veitti hann greiðlega upplýsingar um þær bifreiðar sem ríkið hefur keypt til afnota fyrir einstaka ráðherra, sem sagt algerlega greidda af ríkinu og eru eign þess. Það er í fyrsta lagi bifreið til handa utanrrh., tekin í notkun 22. mars, kaupverð 7.8 millj. kr., í öðru lagi bifreið handa sjútvrh., tekin í notkun 11. apríl, kaupverð 6.3 millj. kr., í þriðja lagi bifreið handa félmrh. tekin í notkun 11. apríl, kaupverð 6.7 millj. kr., í fjórða lagi bifreið í pöntun handa viðskrh., kaupverð 5–5.5 millj. kr., og í fimmta lagi bifreið í pöntun til handa dóms- og landbrh., kaupverð 8.5 millj. kr.

Það er því ljóst, að þessar bifreiðar eru á nokkuð mismunandi verðlagi, og það vekur sérstaka athygli, að innkaupsverð bifreiðar dóms- og landbrh., þegar hún kemur í notkun, mun væntanlega verða í kringum 9 millj. kr. Hæstv. dómsrh. hefur rökstutt svo hátt kaupverð opinberlega og á öðrum vettvangi með því, að vegir landsins séu svo slæmir að það þurfi bifreiðar í þessum verðflokki til að keyra eftir þeim, og má nú segja að bágt á þá aumingja almenningur þessa lands, sem verður að láta sér nægja ódýrari bifreiðar, ef hæstv. landbrh. landsins kemst ekki yfir vegi þess á öðrum bifreiðum en í þessum verðflokki. En þetta mun vera jafngildi um fimm Skodabifreiða, svo að dæmi sé tekið til að sýna samanburð.

Þá upplýsti fulltrúi forsrn. það, að forsrh. hefði keypt bifreið með því að hagnýta sér þá heimild sem ríkisstj. er nú að beita sér fyrir að fella niður, þ. e. að fella niður aðflutningsgjöld. Formlega séð er ekkert gagnrýnisvert við slíkt, en út frá siðferðissjónarmiði tel ég persónulega óeðlilegt að hæstv. forsrh. sé að hagnýta sér heimild, sem ríkisstj. hefur lýst yfir að hún ætli að fella niður með frv. sem hún leggur fyrir Alþ., nokkrum vikum eða mánuðum áður en heimildin gæti fallið úr gildi. Slíkan gjörning, að hagnýta sér heimildina sem ríkisstj. undir hans forsæti er að beita sér fyrir að fella niður, sjálfsagt vegna þess að talið er að heimildin sé óeðlileg, tel ég ekki samrýmast þeim siðferðiskröfum, sem gera verður til þessarar ríkisstj., þó að formlega sé hæstv. forsrh. vissulega í sínum fulla rétti.

Þegar kom að því að spyrja fulltrúa forsrn. hvaða ráðh. hefði keypt bifreið með því að fá lán hjá ríkissjóði, þá kom sú spurning fulltrúa forsrn. mjög á óvart og hann lýsti því yfir, að forsrn. hefði ekkert með þau mál að gera og hefði aldrei haft. Hann vissi ekki um neina slíka lánveitingu, hún hefði aldrei farið um hans hendur og hann gæti þess vegna á engan hátt greitt úr þessari spurningu, en vísaði á fjmrn. sem með þessi mál hefði að gera.

