19.10.1978
Sameinað þing: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Alþb. er sá flokkur sem lengst af hefur verið stefnulaus í efnahagsmálum og hefur ekki fengist til að viðurkenna grundvallarstaðreyndir í íslensku efnahagslífi. Fyrir kosningarnar í vor setti Alþb. fram stefnu í efnahagsmálum og hafði þar lausn á sérhverju vandamáli. Stefna þess var að mestu óframkvæmanleg og þar voru augljósar blekkingar, hvort sem þær hafa verið settar fram vísvitandi eða ekki.“

Góðir áheyrendur. Þetta voru ekki mín orð, heldur Halldórs Ásgrímssonar, fyrrv. alþm. Framsfl., í Tímanum nú nýverið. En ég vil gera þau að mínum orðum í upphafi ræðu minnar. Það er einmitt þessi óframkvæmanlega stefna Alþb. og blekkingar þess sem formaður Framsfl. var að gera ykkur, góðir áheyrendur, grein fyrir áðan í stefnuræðu forsrh. Framsfl. og Alþfl. hafa gengið undir jarðarmen Alþb. og gert botnlausa stefnu Lúðvíks Jósepssonar að sinni. Blekkingarnar og svikin kosningaloforð eru t.d. í því fólgin að setja átti samningana í gildi, sem ekki hefur verið efnt. Enn er í gildi vísitöluþak með líkum hætti og samkv. maílögunum, en auk þess er vegið tvisvar í sama knérunn þar sem þeim, sem fyrir því verða, er gert að greiða aukatekjuskatt til viðbótar. En að svo miklu leyti sem samningarnir eru látnir taka gildi, þá er það annars vegar gert með því að falsa vísitöluna og hins vegar með því að fjármagna fölsun vísitölunnar með aukinni skattheimtu.

Þetta eru ekki ný vinnubrögð vinstri stjórnar. Á árinu 1973 var vísitalan borguð niður fyrir hvern útreikningsdag með auknum niðurgreiðslum eða fjölskyldubótum sem síðan voru lækkaðar eftir gildistöku vísitölu. Nú er eins farið aftan að launþegum í landinu.

Fyrir kosningar var loforðið „samningar í gildi“ án alls fyrirvara. En eftir kosningar eiga launþegar að kaupa þær þokkalegu efndir loforðsins, sem í fölsun vísitölunnar og aukinni skattheimtu felast, með því að skuldbinda sig til að gera engar breytingar á grunnkaupi í eitt ár a.m.k. eftir að samningstímabili lýkur 1. des. n.k. og opinberir starfsmenn þurfa að falla frá þegar umsömdum grunnkaupshækkunum á næsta ári.

Fyrir kosningar hélt stjórnarandstaðan því fram, að kaupgjald í landinu væri hreint aukaatriði varðandi verðbólguvöxt, tilkostnað og afkomu atvinnuveganna. Eftir kosningar er annað hljóð komið í strokkinn.

Fyrir kosningar voru verkalýðsforingjar kommúnista og krata ódeigir að beita bæði ólöglegum og löglegum þvingunaraðgerðum gegn stjórnvöldum og almenningshagsmunum til að koma í veg fyrir að efnahagsaðgerðir næðu tilgangi sínum. En eftir kosningar og stjórnarmyndun sitja þessir sömu menn eins og mýs undir fjalaketti og láta sér lynda að spilað sé hóflaust á hið falska hljóðfæri, sem framfærsluvísitalan er, með því að greiða niður þær vörur sem ódýrast er fyrir ríkissjóð og vega mun þyngra í vísitölu en í raunverulegum útgjöldum almennings, en leggja aukaskatt á aðrar vörur sem vega aftur á móti mun þyngra í útgjöldum fjölskyldunnar en í vísitölunni eða koma þar alls ekki fram. Og þótt þess séu alvarleg dæmi, eins og með gamla kjötið, að vörurnar fáist ekki á því verði sem reiknað er með í vísitölu, þá þegja hinir galvösku komma- og krataforingjar.

Sannleikurinn er sá, að kosningaloforðið „samningarnir í gildi“ og vanefndir þess er mesta hókus-pókus sjónhverfingaspil íslenskra stjórnmála og kjaramála, sem dæmi eru til um.

