21.11.1978
Sameinað þing: 25. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

35. mál, bundið slitlag á vegum

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég held að hv. þm. komi það ekki á óvart þó að ég geri nokkrar aths. við þá þáltill. sem hér liggur fyrir, þegar svo mikill ágreiningur virðist ríkja í herbúðum þess flokks sem fyrst og fremst stendur að þessari þáltill. Hefði nú ekki verið nær, ef hv. þm. Stefán Valgeirsson hefði reynt að samræma sjónarmið sín sjónarmiðum hv. þm. Vilhjálms Hjálmarssonar áður en þessi till. kom fram? Þá held ég að hefði verið möguleiki að ræða vegamálin á eilítið gáfulegri grundvelli.

Ég vil fyrst taka það fram, að ég er hlynntur því að gert sé átak í vegamálum og vegfarendum verði gert auðveldara um vik að ferðast um landið á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Ég vil einnig taka það fram, að ég er ekki á móti áætlunargerð í vegamálum. Ég fel að slíka áætlunargerð mætti efla í framtíðinni.

Það hefur verið einkenni á vegamálapólitík okkar Íslendinga á undanförnum árum, að áhersluþættirnir í vegagerð um landið hafa jafnan flust á milli kjördæma eins og vegamálaráðuneytið eða vegamrh. hefur flust á milli kjördæma. Þegar fyrrv. samgrh., Halldór E. Sigurðsson, var með vegamálin fór mest allt framkvæmdafé í vegagerð í framkvæmdir við Borgarfjarðarbrú í Borgarfirði. Fyrirrennari hans, þáv. samgrh. Ingólfur Jónsson, lagði náttúrlega fyrst og fremst áherslu á að eyða framkvæmdafé í vegagerð í eigin kjördæmi, Suðurlandskjördæmi, og hóf þar miklar vegaframkvæmdir til að leggja slitlag á veginn til síns heima. Þetta er nú það sem hefur fyrst og fremst einkennt vegapólitík okkar Íslendinga á undanförnum árum. Kannske er því fagnaðarefni þegar vegamálaráðh. er kominn í annan flokk, sem sagt þriðja flokkinn, Alþb., að framsóknarmenn komi fram með till. á þingi um að nú sé æskilegt að gera vegáætlun og binda hana ekki eingöngu við eitt kjördæmi, kjördæmi hæstv. menntmrh., heldur binda hana við hringveginn allan. Þeir eru kannske að koma í veg fyrir að hæstv. menntmrh. leggi fram á Alþ. einhvern næstu daga nýja vegáætlun um að leggja slitlag á veginn frá Borgarnesi og norður í Varmahlíð. En það er nú önnur saga, og við bíðum spenntir eftir því hvort svo verður.

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn keppast einnig um það, hverjir gætu orðið fljótari að leggja slitlag á allan hringveginn. Fyrir kosningar birtust þau tíðindi hér í landinu, að Sjálfstfl. skyldi geta gert þetta á 15 árum. Nú eftir kosningar býður Framsfl. betur og segist geta gert þetta á 10 árum. En það er aldrei að vita, eftir að sjálfstæðismenn eru búnir að leggja fram þá till., sem þeir leggja fram innan tíðar eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson tjáði þingheimi þegar þetta mál var til umr. um daginn, nema við Alþfl.-menn tökum báðar þessar till. til gaumgæfilegrar athugunar, sjóðum eina till. úr þeim báðum og flytjum hér á Alþ. frv. til l. um 5 ára áætlun. Við gætum þannig einnig orðið þátttakendur í þessari samkeppni.

