18.10.1978
Neðri deild: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

6. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég er nú að vissu leyti farinn að brjóta þau heilræði sem ég sjálfur var að reyna að gefa þm. við umr. um fyrra mál, og með því að þetta mál kemur til n., sem ég á sæti í, skal ég nú stytta þessa ræðu þó að hún gæti vissulega orðið alllöng miðað við það málefni sem hér er til umr. Ég get þó í upphafi sagt svipað um þetta mál og ég sagði um hið fyrra málið, um kosningaaldurinn, að ég sé ekki ástæðu til langra umr. hér.

Það er vitanlega alger misskilningur hv. flm., að þó að menn vitni hér til starfa væntanlegrar stjórnarskrárnefndar, þá sé ætlast til þess að þm. afsali sér einhverjum réttindum eða skyldum. Það, sem um er að tefla, er að samkomulag allra flokka hefur orðið um það að setja nýja stjórnarskrárnefnd og að takmarka henni verkefnistíma, og þess vegna verða ekki að mínu mati látnar fara fram þingkosningar um einstakar breytingar á stjórnarskránni með því sem tilheyrir og allir vita, tvennum kosningum og þingrofi á milli, fyrr en fleiri atriði hafa verið tekin til athugunar en þau sem nú þegar eru komin fram frv. um, og jafnvel þótt fleiri frv. ættu eftir að fylgja, eins og raunar hefur verið boðað.

En um deildaskiptingu Alþingis almennt vil ég aðeins á þessu stigi segja það, að hún átti áreiðanlega að vera trygging fyrir vandaðri málsmeðferð, og margoft hefur það orðið reyndin, að mál hafa tekið breytingum til bóta í síðari deild. Ég held að það fari ekki á milli mála.

Hitt skal viðurkennt, að deildaskipting er til nokkurs trafala. Hún er nánast tvíverknaður ef nægilega vel er unnið í einni deild. Og sú röksemd, sem hv. flm. flutti og á vissulega fullan rétt á sér, sem sé að mörg mál fá fullnaðarafgreiðslu í Sþ., einni deild, þ. á m. mikilvægasta málefni hvers þings, fjárlögin, ætti að vera trygging fyrir því, að í einni deild sé hægt að vinna að málum svo vel að ekki þurfi þar um að bæta. Þess vegna vil ég nú segja það hér, þó að ég hefði nú tilhneigingu til þess að geyma mér afstöðu til mála í þeim n., sem ég á sæti í þar til um þau hefur verið fjallað þar og þar til þingflokkur sá, sem ég á sæti í, hefur fjallað um mál, þá sýnist mér að ég muni geta verið þessu máli fylgjandi.

Við megum náttúrlega alls ekki láta húsnæðismál eða önnur slík aukaatriði ráða því með hvaða hætti þingstörfum er skipað. Við verðum að teita þeirra leiða sem að okkar viti gefa besta raun. Ég er á því að starf Alþingis í einni deild sé til bóta, auk þess sem óeðlilegt er að svo aukinn meiri hl. þurfi til stjórnarmyndunar og stjórnarstarfa sem hér hefur verið gerð grein fyrir og leiðir beint af deildaskipan. Dæmi um það voru rakin, þannig að ég þarf ekki að endurtaka þau.

En það eru miklu fleiri mál sem þarf að athuga í sambandi við stjórnarskrána. Þó að sumum hv. þm. þyki hún góð, — og kannske er hún merkilega góð miðað við þann aldur sem hún er búin að duga okkur eða þann árafjölda, — þá er þó enginn vafi á því að mínu mati, að það eru miklu fleiri atriði í þessari stjórnarskrá sem þurfa endurskoðunar, enda ekki hægt að telja það óeðlilegt miðað við það, hvernig hún var sett, hve langan tíma hún er þegar búin að gilda og hvernig aðstæður í þjóðfélaginu hafa á þeim tíma stórkostlega breyst, eins og allir hv. alþm. hljóta að þekkja. Það er t.d. mjög brýnt mál, sem hv. 7. landsk. þm. minntist á í síðustu ræðu sinni um málið sem var til umr. hér á undan, kosningaaldurinn, hvernig misræmið í kjöri einstakra alþm. er orðið algerlega óviðunandi. Og ég tek fyllilega undir þau orð sem hann lét falla um það, að hlutur Reykjavíkur og Reykjaness er fyrir löngu orðinn allt of lítill. Það má leggja mér það út til lasts sem þm. Reykv., ef mönnum finnst einhver fróun í því, að ég hafi ekki beitt mér sérstaklega fyrir breytingum á því. Kannske hef ég verið of bjartsýnn á að stjórnarskrárnefnd, sem starfað hefur lengi, skilaði áliti þannig að þetta mál kæmi á borð þm. án þess að einstakir þm. færu að bera fram um það tillögur. Það má vel vera og ég tek þá á mig ábyrgðina af því ef einhverjum mönnum sýnist henta að kenna mér um það.

Ég er líka sannfærður um að nú er mikill þjóðarvilji fyrir því, að persónubundnara kjör eigi sér stað til Alþingis heldur en við búum við. Flokkar og samtök hafa verið að reyna að leysa þetta á annan hátt, með prófkjörum. Það hefur á ýmsan hátt ekki gengið sem skyldi, má vera vegna þess að um slíka tilhögun eru engin lagaákvæði, en þau þurfa vitanlega að vera. Prófkjör um efstu sæti flokka — við skulum segja í hvaða kjördæmi sem vera skal og þá ekki síst í Reykjavík þar sem ég er einna kunnugastur — er í raun kosning alþm. — og er ekki alveg óhugsandi að hægt sé að búa við það skipulag, eins og nú er, að sama fólkið kjósi þm. fyrir alla flokka sem prófkjör hafa ef því sýnist svo. Ég tel að þetta sé óviðunandi, og ef ekki verður tekin upp persónubundnari kosning samkv. kosningalögum og stjórnarskrá, þá hlýtur að verða að setja um prófkjör almenn lög sem útiloki að slíkt sem ég minntist á geti átt sér stað. Það er auðvitað hægt. Það hefur verið bent á leiðir til þess. Ég skal ekki þreyta þm. á að nefna þær, en ein leiðin er auðvitað sú, að prófkjör hjá öllum flokkum fari fram samtímis og undir stjórn yfirkjörstjórnar eins og almennar kosningar. Það er kannske nokkuð mikið í ráðist og kostnaðarsamt og fyrirhafnarsamt, en ég er sannfærður um að það fyrirkomulag, sem við búum núna við, er óviðunandi.

Eins og ég sagði, herra forseti, gæti ég haldið hér alllanga ræðu um breytingar á stjórnarskrá og tiltekið mörg fleiri atriði en þetta. En ég skal ljúka máli mínu með því að endurtaka það sem ég áðan sagði, að ég tel að við eigum ekki nú að eyða mjög miklum tíma í umr. um breytingar á stjórnarskrá. Flokkarnir eiga að einbeita sér að því að tilnefna menn í þá stjórnarskrárendurskoðunarnefnd, sem ráðgert hefur verið að setja á fót, og halda fast við það, að hún skili áliti eigi síðar en þar er tiltekið og m.a. er tilgreint í þeim stjórnarsamstarfsamningi sem núv. stjórnarflokkar starfa eftir, þ.e. innan tveggja ára. Ég hef fyrir mitt leyti ekki áhuga á því að fyrr verði kosið, og ef þeir eru hér aðrir sem hafa áhuga á því að fá kosningar fram fyrr, þá er hægt að gera það með öðru móti en að stofna til kosninga um stjórnarskrármálefni.