22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5196 í B-deild Alþingistíðinda. (4566)

354. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svörin. Þetta eru mikil fagnaðartíðindi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins — eða hitt þó heldur — að fá upplýsingar um að það sé búið að panta tæki til þess að hækka afnotagjöldin hjá þeim sem á þessu svæði búa. Það er ljóst sem sagt, að hér er enn ein sérstaka skattlagningin á Reykvíkinga og þá sem búa í næsta nágrenni við höfuðborgina. Ráðh. talar um, að hér sé um að ræða útjöfnun á gjaldinu. Það er auðvitað ljóst, að þarna er verið að gera tilraun til þess að hækka afnotagjöld hjá vissum hópi þjóðfélagsþegna vegna þess að einhverjum finnst að gjöldin hjá öðrum séu of há og þá þurfi umfram allt að hækka þar sem lægst er. Þetta er pólitíkin í dag.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þetta mál frekar, tíminn leyfir það ekki og vonandi gefst tími til að fjalla frekar um þetta mál síðar. En ég held að hér sé á ferðinni enn eitt dæmið um það, hvernig ekki á að standa að málum, og sérstaklega lít ég það alvarlegum augum, að hér sé búið að taka ákvörðun og panta tæki, sem kosta mikið fé, án þess að. fjárveitingavaldið sé haft með í ráðum þegar sú ákvörðun er tekin.