Sjálfstfl. hefur verið sjálfum sér samkvæmur einn íslenskra stjórnmálaflokka fyrir og eftir kosningar. Sjálfstæðismenn sögðu fyrir kosningar að ekki væri unnt að tryggja meiri kaupmátt ráðstöfunartekna að óbreyttum afla og viðskiptakjörum en menn þá nutu og var 15–17% meiri en fyrir kjarasamninga á síðasta ári og sá mesti í sögu þjóðarinnar. En kommúnistar og kratar sögðu að tryggja bæri þann kaupmátt sem stefnt var að með kjarasamningunum 1977. Fáir gátu þó skýrt hver sá kaupmáttur væri, en eftir því sem næst varð komist var hann enn a.m.k. 10% meiri en við nutum fyrri hluta þessa árs. Ábyrgð á þessum efndum hafa nú framsóknarmenn einnig tekið. En það stenst ekki til lengdar, ef við eigum ekki að auka erlenda lánabyrði, reka ríkissjóð með halla, auka verðbólguna í landinu sem allir segjast vera á móti. Stefna núv. ríkisstj., að svo miklu leyti sem hægt er að tala um stefnu, leiðir óhjákvæmilega til þessa alls og síðan að lokum til atvinnuleysis.

Tvennt er það sem forsrh. hengir hatt sinn á í stefnuræðu sinni: annars vegar endurskoðun á vísitölunni og hins vegar samráð við aðila vinnumarkaðarins, og er hvort tveggja góðra gjalda vert. Þess er skemmst að minnast, að við gerðum sameiginlega tilraun í fyrrv. ríkisstj. til að taka óbeina skatta út úr vísitölunni og þar með allar niðurgreiðslur vöruverðs. Þá væri ekki hægt lengur að spila á hið falska hljóðfæri vísitölukerfisins og stjórnvöld hefðu frjálst val milli óbeinna og beinna skatta sem nú eru ekki í vísitölu. Hér er um hagsmunamál launþega og almennings í landinu að ræða. Samt sem áður beittu forustumenn ASÍ sér gegn þessu, og til samkomulags við þá var ákvæði þessa efnis fellt niður í endanlegri gerð febrúarlaganna. Vonandi hafa viðhorf manna breyst í þessum efnum. Auðvitað er nauðsynlegt að draga úr víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags með endurskoðun vísitölukerfisins, t.d. með einhvers konar þjóðhagsvísitölu. En aðalatriðið er þó að stjórnvöld veiti svigrúm í þjóðarútgjöldum fyrir þeirri einkaneyslu, fyrir þeim kaupmætti ráðstöfunartekna sem þau segjast stefna að og launþegar geta við unað.

Í stefnuræðunni er lögð mikil áhersla á mikilvægi samstarfs við aðila vinnumarkaðarins og sagt að hér sé farið inn á nýja braut og um merkilega tilraun sé að ræða. Staðreyndir málsins eru að flestar eða allar ríkisstj., sem hér hafa setið síðustu áratugi, hafa leitað slíks samstarfs, þótt árangur hafi verið misjafn.

Stjórn Hermanns Jónassonar byggðist á slíku samstarfi og skuldbatt sig til að gera ekki ráðstafanir í efnahagsmálum nema með samþykki Alþýðusambandsins. Stjórnin fór frá, þegar Alþýðusambandsþing neitaði að fallast á till. stjórnarinnar.

Viðreisnarstjórnin hafði stöðugt og náið samband við aðila vinnumarkaðarins, a.m.k. allt frá því í lok árs 1963.

Vinstri stjórnin 1971–1974 mun og hafa haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, þótt það endaði með ósköpum eins og kunnugt er.

Fyrrv. ríkisstj. hafði samráð við aðila vinnumarkaðarins í sambandi við aðgerðir sínar í efnahagsmálum. Þessir aðilar tóku einnig þátt í störfum verðbólgunefndar sem lagði til að slíku samráði yrði komið á víðtækan og formlegan grundvöll, og var undirbúningur að því hafinn í tíð fyrrv. ríkisstj. þótt undirtektir launþegasamtakanna væru þá ekki fullnægjandi og launþegasamtökin væru þá misnotuð í flokkspólitískum tilgandi af hálfu Alþb. og Alþfl.

