18.10.1978
Efri deild: 6. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

13. mál, stjórnarskipunarlög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða efnislega þessa till. sem hér liggur fyrir. Hér er um endurflutning að ræða á till. frá síðasta Alþ. En ég get ekki orða bundist yfir þeim fáfengilegu umr. og orðaskiptum sem hafa farið hér fram á milli tveggja hv. þm. stjórnarflokkanna út af þessu máli. Mér finnst að það bregði oft við sýndarmennsku hjá fulltrúum þessara flokka, en stundum keyrir úr hófi eins og í þessu máli, því auðvitað er hér ekki um neitt annað en sýndarmennsku að ræða, þar sem er sá tillöguflutningur sem er um lækkun kosningaraldursins í báðum deildum þingsins. Eins og raunar hefur komið fram í þessum umr., er ákveðið og Alþ. hefur þegar samþ. að skipuð skuli sérstök stjórnarskrárnefnd til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þetta var gert fyrir forustu fyrrv. forsrh., Geirs Hallgrímssonar, og Alþ. samþ. þetta. Það liggur fyrir að nú næstu daga verður þessi n. fullskipuð og hefur þess vegna störf að endurskoðun stjórnarskrárinnar, jafnt um þetta efni sem önnur þýðingarmikil mál sem þarf að endurskoða í sambandi við stjórnarskrána.

Ég vildi láta þetta sjónarmið koma hér fram. Ég held að fulltrúar bæði Alþfl. og Alþb. gætu sparað sér alla samkeppni á þessum fundi um heiður af framgöngu þeirra í sambandi við flutning þessara mála. Það er vart hægt að sjá nokkurn sérstakan heiður í því sambandi.