22.05.1979
Sameinað þing: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5197 í B-deild Alþingistíðinda. (4568)

353. mál, byggingamál kennaraskóla og skóla þroskaheftra

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil gera örstutta grein fyrir þessum fsp.

Ég minni fyrst á það, að ríki og sveitarfélög kosta sameiginlega byggingu almennra grunnskóla og nokkurra framhaldsskóla. Frjáls samtök koma þar einnig við sögu í nokkrum tilvikum, en margir skólar á framhaldsskólastigi eru kostaðir af ríkissjóði eingöngu. Heildaráætlun um byggingu skólahúsnæðis á hinum ýmsu skólastigum er ekki til enn þá þó að unnið sé að slíkri áætlanagerð, að ég hygg, og þess vegna er það, að ýmis atvik ráða því hvenær hafist er handa um byggingu einstakra skóla.

Nálega allt skólahúsnæði, sem nothæft er talið í dag, er byggt á hálfri öld eða svo og fyrir 100 árum áttum við náttúrlega ekkert skólahús. Þegar svo ofan á þetta bætist að kröfur til skólalærdóms hafa aukist gífurlega á síðustu árum, þá er vissulega ekki nema von að margt sé ógert. Mér sýnist að hjá ríkisskólunum sé þörfin mest fyrir nýtt húsnæði í kennaraskólunum og í skólum þroskaheftra, þó víðar sé þröngt fyrir dyrum.

Menntun kennara er meginatriði almennra fræðslumála, en húsnæðismál kennaraskólanna — af þeim er sorgarsaga. Fyrir aldarfjórðungi var hannað og teiknað húsnæði fyrir hinn almenna kennaraskóla og áætlað að auka síðan við hið teiknaða húsnæði um ca. 50% af því sem teiknað var. Nemendafjöldi var þá áætlaður nokkru lægri en hann hefur orðið síðustu árin og miklu lægri en nú horfir. Byggður var 1/3 af hinu fyrirhugaða húsnæði og þar við hefur svo setið í næstum 20 ár! Það er fyrst á fjárl. 1977 sem veitt er fé beint til framkvæmda, 28 millj. kr. og svo 50 millj. 1978. Það var skorið niður um 25 millj. kr. eftir síðustu stjórnarskipti. En nú eru aftur á fjárl. 50 millj. kr.

Fyrsta spurning mín er um það, hvenær áformað sé að hefja framkvæmdir við nýbyggingu Kennaraháskóla Íslands.

Íþróttakennaraskóli Íslands hefur aðeins getað tekið 32 nemendur á löngu árabili. Í sumar tókst með skyndiráðstöfunum og með samstarfi skóla á Laugarvatni að fjölga inntöku í 48 nemendur. Það hefur verið mjög mikil vöntun á íþróttakennurum og leiðbeinendum. Gildi líkamsræktar er viðurkennt og ekki síst nú þegar kyrrsetur og innistörf fara vaxandi, svo að þarna er um mjög brýnt mál að ræða, að unnt sé að þjálfa fleiri leiðbeinendur og kennara. Nú er þannig ástatt á þessum stað, að fyrir þriðjungi aldar var byggt íþróttahús fyrir Íþróttakennaraskólann, sem þá hafði færri nemendur en ég nefndi áðan, og fyrir Héraðsskólann á Laugarvatni — fyrir meira en 30 árum. Og 12 metra sundlaug var byggð þarna fyrir hálfri öld, nákvæmlega fyrir 50 árum, og við þetta situr enn. Þó eru núna á Laugarvatni, auk þessa skóla sem ég greindi, húsmæðraskóli, grunnskóli og menntaskóli með 200 nemendum. Og allir þessir skólar nota þessi gömlu íþróttamannvirki. Auk þess hefur svo Íþróttasamband Íslands umfangsmikla íþróttastarfsemi þarna á sumrin. Þess vegna má öllum vera ljóst að aðstöðuskortur þarna er ákaflega tilfinnanlegur. Nú stendur eins á um þetta og Kennaraháskólann, að árið 1977 og síðan hefur verið veitt fé á fjárl., þó ekki nema til undirbúningsframkvæmda á Laugarvatni, ekki til að byrja framkvæmdir. Og önnur spurning mín hljóðar svo:

„Hvað líður undirbúningi að byggingu íþróttahúss við Íþróttakennaraskóla Íslands?“

Þá vil ég víkja að þriðju spurningunni. Til skamms tíma hafa menn verið næsta vanbúnir og raunar fákunnandi til þess að sinna þörfum þroskaheftra. Nú aftur á móti hafa möguleikar margfaldast með auknum skilningi og bættri menntun kennara og nýrri þekkingu á þessum málaflokki almennt. En aðstöðu skortir tilfinnanlega. Þegar 1. áfangi Öskjuhlíðarskóla var tekinn í notkun batnaði aðstaðan vissulega mikið, en þrengsli eru þarna gífurleg og það vantar alveg á þennan stað sérhæft húsnæði fyrir ýmsa þætti náms og þjálfunar. Það var svo veitt fé á fjárl. 1977 og síðan til framkvæmda á þessum stað, og þriðja spurning mín er: „Hvenær er áformað að hefja framkvæmdir við nýjan áfanga Öskjuhlíðarskóla?“

Og loks er 4. spurningin um hliðstætt efni, hvað varðar Lyngásheimilið. Það er rekið af Styrktarfélagi vangefinna í Reykjavík. Þar eru mörg börn í dagvist. Það hefur verið áformað að byggja þar kennslu- og þjálfunarhúsnæði sem þá mun nýtast fleirum, enn fleirum en þeim sem þar dvelja. Fé var veitt á fjárl. 1977 og 1979 til byggingarframkvæmda þarna, og 4. spurning mín hljóðar svo: „Hvenær hefjast framkvæmdir við byggingu kennslu- og þjálfunarhúsnæðis við Lyngásheimilið?“

Ég vil að lokum segja að það fer ekki á milli mála, að margir vænta sér mikils af þeim framkvæmdum sem hér er spurt um, þó á fleiri en einu sviði séu. Undirbúningstími þessara framkvæmda er þegar orðinn verulegur, svo ég segi ekki meira. Það er þess vegna mjög æskilegt að fá frá fyrstu hendi sem gleggsta vitneskju um gang þessara mála þannig að allir geti þá vitað hvernig horfir í dag.