Fyrir kosningar töluðum við sjálfstæðismenn um þjóðarsátt í kjaramálum og höfum í engu breytt afstöðu okkar í þeim efnum. Alþfl.-menn töluðu um kjarasáttmála. Í sannleika sagt létu framsóknarmenn sér fátt um finnast í þessum efnum, og Alþb. talaði jafnvel um nauðsynlegt stéttastríð. En batnandi mönnum er best að lifa, og reynslan ein fær úr því skorið, hvort hugur fylgir máli. En ég vil vara við því að ríkisvaldið, ríkisstj. og löggjafarsamkoman, Alþingi, glati sjálfstæði sínu gagnvart hagsmunasamtökum og þrýstihópum í þjóðfélaginu. Á sama hátt hlýtur það að vera umhugsunarefni, að t.d. launþegasamtökin verði ekki leiðitamt verkfæri stjórnvalda, eins og er hvarvetna í ríkjum sósíalismans, þar sem þjóðskipulagi, sem Alþb. hefur á stefnuskrá sinni, er komið á. Best fer á að nokkur verkaskipting sé á milli ríkisvalds og hagsmunasamtaka og hvort um sig virði sjálfstæði hins eins og frekast má verða.

Nýjar álögur beinna skatta, sem menn eru að fá tilkynningar um þessa dagana, eru ekki í samræmi við stefnu launþegasamtakanna sem undanfarið hafa lagt áherslu á lækkun beinna skatta.

Tekjuskattsaukinn veldur því, að menn greiða 70% af jaðartekjum sínum í skatt og skyldusparnað til hins opinbera. Og hann leggst ekki bara á hátekjufólk. Tekjuskattsaukinn leggst á þúsundir skattgreiðenda, þ. á m. á sjómenn sem með ákvörðun fiskverðs nú síðast hafa ekki fengið hlutfallslega sömu launahækkun og aðrir landsmenn, og einnig þær fjölskyldur þar sem hjón vinna bæði úti. Þessi skattur dregur úr vilja manna til að leggja sig fram til að auka verðmætasköpunina í þjóðfélaginu og felur auk þess í sér þá hættu, að menn telji siðferðilega ekkert rangt að draga tekjur undan skatti. Það er eins og mig minnir að einhverjir stjórnarsinnar hafi talað um neðanjarðarhagkerfi. Hvað er líklegra til að auka það en þessi óréttláti skattur?

Þá er 50% og 100% viðbótareignarskattur rökstuddur með því að ná til verðbólgubraskaranna. En eignarskatt greiða menn af skuldlausri eign, og verðbólgubraskarar hafa vit á því að skulda jafnmikið og matsverð eða bókfært verð eigna þeirra nemur. Það er einmitt sparsama og skilvísa fólkið í landinu sem lendir mestmegnis í þessum skatti. Ég frétti í dag af 85 ára gömlum Reykvíkingi sem unnið hefur hörðum höndum af dugnaði alla ævi, en hefur nú aðeins ellilífeyristekjur en á íbúð. Hann fær 31 þús. kr. skattreikning. Þetta eru breiðu bökin, en skuldakóngarnir sleppa sem Alþb.-menn og framsóknarmenn halda verndarhendi yfir með því að viðurkenna ekki raunvexti og láta sig hag sparifjáreigenda engu skipta.

Viðbótartekjuskatturinn á atvinnurekstur viðurkennir ekki fyrningarfrádrátt atvinnutækja. En þar með er dregið úr möguleikum til endurnýjunar véla og tækja sem til aukinnar hagkvæmni og framleiðni leiðir og fyrst og fremst getur tryggt raunverulega kjarabót launþegum til handa.

Allt rekur sig á annars horn í starfslýsingu ríkisstj. Þannig á að beina fjárfestingu í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri, en um leið er einmitt fjármagn til þessara nota tekið af atvinnurekstrinum. Þannig er gengið lækkað til þess að auka tekjur atvinnufyrirtækja í krónutölu og lofað er vaxtalækkun sem er algerlega óraunhæf, en um leið eru stórauknar álögur á atvinnuvegina. Hvers konar hringdans vitleysunnar er hér á ferðinni, eða var á öðru von af vinstri stjórn?