Þegar svo var komið, að fulltrúi forsrn.- að mínum dómi réttilega, og ég hef enga ástæðu til að vefengja það taldi þetta mál aldrei hafa komið og ætti ekki að koma til meðferðar forsrn. og hefði aldrei um hans hendur farið, enda væri það einkamál viðkomandi ráðh. og þeirra sem sæju um fjármál ríkissjóðs, þá kölluðum við á ný til fundar við okkur s. l. laugardag ráðuneytisstjórann í fjmrn., Höskuld Jónsson. Við greindum honum frá því, að forsrn. eða fulltrúi þess kannaðist ekkert við þessa lántöku. Ráðuneytisstjóri fjmrn. hafði með sér á fundinn ljósrit af samningum sem fjmrn., í öðru tilfellinu hann sjálfur, hafði gert við viðkomandi ráðh. Þrátt fyrir það, að hann væri með samninginn fyrir framan sig, þrátt fyrir það, að hann hefði sjálfur gengið frá þessari lántöku, neitaði hann að gefa nefndinni upplýsingar um það, hvaða ráðh. ætti hér í hlut. Hann bar fyrir sig óljósar embættisskyldur og vísaði enn á forsrn. til að gefa þessar upplýsingar, þrátt fyrir það, að hann væri með afrit af samningnum fyrir framan sig og hefði sjálfur gert hann. Þegar svo var komið, að við í nefndinni vorum búin að fá í annað sinn neitun frá ráðuneytisstjóra fjmrn. um að upplýsa hver hefði tekið þetta lán, og þegar maður lagði síðan saman þær upplýsingar, sem lágu fyrir um aðra þætti þessa máls innan nefndarinnar, Og opinbera yfirlýsingu frá hæstv. iðnrh., sem einnig hefur keypt sér nýja bifreið, um að hann hafi keypt hana algerlega fyrir eigin reikning og án nokkurrar lántöku nema e. t. v. úr sparisjóði, væntanlega í Neskaupstað, þá fóru því miður böndin að berast að því, að sá ráðh., sem hér ætti hlut að máli, væri hæstv. fjmrh. sjálfur.

Þegar dagblaðið Vísir spurði ráðherra um bílakaup þeirra hér fyrir utan alþingshúsið 11. maí s. l. svaraði hæstv. fjmrh. samkv. frásögn Vísis orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Ég á þennan bíl sjálfur og hef borgað hann úr eigin vasa að öllu leyti, aðflutningsgjöld og annað.“ Orðasambandið „úr eigin vasa“ skil ég og hafa margir skilið þannig, að viðkomandi hafi algerlega lagt fram fjármuni til kaupanna. Blaðamaðurinn bætir síðan við, með leyfi hæstv. forseta: „Tómas sagðist enga sérstaka fyrirgreiðslu hafa fengið vegna kaupanna.“ Ég endurtek: „Tómas sagðist enga sérstaka fyrirgreiðslu hafa fengið vegna kaupanna.“ Nú skal ég ekki fullyrða það, að blað geti ekki farið rangt með, það gera þau oft og ég hef sjálfur reynt það, þannig að ég er ekki reiðubúinn að leggja ummæli dagblaðsins Vísis — með allri virðingu fyrir því blaði — ein sér til grundvallar. En nokkrum dögum síðar, 16. maí, leitar þetta blað aftur til hæstv. fjmrh. og innir hann eftir nánari skýringum, og skv. frásögn blaðsins sagðist ráðh. engu hafa við þetta að bæta. S. l. föstudag hefur Morgunblaðið svo samband við hæstv. ráðh., og er það í þriðja sinn sem blað spyr hann um þetta mál á síðustu dögum. Í frásögn Morgunblaðsins segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Fjmrh. sagðist ekki sjá ástæðu til að veita þessar upplýsingar.“

Skv. þeim gögnum og upplýsingum, sem hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur fengið, og þeim yfirlýsingum, sem komið hafa fram frá þeim eina ráðh. sem hefur til viðbótar keypt bíl, hæstv. iðnrh., um að hann hafi keypt fyrir eigin reikning, og enginn hefur vefengt þær fullyrðingar, þá verður því miður að játa það, að eins og dæmið lítur út, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem hafðar eru eftir hæstv. fjmrh. í blöðum, virðist hann vera sá ráðh. sem tekið hafi umrætt lán, — eini ráðh. í þessari ríkisstj. sem tekið hefur 3 millj. kr. lán á vaxtakjörum sem hann sjálfur hefur ákveðið að séu 19% vextir til 10 ára.

