16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (557)

61. mál, atvinnumál á Þórshöfn

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. — Varðandi þá ábyrgð, sem ég kallaði yfir fréttastofur útvarps og sjónvarps í sambandi við „rapport“ í fréttatíma frá aðalfundi LÍÚ, er það rétt, að kveðið er á í útvarpslögunum, að sá, sem flytur efni í eigin nafni í ríkisútvarpi, beri ábyrgð á orðum sínum. Síðan er einnig í gildi ákvæði um það, með hvaða hætti menn leita heimilda, og ákveðin ábyrgð lögð á fréttastofurnar um það að ganga úr skugga um að upplýsingar í fréttum útvarpsins séu hlutlægar. Þetta innskot, sem er tekið sérstaklega og klippt út úr ræðu formanns LÍÚ, varðaði ekki ástand og horfur í sjávarútvegi á Íslandi, heldur varðaði þetta aðsteðjandi vanda, mjög alvarlegan, í efnahagsmálum 460 manna norður á Þórshöfn.

Ég tel að það hefði verið mjög nauðsynlegt að leitað hefði verið upplýsinga hjá réttum aðilum, réttum heimildarmönnum, og það látið sitja í fyrirrúmi fyrir því að útvarpa og sjónvarpa „sensasjón“ úr munni manns, sem stöðu sinnar vegna hefur í vitund fólksins ákveðna þyngd þegar rætt er um íslenskt atvinnumál, en augljóslega er ekki neinn sérfræðingur í atvinnumálum þeirra Þórshafnarbúa og fór augljóslega með hæpnar fullyrðingar, að ég ekki segi augljóst blaður.