Stefna Sjálfstfl. er skýr í skattamálum:

1. Takmarka ber umsvif hins opinbera og þar með heildarskattlagningu á landsmenn, enda lækkaði hlutfall ríkisútgjalda á síðasta stjórnartímabili úr 31–32% í 27–28% af þjóðarframleiðslu.

2. Skattlagning á fremur að vera á eyðslu með óbeinum sköttum, en síður með beinum sköttum á tekjur eða verðmætasköpunina í þjóðfélaginu. Í samræmi við það lækkaði hlutfall beinna skatta í tekjuöflun ríkisins um þriðjung á síðasta kjörtímabili.

3. Tekjuskattar eiga ekki að leggjast á almennar launatekjur og hæsti skattur í heild ekki að fara fram úr 50% af síðustu tekjum sem menn fá í sinn hlut.

Þótt stutt reynsla sé komin af störfum ríkisstj. og árangri þeirra bráðabirgðaráðstafana sem hún sjálf kallar svo og hefur staðið fyrir, þá er samt ljóst að hvorki ríkisstj. í heild né einstakir ráðh. gera sér grein fyrir hvert stefnir og því síður hvert á að stefna og hvaða leiðir skuli velja. Samræmd efnahagsstefna er engin fyrir hendi. Aðgerðir í kaup- og kjaramálum, þ. á m. verðlagsmálum, hafa kynt verðbólgueldinn svo að við blasir 1. des. meiri hækkun vísitölu en ætlað var að ógerðum þessum bráðabirgðaráðstöfunum.

Núv. ríkisstj. hefur ekki leyst vandann, heldur aukið hann. Undirstöðuatvinnuvegir eru reknir með halla þrátt fyrir að sölusamtök frystihúsa hafi hækkað útborgunarverð til húsanna til viðbótar hækkun í kjölfar gengisfellingar í september. Þetta er gert í krafti loforðs ríkisstj. að láta gengið síga, og það sig er þegar hafið, eins og skráning dollarans ber með sér, og á því miður eftir að aukast. Í stað þess að auka samkeppni og frelsi í verslun og vöruvali er horfið frá nýrri skipan, sem samkomulag hafði orðið um í fyrrv. stjórn til að tryggja heilbrigða verslunarhætti og sem lægst vöruverð, til gamals og úrelts skipulags sem búið er að vera skaðvaldur í atvinnulífi landsins í hartnær 40 ár og raunar beint og óbeint verðbólguvaldur á þessu tímabili og allar nágrannaþjóðir hafa horfið frá.

Í stað þess að marka raunhæfa vaxta- og verðtryggingarstefnu ætlar ríkisstj. jafnvel bæði að lækka og hækka vexti, og missir þannig tökin á peningamálum og á stjórn fjárfestingar.

Sjálfstæðismenn hafa bent á, að dregið hafi verið úr fjárfestingum með almennum aðgerðum á síðasta kjörtímabili úr 33% í 27% af þjóðarframleiðslu, og telja eðlilegt, að fjárfestingin sé jafnan um fjórðungur þjóðarframleiðslunnar, til þess að veita svigrúm til aukinnar einkaneyslu. Bersýnilega ætlar stjórnin hins vegar að grípa til vinstristjórnarúrræða í fjárfestingarstjórn, boða og banna og þess misréttis sem þau leiða af sér milli atvinnugreina og einstaklinga. Tilraunir í þá átt eru bæði stórlega skaðlegar og ná ekki heldur þeim árangri sem til er ætlast. Í stað þess að gæta þess árangurs, sem fyrrv. fjmrh. hafði náð, og áætlunargerð í fjmrn. eftir mitt ár staðfesti að greiðslujöfnuður mundi nást hjá ríkissjóði á þessu ári, eru ákveðin útgjöld sem óhóflega aukin tekjuöflun stendur þó ekki undir, þar sem komið er aftan að borgurunum með afturvirkum, siðlausum og jafnvel ólögmætum hætti. Á næsta ári er og fyrirsjáanlegt, að tugmilljarðabil þarf að brúa hjá ríkissjóði með enn aukinni skattheimtu samkv. frásögn forsrh., enda bólar ekki enn á fjárlagafrv. sem þó er venjulega fyrsta mál þingsins. Slíkur hallarekstur og háttalag sem útlit er fyrir magnar auðvitað verðbólguna til viðbótar við allt annað.

