13.11.1978
Sameinað þing: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

Umræður utan dagskrár

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég tók ekki þátt í þeim umr., sem um þetta mál stóðu hér s.l. þriðjudag, og hafði ekki hugsað mér að gera það nú, nema vegna þess að ég teldi nauðsynlegt að koma á framfæri upplýsingum um starfsreglur fjvn. og þau gögn, sem hún tekur mark á, þegar um heimilaðar eða óheimilaðar stöður er að tefla.

Hæstv. forsrh. hefur hér greint frá því, að hann telji að staða blaðafulltrúa ríkisstj. sé löghelguð staða og þurfi því ekki að fara fyrir ráðninganefnd né taka um það ákvörðun af fjvn., hvort stofna skuli embættið eða ráða í það í einn tíma eða annan. Ég skal ekki fara út í að deila við hæstv. forsrh. um þetta efni og ekki blanda mér í efnisumr. um þetta mál að svo komnu. En ég tel nauðsynlegt að það komi fram, að fjvn. hefur þær reglur að fara eftir því, hvað í Starfsmannaskrá ríkisins segir um heimilaðar eða óheimilaðar stöður. Í Starfsmannaskrá ríkisins frá 1. janúar 1978 er ekki um að ræða neina ónotaða, en heimilaða stöðu í forsrn. Þar er ekki heldur um neina stöðu að tefla sem er ráðið í án heimildar, heldur nákvæmlega þær stöður sem heimildir eru taldar vera fyrir. Þegar þessi Starfsmannaskrá ríkisins var samin hafa því þeir, sem stóðu að því verki, ekki verið sömu skoðunar og hæstv. forsrh. er nú um heimild til slíkrar stöðu.

Fjvn. gengur ekki í það að kanna heimildir í lögum í hverju og einu tilviki. Hún tekur mark á því sem þessi bók segir, Starfsmannaskrá ríkisins, ef ekki eru gerðar athugasemdir við það af starfsmönnum hagsýslustofnunar sem eru viðstaddir okkar störf í fjvn. Auðvitað er þessi bók ekki lög. En hún er gefin út af Stjórnarráði Íslands og fjvn. sem þingnefnd ætlast til þess, að það megi treysta því sem þar kemur fram, hafa enda ekki verið bornar brigður á það fyrr að svo væri.

Um önnur atriði þessa máls ætla ég ekki að ræða til þess að misnota ekki þá heimild, sem hæstv. forseti hefur veitt okkur nokkrum þm. En ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram til þess að sýna fram á varðandi þær athugasemdir, sem hafa verið gerðar í fjvn. og s.l. þriðjudag hér úr þessum ræðustóli, að ef um misskilning er að ræða, þá byggist sá misskilningur á því sem þessi starfsmannaskrá greinir.

Aðrar aths. ætla ég ekki að láta falla að sinni, eins og ég þegar hef sagt, og ekki láta mér bregða við brýningar hæstv. forsrh. t.d. þess efnis, hvort það séu í raun og veru slíkir menn, sem sitji í fjvn. á því herrans ári 1978, er telji eftir stöðu eins og þessa eða annað það sem þarf að koma fram til útgjalda fyrir ríkissjóð eins og nú standa sakir. Það hentar kannske ekki okkur minnihlutamönnum að vera að kippa okkur upp við slíkar brýningar, en má þó vera að seinna verði til þeirra vitnað.