15.11.1978
Efri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

68. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Ólafur Rangar Grímsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., snertir einn af mikilvægustu grundvallarþáttunum í þeirri þjóðfélagsgerð og því stjórnkerfi sem þróast hefur á Vesturlöndum á síðustu áratugum, og ber vissulega að fagna því, að haldið skuli áfram tilraunum til þess að setja lög um þetta efni hér á landi. En ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Ragnhildi Helgadóttur, að mér finnst þetta frv. að mörgu leyti í senn óljóst og ganga skemur í mörgum atriðum en ég held að væri hægt með eðlilegu móti. (StJ: Of langt í sumum.) Það má vel vera að svo sé, en þó finnst mér meginbragur frv. vera sá, að þótt að vissu leyti séu opnaðar dyr almennings hvað upplýsingaöflun snertir, þá sé nokkurn veginn jafnharðan skapaður möguleiki á að loka þeim, ef svo býður við að horfa.

Við 1. umr. þessa máls hér í d. væri vissulega tilefni til að fjalla ítarlega um þetta mikilvæga mál. Ég held að við séum hér að takast á við eitt af þeim málum sem eiga eftir að vera mikið viðfangsefni í okkar stjórnkerfi á næstu árum og áratugum, ef þróun stjórnsýslu og upplýsingaöflunar í landinu heldur áfram eins og verið hefur hingað til.

Til þess að gera þetta mál ekki of langt á þessu stigi og vegna þess að ég reikna með því, að mátið verði tekið til ítarlegrar umfjöllunar í n., ætla ég að reyna að halda mig eingöngu við þá helstu galla sem mér finnst vera á frv. í þeim búningi eins og það birtist hér. En ég vil, áður en ég vík að því, taka það skýrt fram, að ég tel frv. að vissu leyti spor í rétta átt þótt í sumum efnum sé nokkuð óljóst hvers eðlis það spor er. Áður en ég kem að þessum sérstöku atriðum vil ég enn ítreka það, að í því þjóðfélagskerfi, sem við búum við og hefur þróast í löndum okkur skyldum, hafa gerst þeir atburðir á undanförnum áratugum, að grundvöllur valdsins í samfélaginu liggur í æ ríkara mæli hjá þeim aðilum, sem hafa yfir upplýsingunum að ráða og geta ákveðið á hvern hátt upplýsingarnar dreifast um samfélagið. Sú einfalda regla, að um mál sé fjallað á opinn hátt með atkvæðagreiðslum, hefur í æ ríkara mæli orðið að víkja fyrir því, að upplýsingasöfnunin um málin er fengin stofnunum sem starfa meira og minna fyrir luktum dyrum á grundvelli gamalla embættishefða, og nýir valdaaðilar hafa risið upp í þjóðfélaginu sem hafa í raun og veru engan annan grundvöll fyrir afgerandi valdi sínu innan hinnar lýðræðislegu ákvörðunartöku heldur en forræði sitt yfir upplýsingunum einum. Ef við viljum varðveita þá opnu og lýðræðislegu stjórnarhætti, sem að mínum dómi hafa verið eitt af aðalsmerkjum íslensks samfélags löngum, þrátt fyrir marga galla sem mætti rekja, þá erum við í vissri hættu nú einmitt á þessum áratug, að þegar þessar breytingar fara að setja svip á þjóðfélag okkar glötum við að verulegu leyti — á sumum sviðum kannske að öllu leyti — þessu aðalsmerki íslensks samfélags sem það hefur getað þróað með sér að nokkru leyti vegna smæðar þess og félagslegrar hefðar.

Að þessu leyti tel ég að það mál,sem við erum að fjalla hér um, snerti í raun og veru ekki aðeins þrönga starfshætti almannastofnana, heldur í raun og veru eitt af þeim grundvallaratriðum sem hafa skapað hér á landi það raunverulega lýðræðiskerfi, sem þróast hefur til hliðar við þau lýðræðislegu form sem mótast hafa í landinu. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að málið fái mjög vandlega meðferð í þinginu og sú nefnd, sem það skoðar vænti ég, reyni að breyta frv. í þá veru að það gangi enn lengra og verði mun skýrara en það er í þeim búningi sem það birtist hér.

Í raun og veru má segja, að það séu þrír grundvallareðlisþættir í þessu máli: Í fyrsta lagi er spurningin um tegund upplýsinga. Í öðru lagi er spurningin um takmarkanir upplýsinga. Og í þriðja lagi er spurningin um þann tíma sem á að líða hverju sinni þar til upplýsingarnar eða aðgangur að þeim á að liggja ljós fyrir.

