21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

89. mál, Vesturlína

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera mjög langorður, en ég tel rétt vegna ýmissa aths., sem hér hafa fallið í minn garð varðandi þetta málefni, að víkja að örfáum atriðum.

Í fyrsta lagi er það, að menn hafa verið að ræða um það, hver hafi tekið ákvarðanir og hvers sök það væri, ef menn vilja nota það orð, að ekki er kleift úr þessu að ljúka við lagningu Vesturlínu á næsta ári, eins og fyrrv. iðnrh. hafði gefið fyrirheit um á sínum tíma, á árinu 1977. Möguleikarnir á þessu lokuðust að mati Rafmagnsveitna ríkisins um mánaðamótin ágúst–september. Hafi ég nefnt hér lok september í tilvitnun í bréf til fjárlaga- og hagsýslustofnunar frá Rafmagnsveitum ríkisins frá 10. ágúst, þá er það ekki rétt, því að þar segir orðrétt um þetta atriði: „Hér eru engin vandamál með framkvæmdina. Hins vegar verður að panta efnið mjög fljótlega eða fyrir lok þessa mánaðar“ — þ.e. sem bréfið er dags. í, lok ágústmánaðar.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir hv. þm. Vestf. eins og aðra að gera sér ljóst, að það er tómt mál að mati þeirra sem gerst ættu að þekkja, framkvæmdaaðilans, að karpa hér um það, hvort unnt sé að koma þessu verki í framkvæmd á næsta ári. Það er þeirra mat, að það sé ekki hægt, og þeir kostir, sem Rafmagnsveitur ríkisins nefna í grg. sinni til iðnrn. frá 6. okt., eru um það, hvort þetta skuli vera tveggja ára framkvæmd héðan í frá eða þriggja ára framkvæmd. Þeir gera ráð fyrir í till. sinni að þetta verði tveggja ára framkvæmd, og fjárhagsáætlun þeirra er upp á þessa milljarða tæpa 4, sem ég hef hér nefnt, nálægt tveimur hvort ár. Ég hef áhuga á að þetta mál nái í höfn á tveimur árum héðan í frá, það dragist ekki lengur, en það er ekki kleift að ljúka því á einu ári. Ég tel brýnt að þetta komist í höfn á tveimur árum, og ég mun vinna að því, ég vænti í góðri samvinnu við þm. Vestf., að unnt verði að afla fjár til þess að það sé kleift.

Hvað snertir dagsetningar og ákvarðanir fyrrv. ríkisstj. í þessu máli, þá vil ég segja hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni það og endurtaka það sem ég taldi að fram hefði komið í mínu máli, að engin gögn, hvorki frá fjárlaga- og hagsýslustofnun né eftirliggjandi frá fyrrv. iðnrh., voru mér handbær í iðnrn., og ég hef ekki fundið þau. Þó hef ég fengið gögn sem varða fjárlagatillögur fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Hún hefur þá að undirlagi — ja, ég veit ekki hvers — breytt þessari tölu sem þeir hæstv. ráðh. virðast hafa komið sér saman um síðasta daginn sem þeir sátu á valdastólum. En ég held að við ættum ekki að vera að deila hart um þetta.

Hv. þm. Þorvaldur Garðar vék hér að ýmsum þáttum í lokaorðum sínum. Ég vil benda á það hvað snertir pantanir á efni og tímalengd, að þá skiptir auðvitað máli hvort verið er að panta efni til framkvæmda sem 400 millj. kr. eru veittar til, eins og er í ár, eða rösklega það, eða efni vegna stórframkvæmdar upp á hátt í 4 milljarða kr. Það segir sig væntanlega sjálft, að á því er allnokkur munur.

Það er margt sem snertir orkumál okkar sem er ekki í því horfi sem skyldi, og það er sitthvað sem ég hef þurft að taka við frá fráfarandi ríkisstj. sem veldur allnokkrum vandkvæðum. Ég ætla ekki að fara að rekja það hér, til þess er ekki tími. En eitt snertir þó óbeint stofnun Orkubús Vestfjarða, og það eru þau skuldaskil, sem ríkið tók á sig vegna stofnunar Orkubúsins, hluta af skuldum Rafmagnsveitna ríkisins upp á um 400 millj. kr. Um þetta var samið. Þetta var út af fyrir sig eðlileg og rétt stefna, og svona þarf að standa að málum varðandi Rafmagnsveitur ríkisins líka í næstunni og í framtíðinni. Hins vegar var ekki séð betur fyrir þessum skuldaskilum við afgreiðslu fjármála á þessu ári en svo, að þessi upphæð var færð á Orkusjóð án þess að reiknað væri með nokkrum viðbótartekjum fyrir hann. Það veldur því, að hjá Orkusjóði er nú vandi upp á nær því 400 millj. kr. af þessum sökum og talsvert, sem við hefur bæst af öðrum sökum til viðbótar. Þetta eru erfiðleikar frá fortíðinni.

Ég vil að endingu segja það, að ég vænti þess að Vestfirðingar og Austfirðingar geti snúið bökum saman í sambandi við að leysa þann vanda sem þeir eiga við að glíma í raforkumálum og eru á margan hátt svipaðs eðlis. Ég treysti því, að svo verði og allir góðir og velviljaðir hv. þm. leggist þar á sveif með þessum landshlutum.