Þess skal þó getið, að í síðara sinnið sem ráðuneytisstjóri fjmrn. mætti á fundi fjh.- og viðskn. gat hann þess, að skv. orðalagi samningsins, sem hann var með fyrir framan sig, en vildi ekki sýna hv. n., væri kveðið á annarra vegar um jafnháa vexti og í almennri sparisjóðsbók og hins vegar ársvexti jafnháa og greiðast af almennum innlánum, og taldi hann að embættismenn í rn. túlkuðu samninginn svo, að þetta þýddi 22% vexti, en ekki 19% eins og hann hefði sagt áður. Má vera að svo sé, en ljóst er þó að það er ekki á hreinu. Og allavega er það ljóst, að þetta eru miklu lægri vextir en eru almennt á verðtryggðum lánum eða þeir hæstu lánsfjárvextir sem eðlilegt er talið að séu í þessu þjóðfélagi á lánum til 10 ára.

Við, sem stöndum að þessari ríkisstj., höfum talið nauðsynlegt að þeir, sem væru í forustu fyrir henni, sérstaklega fjármálum hennar, hefðu ekki aðeins stefnulega forustu fyrir þjóðinni, þeir hefðu líka siðferðilega forustu fyrir þjóðinni. Og þetta mál hefur því miður þróast á þann veg frá neitun hæstv. fjmrh. hér í d. fyrir nokkru í gegnum þá fundi, sem haldnir hafa verið í hv. fjh.- og viðskn. Ed., að það er nauðsynlegt, það er höfuðnauðsyn fyrir allt þetta mál, fyrir ráðh. sjálfan og jafnvel stöðu ríkisstj., að það komi skýrt og greinilega fram, hver það var sem tók þetta lán. Það hefur verið haft til afsökunar fyrir því að upplýsa þetta ekki, að það séu einhverjar reglur um að ekki séu veittar upplýsingar um lántökur af þessu tagi. Ég tel að slíkt sé fyrirsláttur einn. Ef ráðh. fær lán hjá ríkissjóði, þá er hann ekki bara venjulegur embættismaður eða venjulegur lántakandi, hann er pólitískur forustumaður og trúnaðarmaður þjóðarinnar og Alþingis og lánsviðskipti hans sem einstaklings og sem ráðh. við ríkissjóð eiga að vera á hreinu, þau eiga að vera opin bók. Það á ekki að þurfa að taka marga fundi, marga daga af störfum hv. n. þessarar deildar að komast til botns í slíku máli.

Þess vegna hef ég kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til að spyrja hæstv. fjmrh. að því beint hér í deildinni, hvort það var hann, hæstv. fjmrh. Tómas Arnason, sem tók 3 millj. kr. lán hjá ríkissjóði til að standa straum af kaupum á bifreið. Hæstv. ráðh. ætti að geta svarað fyrir sig. Við höfum fengið, n. og þm., upplýsingar annars staðar frá um alla aðra ráðherra, en til þess að málið sé á hreinu, til að hægt sé að halda áfram með vinnslu málsins, er nauðsynlegt að þetta mál sé hreinsað, þessi þáttur þess, og ég hef þess vegna, eins og ég sagði, kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann, Tómas Árnason, hafi tekið 3 millj. kr. lán hjá ríkissjóði á almennum sparisjóðsvöxtum, 19 eða 22%, til 10 ára til þess að standa straum af bílakaupum sínum.

Í meðferð nefndarinnar á þessu máli hefur því miður annar þáttur þess smátt og smátt verið að koma fram, og hann er fólginn í að mínum dómi óeðlilega háum rekstrarkostnaði ríkisins af bílum ráðherra. Við höfum óskað eftir því í hv. fjh.- og viðskn. við fulltrúa forsrn., að hann veiti nefndinni ítarlegar upplýsingar um allan rekstrarkostnað ráðherrabifreiða á s. l. ári og fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Fulltrúi forsrn. tók þessari málaleitan vel. Samvinna nefndarinnar við hann hefur í alla staði verið góð og ég vil taka það skýrt fram, að hann hefur leitast við að svara öllum þeim spurningum sem var á hans valdi að svara. Hins vegar er það ljóst, að það er greinilega fyrirhafnarmikið að afla þessara upplýsinga, þær eru ekki enn komnar til nefndarinnar, og eftir athugun sem ég framkvæmdi í gær, er ljóst að það kann að vera nokkuð mikið verk að fá upplýsingarnar í því formi sem ég tel nauðsynlegt að fá. Þá á ég við ekki aðeins heildartölur um meginkostnaðarliði, heldur allt dæmið í heild sinni. Fulltrúi forsrn. sagði, eftir minni, að á árinu 1978 hefðu fastalaun bifreiðastjóra ráðherranna verið 23 millj., yfirvinna 17 millj. og rekstrarkostnaður annar um 20 millj. kr. En það var eftir minni og þetta eru ekki endanlegar tölur.