En að slepptu öllu gamni vil ég benda hv. 1. flm., Vilhjálmi Hjálmarssyni, á að við erum báðir aðilar að aðhaldsríkisstj. Forgangsverkefni þeirrar ríkisstj. er að berja niður verðbólguna og ná árangri í því að efla kjörin með því að lækka verðbólguna. Ég hef lítið svo á, að öllum frekari aukafjárfestingum á vegum ríkis umfram það sem orðið er á undanförnum árum beri að fresta meðan við tökumst á við þennan meginefnahagsvanda næstu mánuðina — og kannske næstu tvö árin, eftir því hvernig okkur tekst til. Þess vegna vil ég líta svo á, að þessi till. sé fremur tímaskekkja en hitt, að ætlast sé til þess að við stuðningsmenn ríkisstj. tökum hana alvarlega, hvað þá þegar farið er að benda á að hægt sé að fjármagna þetta með enn nýrri útlánapólitík, með því að selja happdrættisskuldabréf, eða eins og framsóknarmenn vilja, að kanadískir aðilar lánuðu fé í þetta, en sjálfstæðismenn vildu gefa út ný happdrættisskuldabréf til þess að fjármagna þetta fyrirtæki. Það er slæmt að hv. þm. Sverrir Hermannsson er ekki hér viðstaddur, en ég hélt að það væri nóg komið af slíku. Væri ekki nær að reyna að borga upp gömlu bréfin, sem gerðu það að verkum á sínum tíma að þessi hringvegur varð að raunveruleika, áður en við förum að gefa út enn ný til þess að koma ríkissjóði á vonarvöl með útgáfu slíkra happdrættisskuldabréfa?

Ég tek undir orð hæstv. fjmrh., sem hann gjarnan viðhefur í þingsölum, að það þarf aðhald í ríkisfjármálunum og það þarf að stefna að því, að ríkissjóður verði rekinn með einhverjum hagnaði. Ég álít að svona tillöguflutningur sé ekki þesslegur, að því markmiði verði náð.

Sjálfstæðismenn með hv. þm. Sverri Hermannsson í broddi fylkingar ræddu þessi mál þegar þau komu hér fyrst til umr. Þeim þótti það sýnilega súrt, að framsóknarmenn höfðu boðið aðeins betur og voru fyrri til með till. En það er aftur á móti annað mál. — Það virðist sem svo, að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn ætli sér fyrst og fremst að taka höndum saman um að auka nú enn á fjárfestinguna í landinu og eyða í það miklu fjármagni, meðan við þurfum á öllu okkar átaki að halda í baráttunni gegn verðbólgunni, en ættum að draga saman seglin og reyna að draga úr þenslunni í þjóðfélaginu.

Að lokum, herra forseti, vil ég segja það, að vissulega er það mál, sem við þurfum hafa á hverjum tíma til athugunar, að fjalla um nauðsynlegar vegaframkvæmdir, en ég er ekki tilbúinn að segja að það sé endilega nauðsynlegt að eyða því framkvæmdafé okkar, sem fyrir er, í að tengja saman hringveginn, heldur sé hitt nauðsyn, að það nýtist þar sem fyrst og fremst er notkunar þörf. Áætlun um umferðarþunga og nýtingu verður að byggjast á því, að arðbært sé að leggja slitlag á vegi. Síðan verður að leggja fram áætlun til nokkurra ára um það, hvernig mætti standa að þessu með tilliti til annarra málaflokka sem við erum að fjalla um, eins og t.d. verðbólgunnar. En eins og ég sagði áðan og vil leggja áherslu á, þá erum við í aðhaldsríkisstj., og ég held að við ættum að fresta svona tillöguflutningi á meðan við erum að ná árangri í því höfuðbaráttumáli sem við eigum við að glíma, en það er verðbólgan. Og þegar hv. þm. Vilhjálmi Hjálmarssyni ásamt öðrum stuðningsmönnum ríkisstj. hefur tekist að ná árangri í baráttunni við verðbólguna, verða möguleikar til þess að gefa þjóðinni tilefnisgjöf, ég segi ekki 10 ára áætlun, heldur 5 ára áætlun í vegamálum, og á stórfelldu átaki í vegamálum og e.t.v. á öðrum sviðum samgöngumála.