22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5233 í B-deild Alþingistíðinda. (4605)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég er viss um að það hafa allir beðið eftir því með óþreyju að ég kveddi mér hljóðs hér í kvöld, og ég vil ekki valda þeim mönnum vonbrigðum, sem hafa treyst því, og langar nú svona í lokin að segja örfá orð, en ég þarf ekki að vera langorðúr. Ég ætla alls ekki að eyða tíma mínum í það að fara að karpa um hver hafi framkvæmt þetta og hver hafi borgað hitt. Það er nú varla sæmandi fullorðnum mönnum að vera að rífast um það á þessari stundu. Allir getum við samt verið sammála um það, hv. alþm., að við erum allir mjög óánægðir með þá takmörkuðu fjármuni sem eru til ráðstöfunar á árinu 1979. Ef það hefur verið fyrir trassaskap fyrrv. ríkisstj. sem gerði þessa vegáætlun fyrir árið 1979, þá hefði hin djarftæka og rausnarlega vinstri stjórn átt að sýna af sér þann mannsbrag að bæta þar úr, þannig að þar er varla við nokkurn einstakan að sakast, heldur alla. En ef við alla er að sakast, þá vill enginn tala, ekki nema hann geti nuddað andstæðingi sínum upp úr skömmunum.

Við verðum að horfa á þetta „blanka“ blað sem birtist okkur öllum fyrir árið 1979, og það hefur svo sannarlega ekki verið erfitt að skipta þeim fjármunum. En sannleikurinn er sá, að ef allir hefðu fengið allar sínar óskir uppfylltar fyrir árið 1979 hefðum við líklega margsinnis sprengt þá ramma sem mjög duglegur stjórnmálaflokkur hefur verið að smíða utan um öll fjármál í þessu landi nú í vetur. Og það er aldrei hægt að uppfylla allar óskir. Þetta er risavaxið verkefni, vegagerð á Íslandi, sem tekur langan tíma og kostar mikla fjármuni. Ég verð að segja það, að miðað við þá upphæð, sem til skiptanna var í heild, er ég ekki óánægður með hlut okkar Sunnlendinga af þeim takmörkuðu peningum. Það er miklu minni vandi að vera að rífast hér og skammast um að við höfum ekki fengið pening í þetta og pening í hitt, en þá verður líka að horfast í augu við það, að fé hefði þurft að koma víðar að. Kröfuræður af þessu tagi og óánægjunöldur eru okkur ekki sæmandi. Þess vegna segi ég það alveg óhræddur og má það berast til minna fyrrv. kjósenda, að ég er ekkert grátklökkur yfir þeim úrslitum. Þar hafa þó komið til peningar sem koma sér vel, því að það er vandalaust að benda á staði þar sem þessir peningar eru nauðsynlegir.

Hins vegar er þessi vegáætlun áætlun hinna fögru fyrirheita sem einhverjir munu sjá til að koma í framkvæmd. Hverjir sem það verða, þá er að sönnu miklu bjartari tíð fram undan ef allt það dæmi gengur upp. Ég ætla ekki að fara að rekja það sem í okkar hlut kemur á Suðurlandi. En þar er atriði sem ég get sérstaklega fagnað, og það er að loksins sér fyrir endann á þeim miklu vandræðum sem hafa verið að aka hinn svokallaða Þrengslaveg og Þorlákshafnarveg. Þar á að taka stórt á, og ég sé ekki betur, ef litið er til allrar áætlunarinnar, en að það verk eigi eftir að komast allt í höfn á tímabilinu. Og ég vil leyfa mér að þakka fjvn. — mönnum öllum — við Sunnlendingar eigum einn mann í þeirri n. — fyrir þann skilning sem þeir hafa sýnt með því að leggja nú loksins lið þessu máli sem hefur verið beðið í mjög langan tíma. Sannleikurinn er sá, að réttar niðurstöður úr útreikningsdæmi umferðartalningarmanna á vegamálaskrifstofunni hafa sýnt okkur of lágar tölur og hægt hefði verið samkv. þeim reglum, sem þar hafa verið notaðar, að ráðast í þessa vegagerð. En niðurstaðan er röng ef tekið er hins vegar tillit til þeirra forsendna sem vantað hefur í dæmið.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að nefna hér allt það sem við sjáum nú framundan fyrir okkur í þessum efnum í mínu kjördæmi. En það er engin leið fyrir mig að fara úr þessum ræðustól þegar þessi áætlun er til umr., orðinn núna elsti þm. Sunnlendinga, allan þann tíma sem ég hef verið hér að reyna að koma áfram ákveðnu baráttumáli Sunnlendinga allra, sameiginlegu helsta áhugamáli í samgöngumálum allra sveitarfélaga í Suðurlandi frá Skeiðará og vestur á Sandskeið. Allir hreppar, kauptún og kaupstaðir hafa samþykkt það mörg ár í röð, að brú yfir Ölfusá við Óseyrarnes væri verkefni nr. eitt. Þetta er allmikið fyrirtæki, þó ekki eins mikið og af er látið, því að þau dæmi hafa öll verið reiknuð á röngum forsendum. Menn verða að horfast í augu við það, að þessi brú er ekki aðeins venjuleg samgöngubót, heldur kemur hún í staðinn fyrir tvær hafnargerðir, fyrir tvær hafnir, sem eru nú að engu orðnar, fyrir ein tvö merkustu sjávarþorp á Íslandi. Þessi brú á eftir að lyfta þessum þorpum úr seigdrepandi niðurlægingu upp í athafnasöm sjávarþorp á nýjan leik — og ekki aðeins þessum þorpum, heldur öllu landssvæðinu í kring. Þegar því verki verður lokið, þá er ég viss um að þeir, sem hafa hamast við að reikna öll þessi dæmi, muni sjá eftir því að hafa hamrað þessar röngu niðurstöður sínar næstum því inn í höfuðið á hverjum einasta þm. á Alþingi Íslendinga.