Þetta frv. fjallar nokkuð ítarlega um tvö hin fyrstu af þessum þremur atriðum: tegundina og takmarkanirnar. En það fjallar mjög lítið um þriðja atriðið, sem að mínum dómi er kannske einna mikilvægast, og það er spurningin um tímann. Auk þess má segja, að megingalli þessa frv. sé sá sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir benti á áðan við lok sinnar ræðu, að það tekur nánast á engan hátt mið af því, að í tölvuvæddum og þróuðum þjóðfélögum eins og því, sem hefur verið að mótast hér á Íslandi, eru upplýsingarnar í æ ríkara mæli ekki í formi skjala, sem er grundvallarhugtak þessa frv., heldur í því geymsluformi sem tölvubankar og samtengdir tölvubankar nota hverju sinni. Og það er einmitt skorturinn á því að glíma við tölvuvæðingu upplýsingastreymisins og upplýsingageymslurnar í okkar samfélagi sem mér finnst e.t.v. veigamesti galli á þessu frv. og vekur atvarlegar spurningar um það, að hve miklu leyti það kann í reynd að koma almenningi í þessu landi, öllum einstaklingum sem vilja hagnýta sér réttindi þess, að notum. Mér finnst frv. sjálft vera grundvallað, ef ég má orða það svo í fullri vinsemd, á 19. aldar stjórnkerfi, þar sem hægagangur stjórnkerfisins krefst reglubundinnar skjalafærslu og bókana sem tíðkuðust þann tíma, en það taki ekki mið af því 20. aldar stjórnkerfi, ef ég má nota það hugtak í mjög almennum orðum til þess að skilja þarna á milli, þar sem æ stærri hluti þess efnisforða, sem stjórnvöld vinna úr, er settur saman úr þremur atriðum: Í fyrsta lagi tölvuvæddum upplýsingum og úrvinnslu af því tagi og aðgang að þeim. Í öðru lagi persónulegum samtölum og samskiptum, sem einn af ágætum seðlabankastjórum þessa lands kallaði einu sinni „símabýrókratíið“ á Íslandi. Og í þriðja lagi þeim minnisblöðum og frumskýrslum, sem eru æ ríkari þáttur í ferli ákvarðanatökunnar innan stjórnkerfisins og í þessu frv. virðast að verulegu leyti vera undanskilin þeim efniviði sem almenningur á að geta haft aðgang að.

Ef við skoðum eðli ákvarðanatökunnar í þróuðum stjórnkerfum, þá eru það þessir þrír þættir sem í raun og veru hafa ráðið og koma til með að ráða meiru um það, hvers konar ákvarðanir eru teknar, hvað ræður, hvaða stefna verður ofan á eða hvaða túlkun verður ofan á. Og ef það er tilgangur laganna að veita einstaklingunum og öðrum aðilum í þjóðfélaginu möguleika á að vita allan sannleikann, sem hlýtur að vera markmiðið, en ekki bara lokaútgáfu sannleikans, heldur að vita allan sannleikann og gang málsins á öllum stigum þess, til þess að geta vitað sjálfur hvernig og hvers vegna ákvörðunin, sem snertir hann á þennan hátt, var tekin, þá verður að opna alla þessa þætti. Ef það er gert setur það nýjar skyldur á embættismenn íslenska kerfisins, sem þeim hefur ekki verið gert að framfylgja til þessa. Ég held að það sé þess vegna nauðsynlegt, ef frv. af þessu tagi á að leiða til opnunar upplýsingastreymisins og aukins lýðræðis, sem ég vil kalla það, — þá er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því, að þetta krefst nýrra dagsdaglegra stjórnarhátta af embættiskerfi landsins, en ekki bara birtingu á lokaniðurstöðunum.

Hvað tölvuþáttinn snertir, þá má náttúrlega hafa um það langt mál, ég vil aðeins í örfáum setningum benda á það, að í okkar þjóðfélagi hafa nú skapast möguleikar — ég á við tæknilega möguleika — á því, að stjórnvöld eða aðilar, sem þau veita aðgang að þessum upplýsingum sem liggja fyrir í tölvuvæddu formi, geta tengt saman margar gjörólíkar skýrslur um einstaklinginn, lífsferil hans á ólíkum brautum: menntabrautum, heilbrigðisbrautum, afbrotabrautum, fjármálabrautum, og þannig skapað sér ítarlegt yfirlit yfir einkahagi og lífshlaup viðkomandi einstaklings og hugsanlega beitt þeirri greiningu, sem þar kemur fram, einkum og sér í lagi í jafnlitlu samfélagi og við búum hér, til þess að hafa ýmiss konar óeðlileg áhrif á viðhorf eða kjör viðkomandi einstaklings í félagslegu tilliti.

