22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5219 í B-deild Alþingistíðinda. (4597)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja örfá orð um það mál, sem hér liggur fyrir, vegáætlunina, en að tilmælum hæstv. forseta mun ég þó verða mjög stuttorður.

Vegáætlunin var að þessu sinni sýnd hér fyrst, að ég held, 2. maí, og hinn 22. maí fengum við í hendur nál. frá fjvn. Reyndar segir í vegalögum að ráðh. skuli leggja fyrir hvert reglulegt Alþingi skýrslu um framkvæmd vegáætlunar og að till. til þál. um slíka áætlun skuli lögð fram svo fljótt eftir þingsetningu sem auðið er. Á þessu hafa nú orðið allmiklar tafir. Það má segja, að það skal vel vanda sem lengi á að standa. Hér hefur verið reynt að byggja upp og móta vegáætlun til fjögurra ára, hvernig sem hefur nú til tekist.

Að venju hefur fjvn. fjallað um þessa till., en undirnefnd hennar hefur unnið að tillögugerð um skiptingu fjármagns milli kjördæma og dreifingu þess á verkefni. Ekki efast ég um að fjvn. og undirnefnd hennar hafi notið góðs stuðnings frá vegamálastjóra, Snæbirni Jónassyni, og starfsliði hans. Og einnig höfum við þm. Vesturl., en ég tala aðallega úr þeirra hópi nú, notið leiðbeiningar hans og hans manna svo og umdæmisverkfræðings á Vesturlandi sem er í Borgarnesi.

Það segir í nál. að við lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 hafi fjáröflun til vegagerðar aukist nokkuð að krónutölu, en því hafi aðallega verið varið til aukningar viðhaldsfjár sem hefur verið mjög af skornum skammti á undanförnum árum. Satt að segja er viðhald þjóðvegakerfisins orðið það mikið og kostnaðarsamt, að til vandræða horfir. Ég geri ráð fyrir að það séu fáir þm. ánægðir með þann hlut sem þeim er ætlaður samkv. þessari vegáætlun eða þeirri úthlutun sem hér hefur farið fram. Það er mikill vandi að deila því fé réttlátlega niður sem lítið er Það er vandi að skipta þegar litlu er að skipta. Þetta á sérstaklega við árið 1979. Ég hygg að mörgum þyki sinn hlutur smár og síns kjördæmis á því ári. Þetta á ekki hvað síst við um Vesturlandskjördæmi, og á því vil ég vekja alveg sérstaka athygli.

Það er nú svo, að það horfir áreiðanlega hver á hlutina af sínu heimahlaði í þessum efnum. En þarna hygg ég að hlutur Vesturlands sé áberandi rýr við þessa skiptingu vegafjár fyrir árið 1979. Þetta ár á að vísu sína skýringu. Einhverjar skýringar eru á öllum hlutum. Það hefur verið unnið að stórframkvæmd í vegagerð á Vesturlandi á undanförnum árum. Þar á ég við Borgarfjarðarbrúna. Að sönnu er þetta mikil framkvæmd og talin arðbær og hún mun leysa mörg vandkvæði á þessari leið. En eigi að síður er þessi brú, þetta dýra mannvirki þó aðeins stuttur áfangi af hringveginum, og því er ekki að neita að hinn mikli kostnaður, sem er þessu verkefni samfara, hefur skrifast í hlut okkar Vestlendinga í annan dálk á þann hátt, að við höfum fengið minna fé til annarra framkvæmda. Þess er nú mjög farið að gæta á Vesturlandi.