Á síðustu dögum hefur það hins vegar gerst, að borist hafa til mín upplýsingar um að í rekstrarútgjöldum þeim, sem færð hafa verið á kostnað ráðherrabifreiða á seinni hluta síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs, sé endurnýjunar- og viðhaldskostnaður við einkabifreiðar sem nokkrir hæstv. ráðherrar áttu og voru búnir að eiga í nokkur ár sem einstaklingar í þessu þjóðfélagi áður en þeir gerðust ráðherrar, en hafa síðan látið gera við allrækilega og endurnýjað á fyrstu mánuðum síns ráðherradóms og síðan selt bifreiðarnar nokkrum vikum eða mánuðum seinna, að sjálfsögðu sem einstaklingar, og tekið allan söluhagnaðinn til sín. Mér hafa borist upplýsingar um satt að segja ótrúlega háar upphæðir í þessu sambandi, upphæðir sem nema mörgum hundruðum þús. kr. í viðgerðar- og endurnýjunarkostnað þessara bifreiða. Þetta eru bifreiðar sem ég tek fram að ekki eru lengur notaðar á vegum ríkisins, heldur einkabifreiðar viðkomandi einstaklinga sem þeir höfðu notað sem venjulegir borgarar í þessu landi mánuðum og árum saman áður en þeir urðu ráðherrar og voru aðeins notaðar í stuttan tíma eftir það, voru gerðar upp og síðan seldar á miklu hærra verði en áður hefði fengist fyrir þær, vegna þeirrar endurnýjunar sem farið hafði fram á kostnað ríkisins.

Það er skoðun mín, að þetta mál sé ekki síður alvarlegt og kannske jafnvel enn alvarlegra en sú lántaka hæstv. fjmrh. sem ég hef gert hér að umræðuefni og geri fsp. til hans um einkum og sér í lagi vegna þess að það kann að vera að hér eigi hlut að máli m. a. hæstv. fjmrh., sjálfur sem, eins og þm. er kunnugt, hafði áður en hann varð ráðh. sérstök bifreiðakjör á vegum Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem kunnugir segja mér að nemi um það bil 2/3 af þeim bifreiðakjörum sem ráðh. hafa haft, og sú bifreið, sem hann átti þannig áður en hann varð ráðh. og hefur e. t. v. verið gerð upp að einhverju leyti á kostnað ríkisins, er síðan seld sem einkabifreið ráðh., væntanlega á sama tíma og hann er að taka lán hjá ríkissjóði til þess að kaupa nýja bifreið.

Eftir að hafa ráðgast við einstaka embættismenn og eftir að hafa haft reynslu af því, í hve erfiðri. stöðu þeir embættismenn eru sem við höfum kvatt á fund hv. fjh.- og viðskn. til þess að veita upplýsingar, hef ég kosið í þessu máli að fara aðra leið. Ég vil þó, áður en ég geri grein fyrir því, beina þeirri fsp. einnig til hæstv. fjmrh., á hvaða kjörum hann eignaðist þá bifreið sem hann átti áður en hann varð ráðh., hver var þáttur Framkvæmdastofnunar ríkisins í því og hvort hann hafi kannske — eftir minni — einhverja hugmynd um hver sé upphæð þess viðgerðar-, viðhalds- og endurnýjunarkostnaðar sem greiddur var á vegum ríkisins af bifreiðinni þar til hún var væntanlega seld. En ég skal taka það skýrt fram, að ég hef ekki fengið staðfestingu á því, hvort hæstv. ráðh. hefur selt bifreiðina. Hann gæti kannske upplýst það hér á eftir, alla vega hefur hann keypt nýja bifreið sem hann notar nú sem opinbera bifreið.