Hér hefur hlaðist upp fyrir tilviljun, ef ég má segja svo, eða afmarkaða ætlun stofnana á óskyldum sviðum tölvuvæðing upplýsinga sem er saman komin í einum banka og í gegnum nafnnúmeratengingu og aðra slíka möguleika skapar stjórnvöldum og öðrum aðilum margvíslega, nánast stórbrotna, ef ég má orða það svo, nýja möguleika til þess að kortleggja lífshlaup einstaklingsins á hátt sem hingað til hefur verið algerlega útilokaður. Og ef við erum að reyna að tryggja sjálfstæði einstaklinga gagnvart gerræðisfullum ákvörðunum eða tilraunum stjórnvalda til þess að hafa óeðlileg áhrif á þeirra lífshlaup, þá liggur þarna kannske einhver mesta hætta sem við blasir í okkar þjóðfélagi, ásamt svo því, að einokun ríkisvaldsins t.d. á aðgangi að þessum upplýsingum getur skapað því í samanburði við ýmis fjöldasamtök í landinu, hagsmunasamtök og fjöldasamtök af ýmsu tagi, sem í dag hafa ekki aðgang að þessum tölvubönkum, stjórnunarlega séð svo sterka aðstöðu, að möguleikar fjöldasamtaka í okkar samfélagi til þess að hafa áhrif á stefnumótunina, þ.e.a.s. hina tæknilegu stefnumótun á hinum einstöku sviðum, yrðu nánast formið eitt. Ég held þess vegna, að annmarkar af þessu tagi, þ.e.a.s. að frv. er grundvallað á þröngum skilningi skjalahugtaksins, geri það mun takmarkaðra en ég hefði kosið. Við vitum að vinnsla, sem fer fram á æ fleiri sviðum í okkar þjóðfélagi, byggist á því, að það eru fyllt út eyðublöð sem síðan er eytt, en það, sem situr eftir, er tölvuvæðingin í geymslu banka.

Þetta er fyrsta atriðið sem ég vildi láta koma fram í athugasemdaformi.

Annað atriðið er að taka undir með hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur með það, að hitt grundvallarhugtakið í þessu frv., þ.e.a.s. hugtakið „mál“, er einnig mjög óljóst og býður upp á margvíslegar túlkanir sem geta leitt praksísinn, ef ætti að fara eftir þessari löggjöf, inn á brautir sem eru e.t.v. ekki í samræmi við þann anda sem frv. er ætlað að vera samið í.

Þriðja atriðið snertir þá undanþágu sem kemur fram í 8. gr., að undanskilja það sem kallað er vinnuskjöl starfsmanna stofnana og fyrirtækja algerlega frá birtingu. Það er skoðun mín, að í velflestum tilvikum séu einmitt þessi vinnuskjöl mikilvægasti þátturinn. Ef þau eiga öll að vera undanskilin, þá er í raun og veru mjög takmarkað gagn að þeim upplýsingum sem viðkomandi fær að lokum í sínar hendur. Ég tel að ef menn almennt vilja halda sér við frv. í þeirri gerð, sem það er nú, og vilja ekki takast á við þann víðtæka vanda sem ég hef hér verið að benda á og síðasti ræðumaður einnig, þá verði að breyta a.m.k. þessum undanþáguákvæðum, sem eru í 8. gr., og vinnuskjölin öll eigi að liggja til grundvallar sem og að sú kvöð verði lögð á embættismennina, eins og tíðkast í ýmsum embættiskerfum erlendum, að þar eru embættismenn skyldaðir til að skrásetja niðurstöður símasamtala sinna við aðila mjög nákvæmlega.

Fjórða atriðið snertir þær undanþágur sem eru í 4. gr., og má hafa um þær mjög hliðstæð ummæli, að ég held að þær séu svo rúmar margar hverjar og ólíkum hlutum þar raðað saman í eina kippu undanþága, að með túlkun stjórnvalda, sem vildu gera framkvæmd laganna eins þrönga og kostur væri, væri í raun og veru með þessum ákvæðum hægt að eyðileggja að verulegu leyti möguleikana á því að ná einhverju fram. Mér finnst t.d. algerlega óeðlilegt að setja samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir öll undir einn hatt í þessum efnum. Við eigum margvísleg samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir sem alls ekki ættu að vera undir þessum ákvæðum. Ég vil t.d. benda á það mönnum til umhugsunar, hvort eðlilegt sé að Norðurlandaráð og NATO sitji þarna undir einum og sama hattinum.