Það er alveg ljóst, að verkefnum á borð við Borgarfjarðarbrúna verður ekki komið fram nema taka þau að verulegu leyti út úr heildaráætlun um vegaframkvæmdir og vinna að þeim með sérstakri fjáröflun sem sérstökum verkefnum. Þetta segi ég ekki til þess að harma það að lagt hafi verið í þessa miklu framkvæmd. Við höfum öll þessi ár veitt henni stuðning. En þess verður að geta sem rétt er. Og ég endurtek, að við skiptingu vegafjár á árinu 1979 er hlutur Vesturlands áberandi smár. Að vísu er að því vikið í nál, frá fjvn., að n. hafi talið brýna nauðsyn bera til þess að rétta hlut Vesturlands á næstu árum, þ. e. a. s. það hafi verið talin nauðsyn til bera að taka upp í áætlun um fjáröflun til vegaframkvæmda á árinu 1980 sérstaka fjáröflun til Borgarfjarðarbrúar um einn milljarð.

Í þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er verkefnum skipt í almenn verkefni, bundin slitlög og sérstök verkefni. Ég tel þetta framför frá því sem verið hefur, því að vissulega verðum við að horfast í augu við þær staðreyndir að við verðum að fara að leggja vegakerfi okkar bundnu slitlagi. Það ærir óstöðugan að halda svona löngu vegakerfi við meðan það er malbornar moldargötur á löngum köflum. Ég ætla ekki að fara um þetta mörgum orðum. Ég ætla að geta þess sérstaklega, að við flokkun þjóðvega í undirflokka í þáltill. þessari gerði fjvn. þá breytingu frá því sem áður var hugsað á þann veg, að Vestfjarðavegur af Vesturlandsvegi á Snæfellsnesveg verði áfram stofnbraut, en í þáltill. var lagt til að þessi hlutur af Vestfjarðavegi yrði gerður að þjóðbraut. Hér er átt við veginn frá Dalsmynni í Norðurárdal um Bröttubrekku að Skógstagli í Miðdölum, þar sem Snæfellsnesvegur liggur út dalina og út á Snæfellsnes. Ég fagna því að þessi vegur er áfram stofnbraut.

Um leið og ég ítreka það sem ég hef sagt um hlut okkar á Vesturlandi vil ég láta það koma fram, að landsbyggðin öll bíður eftir auknum framkvæmdum í þessum málum. Við þm. höfum gefið fólkinu úti um hinar dreifðu byggðir undir fótinn í þessum efnum. Á undanförnum árum, ekki síst á s. l. ári, hafa verið bornar fram hér á hv. Alþ. ýmsar till., bæði um það að byggja vegi upp úr snjó um gervallt landið og eins á hinn bóginn að leggja vegina bundnu slitlagi. Ég veit að þetta er áhugamál okkar allra sem á þingi sitjum. En árangurinn hefur orðið smár og það er ekki hægt að segja annað en það fé, sem til þessara framkvæmda er ætlað og kemur til skiptanna á því herrans ári 1979, er raunalega lítið.

Það er svo, að fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. hafa skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og hafa þeir nú þegar eða frsm. af þeirra hálfu gert grein fyrir sínu máli. Þeir hafa getið þess á svipaðan hátt og ég hef gert í þessum fáu orðum hér, að vegna ákvörðunar ríkisstj. um stórfelldan niðurskurð á framlögum ríkissjóðs til vegamála á þessu ári er um að ræða 15% magnminnkun nýbyggingar vega í landinu frá því í fyrra þrátt fyrir gífurlega auknar skattaálögur á umferðina. Reyndar er það svo, að árin 1980 og 1981 er gert ráð fyrir nokkurri aukningu í þessum framkvæmdum. En ég held að við hv. alþm. verðum að taka betur á í þessum efnum því að landsbyggðin bíður eftir betra vegakerfi. Það veit ég að við erum allir sammála um. Þeir styðja okkur í því og eru á sama máli sem mestu ráða um framkvæmd þessara mála, vegamálastjóri og hans starfslið um allt land. Þess vegna vík ég að því einu sinni enn og geri það að mínum lokaorðum, að við verðum að leggjast hér betur á árar, alþm. allir. Við verðum að jafna hlut kjördæmanna og stefna að því að gera stórátök í vegaframkvæmdum á allra næstu árum.