Það hafa ekki verið bjartar niðurstöður sem við höfum fengið í þessu baráttumáli. En nú fáum við niðurstöður sem við erum vissulega ekki nógu ánægðir með. Við hefðum viljað meira og við hefðum viljað fá verkið gert fyrr. En tæknimenn segja, að hönnun þessarar brúar taki a. m. k. tvö ár, það sé ekki praktískt að tala um miklu styttri tíma. Og þegar við sjáum núna á vegáætluninni 50 millj., 25 millj. hvort ár, 1981 og 1982, þá sjáum við þó hilla undir lausn í þessum efnum. Ég trúi því, fyrst hv. formaður fjvn. hefur tekið þetta mál upp á sína arma með þessum hætti, sem þó er ekki sá háttur sem við hefðum helst viljað, að hann eigi eftir að ýta þessu máli áfram sitji hann hér á þingi í framtíðinni, sem hann vafalaust gerir. Ég vona að þjóðin, þó rugluð sé í pólitískum efnum, hafi vit á að kjósa þennan hv. þm. svo lengi sem honum sýnist ráðlegt að bjóða sig fram til þings.

Ég hefði viljað óska eftir því við hv. formenn flokkanna, að þeir gætu nú sagt fáein orð og lýst yfir að þeir stæðu með þessu máli og vildu vinna að því áfram ef þeir verða áfram á Alþ. Ég sakna þess, — ég þori ekki að segja: aldrei þessu vant, — að hv. 1. þm. Austurl. er ekki nú í sínu sæti. Og ég vil halda áfram með það, að ég held að ég sakni þess líka að hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson er ekki heldur hér. En við höfum hér þó hv. þm. Geir Hallgrímsson, formann Sjálfstfl. og fyrrv. hæstv. forsrh., aðra formenn vantar. Hér situr þó hæstv. samgrh. og ég vil nú óska þess að hann herði sig upp í það að koma í ræðustól og lýsa yfir stuðningi sínum við áframhaldandi framgang þessa máls, að þegar hönnun þessarar brúar lýkur á árinu 1982 verði þegar hafist handa við brúarsmíðina. Mikið af efni til hennar liggur þegar fyrir, því að það er staðreynd að það stendur til að nota öll þau steypumót og annað þess konar sem notað hefur verið við smíði Borgarfjarðarbrúarinnar, þó að þessi brú sé 4–5 sinnum ódýrari, og þar sparast auðvitað mikið fé.

Herra forseti. Ég hef nú talað heldur lengur en ég ætlaði mér, og sannarlega hefði verið hægt að ræða þetta mál miklu lengur, því þó að hv. þm. séu þannig á sig komnir nú að í þá er kominn svefngalsi, þá hefði ég ekki þurft að höndla mikla andagift til þess að halda hér langa og góða ræðu í alla nótt um þetta mikilsverða mál. Ég vil þó vekja athygli á því að síðustu, að nú er annað hvert hús í sölu á Stokkseyri, eins og það heitir. Fólkið er að flýja. Það sama er á Eyrarbakka, nema hvað ástandið er enn verra. Formennirnir á bátunum, sem eru þó einn sterkasti þátturinn í atvinnulífi fiskibæja, eru að flytjast og jafnvel fluttir sumir til Þorlákshafnar. Fólksstraumurinn stendur í burtu, húseignir fólksins falla í verði, og það er mikil fórn ef þetta fólk þarf að yfirgefa sína heimabyggð og skilja eftir hús að verðmæti 30–40 þús. millj. kr.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka óskir mínar til hv. helstu forustumanna stjórnmálaflokka, að þeir komi nú hér upp og lýsi yfir stuðningi sínum við málið til þess að áframhald þess verði tryggt. Það er meginatriðið, ekki hvort hönnun hefði átt að vera lokið einu ári fyrr, heldur að það sé öruggt og fólkið viti af því að brúin verði smíðuð þó bíða verði nokkur ár.