21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

89. mál, Vesturlína

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Við fjárlagagerð og meðferð fjárlagafrv. hér á hv. Alþ. fyrir ári var mikið fjallað um orkumál sem eðlilegt er. Allir vita að hér er um fjárfrekar framkvæmdir að ræða. Víða kallar að um aukna og bætta aðstöðu, þar sem margt og mikið byggist á því, að þessi mál séu í góðu lagi. Eitt af þeim verkefnum, sem voru efst á baugi í þessum athugunum, var raflínulögn frá Vegamótum á Snæfellsnesi til Ólafsvíkur. Mér var vel kunnugt um að æðstu yfirvöld orkumála, sem bera eiga ábyrgð á að veita góða og örugga þjónustu á þessu sviði, töldu framkvæmd þessa sérstaklega brýna og margir studdu það mál vel og dyggilega. Bent var á að með umræddri línu og styrkingu Skógarstrandarlínu mundi þá þegar bregða mjög til hins betra með aukið öryggi á þessu sviði um allt Snæfellsnes og Dali. Svo fór að lokum að fjárveiting var skorin niður til Ólafsvíkurlínu við lokameðferð fjárlagafrv. í fyrra, og hefur því minna orðið úr þessum endurbótum en skyldi.

Ég leyfi mér að minna á þetta mál nú undir þessum dagskrárlið og í tilefni þessara umr. og vænti frekari upplýsinga frá hæstv. iðnrh. um það nú eða síðar.