30.11.1978
Efri deild: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

106. mál, ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Svör hæstv. forsrh. við þessari litlu og einföldu fsp. sanna enn einu sinni hve mjög þetta frv. er allt á sandi reist. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa borgaranna í landinu að þeir viti hvers er að vænta úr þessari átt, hvað er ætlast til að þeir leggi af mörkum af skattpeningum til ríkisins. Þetta er allt í athugun, segir hæstv. forsrh., en getur þess ekki einu sinni hvenær sú niðurstaða muni liggja fyrir. Ég veit að margir hv. stjórnarsinnar eru að vonum óhressir yfir að standa að afgreiðslu frv. með þessum hætti, að hafa sem sé í rauninni ekki minnstu hugmynd um hvernig á að afla þeirra tekna sem þarf til þess að ákvæði frv. standist, því að það er ljóst að sjálfur hæstv. forsrh. hefur ekki einu sinni hugmynd um það.