Eins og ég sagði áðan, vegna þess að mér er ljóst hve embættismenn ríkisins eru í erfiðri stöðu í þessu máli, þá hefði ég kosið að fara þá leið sem alþm. stendur opin í þessum efnum. Við kjósum hér á hv. Alþ. sérstaka yfirskoðunarmenn ríkisreikninga sem eru sérstakir trúnaðarmenn Alþingis gagnvart fjármálum ríkisins. Ég hef í dag skrifað yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga eftirfarandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, Baldur Óskarsson, Bjarni P. Magnússon, Halldór Blöndal.

Ég undirritaður, Ólafur Ragnar Grímsson alþm, óska eftir því, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga sem sérstakir trúnaðarmenn Alþingis kanni ítarlega allan rekstrarkostnað ríkisins vegna bifreiða ráðherra á árinu 1978 og fyrstu fjórum mánuðum þessa árs, ásamt öllum fylgiskjölum. Sérstaklega verði athugaður viðgerðar- og endurnýjunarkostnaður þeirra bifreiða, sem nokkrir ráðherrar í núv. ríkisstj. áttu áður en þeir urðu ráðherrar, létu endurnýja á ýmsan hátt á kostnað ríkisins og seldu síðan þannig uppgerðar nokkrum vikum síðar. Söluverð hinna gömlu einkabifreiða var þá vegna endurnýjunarinnar orðið mun hærra og kom allur söluhagnaður í hlut þessara ráðherra, sem svo létu flestir ríkið kaupa handa sér nýjar bifreiðar. Það er nauðsynlegt, að athugun á endurnýjunarkostnaði hinna gömlu einkabifreiða taki til allra fylgiskjala, þ. m. t. viðgerðarreikninga frá bifreiðaverkstæðum.

Um leið og ég óska eftir því, að yfirskoðunarmenn ríkisreikninga framkvæmi nú þegar slíka athugun á öllum gögnum, fer ég þess formlega á leit, að þeir sendi síðan öllum alþm. niðurstöðurnar svo að unnt sé að meta hvort og þá í hve ríkum mæli hér sé á ferðinni umframkostnaður hins opinbera sem hafi við sölu einkabifreiðanna fært viðkomandi ráðherrum umtalsverðan hagnað.

Virðingarfyllst,

Ólafur Ragnar Grímsson.“

Ég tel að það sé á allan hátt æskilegra og réttara, að hinir sérstöku trúnaðarmenn Alþingis, yfirskoðunarmenn ríkisreikninga fari ofan í þetta mál algerlega. Það eru það miklar sögur sem um þessi mál ganga. Slíkar upplýsingar hafa borist hv. þm. og nefndum þingsins, að það er höfuðnauðsyn, ef við, sem stöndum að þessari ríkisstj., eigum að geta gert það í góðri trú á siðferðilegt þrek hennar og á siðferðilega forustu hennar, að allir þættir þessa máls komi upp á yfirborðið.

Ég vil taka það skýrt fram, að sá málflutningur, sem ég hef sett hér fram utan dagskrár, er gerður með allnokkrum trega, vegna þess að ég var í þeirri trú, eins og margir aðrir af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj., að þessari ríkisstj. væri ekki aðeins ætlað að hafa forustu fyrir efnahagslegri endurreisn þjóðarinnar, henni væri einnig ætlað að hafa forustu fyrir siðferðilegri endurreisn þjóðarinnar sem svo mjög hefur látið á sjá í þeim efnum í því mikla verðbólgubáli sem hér hefur geisað og vegna þess fordæmis sem ýmsir ráðamenn þjóðarinnar hafa sýnt á undanförnum árum: Ef ég og ég veit margir aðrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. eigum að geta stutt hana til mikilla verka, sem hennar bíða á næstu vikum og mánuðum í baráttu fyrir bættum kjörum, í baráttu fyrir því að bjarga í raun efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar, þá þurfum við að hafa fulla vissu, algjöra vissu um það, að þar sé ekki aðeins á ferðinni efnahagsleg forusta, heldur sé þar einnig á ferðinni siðferðileg forusta með algerlega hreinan skjöld. Þess vegna geri ég kröfu um það hér í hv. Ed. Alþingis, að allt þetta mál verði upplýst.