21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (609)

334. mál, útgerð Ísafoldar

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda hafa þessar veiðar skipsins Ísafoldar verið leyfðar með sérstökum lögum frá Alþingi. Þar var jafnframt tekið fram, að henni skyldi þetta heimilt með því skilyrði, að skipið hlíti þeim reglum er sjútvrn. setur, sé rekið af íslenskum aðila og áhöfn þess sé íslensk, og loðnunefnd skuli gæta þess að beina m/s. Ísafold, eftir því sem þörf er á, til hafna er liggja fjarri aðalveiðisvæði hverju sinni. Að því er varðar þessi skilyrði hef ég upplýsingar frá starfsmönnum sjútvrn. og loðnunefndar sem ég leyfi mér að lesa, en þær eru þannig, að haldin hafi verið öll skilyrði sem sett voru af hálfu Alþ. við útgerð m/s. Ísafoldar til loðnuveiða á síðustu vetrarvertíð. Í þessu felst að íslenskur aðili sá um reksturinn, áhöfn var íslensk og loðnunefnd gætti þess, að engir árekstrar yrðu milli þessa skips og íslenskra skipa um löndunarröð. Er óhætt að segja að afli skipsins varð til þess, að verksmiðjur fjarri veiðisvæðum fengu meira hráefni en ella. Loks má geta þess, að greitt var í loðnuflutningasjóð af afla skipsins og að sjálfsögðu voru greidd útflutningsgjöld af afurðum þeim sem unnar voru úr aflanum. Hins vegar fékk skipið engar greiðslur úr sjóðakerfinu, svo sem úr vátryggingasjóði fiskiskipa eða áhafnadeild Aflatryggingasjóðs, né heldur fékk skipið styrki úr loðnuflutningasjóði þótt það hafi alltaf siglt lengra en önnur skip með afla sinn.

Þetta eru upplýsingar frá starfsmönnum sjútvrn. og loðnunefndar sem svar við fyrri hluta fsp.

Að því er varðar síðari hluta fsp. er svarið nei. Ástæðan er ákaflega einföld og kom fram í máli fyrirspyrjanda varðandi afköst loðnuflotans og takmarkanir á veiðiþoli loðnustofnsins. Ef fram kæmi frv. á Alþ. um þetta efni, að leyfa þessar veiðar að nýju, en þær renna út nú í árslok, mundi ég greiða atkv. gegn því.