21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

329. mál, fæðingarorlof

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál almennt, aðeins út frá sjónarmiðum Atvinnuleysistryggingasjóðs, þeirra sem hafa áhyggjur af þeim sjóði.

Þegar fæðingarorlof var sett inn í atvinnuleysistryggingar, svo hlálegt sem það er út af fyrir sig, varaði ég mjög eindregið við þeim áhrifum sem það hefði á möguleika Atvinnuleysistryggingasjóðs til þess að standa undir sínu eiginlegu hlutverki. Á þetta var ekki hlustað þá í hv. Alþingi.

Fyrrv. heilbrmrh. setti n. til að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar, svo sem hæstv. ráðh. gat um áðan. Þessi n. hefur ekki formlega skilað áliti, en fyrir löngu er ljóst að allir nm. eru sammála um að fæðingarorlofið eigi ekki heima með atvinnuleysistryggingum. Hins vegar hefur n. ekki skoðað það sem sitt hlutverk að gera till. um meðferð fæðingarorlofs að öðru leyti. Það mál er náttúrlega mjög brýnt að verði tekið til athugunar. En ég ætla að nota þetta tækifæri til þess að leggja á það þunga áherslu, að það að setja fæðingarorlofið á Atvinnuleysistryggingasjóð hefur numið nokkru hærri upphæðum en þær tryggingar, sem sjóðurinn á að standa undir síðan þetta var gert, og mun á þessu ári sennilega fara í u.þ.b. 500 millj. kr. Þetta ásamt mörgum öðrum böggum, sem löggjafarvaldið hefur bundið Atvinnuleysistryggingasjóði, gerir það nú að verkum, að sjóðurinn er alls ófær um að standa við það hlutverk sem hann á að annast, þ.e. að greiða atvinnuleysisbætur, ef eitthvað bjátar á í atvinnulífinu hjá okkur. Og ég vil hreinlega lýsa því yfir, að ég tel siðferðilega skyldu ríkisvaldsins að sjá um, að ef til þessa kemur, þá verði að vera trygging fyrir því, að atvinnuleysisbætur verði greiddar þó að lausafjárstaða sjóðsins sé slík að hann geti ekki innt þessar greiðslur af höndum. Þetta held ég að sé mjög brýnt mál að athugað verði nú og vil nota tækifærið til að minna á það í sambandi við þetta mál.