Fimmta atriðið, sem ég vildi vekja athygli á, er það sem skortir í þetta frv., þ.e. ákvæði sem opna allar upplýsingarnar skilyrðislaust eftir ákveðinn tíma. Í ýmsum löndum í okkar heimshluta hafa verið settar reglur um þetta efni sem fela það í sér, að eftir tiltekinn árafjölda skulu öll gögn liggja fyrir skilyrðislaust. Um þetta eru ýmsar reglur: 25 ára regla, 30 ára regla o.s.frv. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt að setja um þetta skýrar reglur hér og þær eigi að vera nokkuð mismunandi eftir því, hvers eðlis gögnin eru. Sumar stofnanir eiga að liggja algerlega opnar innan 5 eða 10 ára frá töku ákvörðunar. Annað, eins og gögn ríkisstjórna og ríkisstjórnafunda getur verið réttlætanlegt að geyma í 20 ár. En eftir eitthvert árabil, t.d. 25 ár, eiga öll gögn að liggja fyrir. þá á starfsemi stjórnkerfisins að vera opin bók, bæði fyrir einstaklinga sem vilja kynna sér mál sem þá hafa snert, fyrir fræðimenn, fyrir fulltrúa fjöldasamtaka eða hverja aðra sem vilja nýta sér þessa reglu, og þetta eigi að gilda jafnt um samninga við erlend ríki sem ákvörðunartöku hér innanlands. Í þessu sambandi vil ég benda á þær reglur, sem gilda í Bandaríkjunum. Og í raun og veru, ef við ætluðum að rækja það sem sumir hafa stundum kallað „skyldur sagnaþjóðarinnar á okkar tímum við framtíðina“ þá ættum við að hafa manndóm í okkur til að gefa þetta út, líkt og ýmsar aðrar menningarþjóðir gera, svo að þróun íslensks þjóðfélags á 20. öld sé þeim, sem verða hér uppi á 21. öld, nokkurn veginn ljós, eins og þróun þjóðfélagsins á söguöld.

Ég veit ekki hvort það er með ráðnum huga gert, að ákvæði af þessu tagi hafa ekki verið sett inn í frv. En ég tel, að þegar málið verður endanlega afgreitt, ef svo verður á þessu þingi, þá eigi að flytja brtt. um að opna skjölin algerlega eftir einhvern ákveðinn árafjölda. (Gripið fram í.) Já, ég tel að það geti verið nokkuð mismunandi reglur, en að það eigi að vera eitthvert árabil, segjum t.d. aldarfjórðungur, eftir þann tíma eigi öll skjölin að vera opin. Ég er fyrst og fremst að tala hér um þau skjöl sem snerta opinbera ákvarðanatöku og aðgerðir stjórnvalda í almennum málefnum. Það getur verið réttlætanlegt að geyma eitthvað skjöl sem eingöngu snerta tiltekinn einstakling, en í þessum ummælum mínum átti ég við aðgang að þeim skjölum sem snerta almenna stefnumótun í þjóðfélaginu.

Enn fremur vil ég taka undir með hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, að það er nokkuð óljóst til hvaða stofnana þetta frv. á að ná. Hér stendur í 1. gr.: „til fyrirtækja, sem eru algerlega í eigu ríkis eða sveitarfélaga“. Ef ríkið á hluta í viðkomandi fyrirtæki, á það þá að vera algerlega undanþegið? Við skulum segja t.d. fyrirtæki sem íslendingar stofna með erlendum aðilum. Eiga þau að vera algerlega undanskilin? Nefna má fjölmörg önnur dæmi um það, að einnig þetta atriði er nokkuð óljóst. Í raun og veru mætti segja, ef maður vildi hártoga frv., að höfundum þess hafi tekist á snilldarlegan hátt að semja svo óljóst frv. um flókið efni, að það sé nokkurn veginn ógerlegt að átta sig á því, hvernig eigi að framkvæma það. Ég skal að vísu játa það þeim til afsökunar, að viðfangsefnið er mjög flókið og erfitt, bæði frá tæknilegu sjónarmiði og almennu þjóðfélagslegu sjónarmiði.

Eins og ég sagði í upphafi, þá mætti fjalla miklu ítarlegar um efnisþætti frv. En ég vildi strax í upphafi benda á nokkur veigamikil grundvallaratriði í frv. sem ég tel þurfa mikilla úrbóta við. Það er reyndar von mín, að sú nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, leggist ekki á það og gefist upp við að breyta því, heldur reyni að sníða frv. í þá átt að gera það í fyrsta lagi miklu víðtækara hvað heimildir snertir en það er í þeim búningi sem það birtist hér, og í öðru lagi svo skýrt, að það veiti í raun og veru almenningi í þessu landi þau lýðræðislegu réttindi til upplýsingaöflunar sem við hljótum að gera kröfu til, ef við viljum ekki láta stofnanaþróunina og eðli upplýsingaöflunar í okkar landi kæfa hið raunverulega lýðræði sem við viljum búa við.