23.05.1979
Sameinað þing: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5281 í B-deild Alþingistíðinda. (4731)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það er óvenjulegt að vísa till. til n. á þessu stigi málsmeðferðar. Hins vegar upplýsti hæstv. forseti í nótt, að leyfilegt væri samkv. þingskapalögum að vísa máli til n. á hvaða stigi sem það væri. Þar sem þetta er svona óvenjulegt, þá vil ég gera örstutta grein fyrir atkv. mínu.

Ég vil í fyrstu láta þess getið, að mér er kunnugt um að stjórnskipuð nefnd hefur fjallað um ýmsa þá þætti sem till. greinir. Ég hygg að hún hafi alveg nýlega skilað áliti. Málið er þannig í vinnslu hjá stjórnvöldum. Svo vil ég láta það koma fram, að ég tel að þessi till. sé flutt á mjög óvenjulegan og næstum að segja vafasaman — ef ekki einstæðan hátt og á hæpinn máta, þar sem n. úr d. flytur till. í Sþ. Mér sýnist það óeðlilegt. Mér sýnist það t. d. mjög óeðlilegt að þm. úr fjvn., sem sæti eiga í Nd., flyttu þar frv. sem hluti fjvn.

Enn fremur sýnist mér að þessi till. sé ákaflega óljóst orðuð og í raun og veru óeðlileg, en fyrst og fremst mjög óljóst orðuð. Þess vegna tel ég að það sé fyllsta ástæða til þess að hún fái athugun í n., þó seint sé, og segi því já.