22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5240 í B-deild Alþingistíðinda. (4627)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um aðgerðir vegna fiskeldis að Laxalóni er flutt af allshn. Nd. og hún er hér til síðari umr. Ég sé enga ástæðu til þess að vísa þessu máli til n. nú þegar á að fara að slíta þingi. Nefnd hefur flutt málið shlj. og ég álít, að það eigi að ganga til atkv. um þessa þáltill. Ég mæli algerlega á móti því að vísa málinu til n. til þess eins að svæfa það. Þetta er mál sem er þess virði að það sé athugað: Í fyrsta lagi að skipuð verði þriggja manna nefnd sem verði falið að vinna að verkefnum, eins og þar segir: „að meta það brautryðjendastarf, sem Skúli Pálsson hefur unnið við eldi á regnbogasilungi hér á landi; að meta tjón það sem kann að verða vegna niðurskurðar á regnbogasilungsstofni Skúla Pálssonar, þar til nýr stofn er orðinn kynþroska og arðbær; að meta verðmæti stöðvarinnar að Laxalóni með það fyrir augum, að Alþ. samþykki að ríkið festi kaup á henni; að gera tillögur um uppbyggingu fiskræktarstöðvar að Þóroddsstöðum II í Ölfusi og hvernig þar megi halda áfram þeirri fiskrækt, sem nú er í Laxalóni. Væntanlegur kostnaður vegna máls þessa verði greiddur úr ríkissjóði.“

Ég sé enga ástæðu til annars en þessi till. komi til afgreiðslu hér á hv,. Alþ., og mér finnst það undarleg meðferð á máli sem hér hefur legið fyrir allan þennan tíma, að nú í lok þings sé flutt till. um að vísa till. frá allshn. Nd. til n. í Sþ. Ég skil ekki að þessi till. sé á þann veg að ekki megi samþykkja hana og meta það sem hefur gerst í þessum efnum. Ég held að fiskeldismál séu nú meðal þeirra mála þar sem við Íslendingar séum mjög á eftir mörgum öðrum þjóðum. Það er sótt á okkur víða að að flytja fiskseiði til eldis erlendis, og þetta gæti orðið stór útflutningsgrein á Íslandi. Það er ekki vel til fallið að reyna að seinka afgreiðslu þeirra mála, eins og till. hv. síðasta ræðumanns mundi gera, heldur tel ég að ganga eigi hreint til verks og afgreiða þessa till. Annaðhvort er Alþ. með henni eða móti.