21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

329. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hlýt að þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. svör hans, og alveg sérstaklega fagna ég þeirri nefndarskipun sem hann hefur í huga nú næstu daga með því verkefni, sem hann vék að og fsp. lýtur að, að kanna hvernig þessu fæðingarorlofi verði best fyrir komið innan tryggingakerfisins, þar sem það á vissulega heima. Ég tek það auðvitað fram, að sú réttarbót, sem í þessu fólst á sínum tíma, er ekki vanmetin, ég er ekki að vanmeta hana sem slíka. En það er rétt að það var viss andstaða við þetta af hálfu þeirra aðila sem með málefni Atvinnuleysistryggingasjóðs fara. Til þeirra sjónarmiða, sem þeir komu fram með, var ekki tekið tillit, og það var vissulega gagnrýnt bæði af mér og öðrum. Ég studdi þessa breytingu á þeim tíma með þeim fyrirvara, að hér var um mikla réttarbót að ræða fyrir stóran hóp kvenna, — réttarbót sem var, að því er virtist, af hálfu þeirrar stjórnar, sem þá sat, eina leiðin sem hægt var að koma í gegn, þó að ekki væri eins að því staðið og við hefðum kosið mörg hver.

Það er alveg ljóst, að auk þeirra kvenna, sem oftast hefur borið á góma í sambandi við umr. um fæðingarorlof, þ.e.a.s. bændakvenna, er auðvitað um að ræða stóran hóp kvenna einnig sem nýtur ekki þessa réttar í dag. Ég nefni þar sem dæmi þær konur t.d. sem vegna ungra barna og jafnvel ómegðar, sem þekkist enn í dag, geta ekki náð tilskildum vinnustundafjölda sem þarf til að koma, jafnvel þó að þær séu að reyna að vinna eitthvað úti. Stundum er um heimilisaðstæður eða bein veikindi að ræða, svo sem ég veit um nokkur dæmi, sem hindra þessar konur í því að fara út á vinnumarkaðinn og vinna sér þessi réttindi. Þessi dæmi, sem ég þekki t.d. úr heimabyggð minni, verða býsna blöskrunarverð í samanburði við ýmis önnur þar sem fullar bætur eða orlofsgreiðslur fást. Þetta þarf auðvitað ekki að rekja. Hér er um mikla mismunun að ræða sem er eðlilegt og sjálfsagt að fært verði í rétt og eðlilegt horf. Ég hygg að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, muni hljóta eðli málsins samkvæmt að komast að þeirri niðurstöðu, að þetta þurfi að færast inn í okkar tryggingakerfi, og ég vænti þess um leið, að hún ásamt hæstv. ríkisstj. finni til þess heppilegasta leið, þannig að fullu jafnrétti verði hér á komið.