Þessi upptalning sýnir, að samræmd stefna í baráttunni gegn verðbólgunni er engin mörkuð. Botnleysa Alþb. ræður ferðinni, en Alþfl. og Framsfl. eru stefnulausir bandingjar, týndir og tröllum gefnir.

En í einu á þó núv ríkisstj. heiður skilið: að fylgja óbreyttri stefnu í utanríkismálum. Þessi staðreynd er athyglisverð þegar tekið er mið af fyrri vinstri stjórnum, sem báðar hafa haft það sem yfirlýsta stefnu sína að gera landið varnarlaust með því að rifta varnarsamningnum við Bandaríkin. Af umræðum meðal stjórnarsinna frá því að ríkisstj. var mynduð má helst ráða, að þeir ætli að láta sér nægja að deila um keisarans skegg á sviði utanríkismála að þessu sinni.

Alþb.-menn hafa dregið fram í dagsljósið hugmynd um friðlýsingu hafsvæða. Hins vegar hefur utanrrh. sagt, að slíkar friðlýsingarhugmyndir séu algerlega óraunhæfar. Án þess að ég ætli að blanda mér í þessar deilur vinstri manna vil ég þó ekki láta hjá líða að lýsa yfir stuðningi við sjónarmið utanrrh. Það er því miður óraunhæft að gera sér vonir um að Sovétríkin fallist á nokkra takmörkun á sívaxandi flotaumsvifum sínum á höfunum umhverfis Ísland.

Ríkisstj. ætlar að skipa n. með fulltrúum allra þingflokka til að gera úttekt á öryggi Íslands. Sjálfstfl. fagnar því, að ætlunin er að láta draga saman allar staðreyndir um hernaðarlega stöðu landsins. Af flokksins hálfu verður stuðlað að því, að þetta starf verði unnt að vinna á hlutlægan hátt með aðstoð fróðustu manna innanlands og utan. Flokkurinn mun hins vegar ekki taka þátt í störfum þessarar n., ef ætlunin er að misnota hana í pólitískum tilgangi.

Við Íslendingar höfum haldið vel á utanríkismálum okkar, þótt hliðarspor hafi raunar verið stigin á árum vinstri stjórnar sem leiðrétt hafa verið sem betur fer. Sigurinn í 200 mílna útfærslu fiskveiðilögsögunnar í tíð fyrrv. ríkisstj. er glöggt dæmi um hvernig halda ber á málum gagnvart öðrum þjóðum. Í beinu framhaldi af þeim sigri þarf að mörgu að hyggja.

Þrjú fyrstu mál þingsins fjalla um hafréttarmálefni. Þau eru flutt af 8 sjálfstæðismönnum, einum úr hverju kjördæmi. Fyrsta málið fjallar um rannsókn á landgrunni Íslands, annað um réttindi á Íslandshafi og þriðja um landgrunnsmörk Íslands til suðurs. Hér er um að ræða hin mikilvægustu mál, sem stjórnarandstaðan hefur forustu um og býður þar með stjórnarflokkunum fulla samvinnu og samstöðu um að tryggja réttindi okkar á sviði hafréttarmála. Efa ég ekki, að ríkisstj. muni ganga til samstarfs við Sjálfstfl. um framkvæmd þessara mikilvægu mála, og vona, að engin bið verði á því, þar sem á miklu ríður að vera vel undirbúinn þegar næsti fundur hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna verður haldinn eftir nokkra mánuði.

Herra forseti. Ég skal engu spá nm langlífi þeirrar ríkisstj. sem nú situr. En margt bendir til þess, að tvennt geti gerst: Annaðhvort gefst ríkisstj. blátt áfram upp, af því að hún hefur í byrjun reist sér hurðarás um öxl og á engin sameiginleg úrræði, eða hún verður að beita meiri hörku í anda þeirra auknu ríkisafskipta, skömmtunar, hafta og banna sem svokallaðir vinstri flokkar ýmist fylgja eða eru hneigðir til að nota í þeirri trú að nauðsynlegt sé að ríkið beiti foreldravaldi gegn fullorðnu fólki. Við sjálfstæðismenn erum þessu algerlega andvígir. Skarpari skil kunna því nú að vera í íslenskum stjórnmálum en oft áður.

Við sjálfstæðismenn teljum að baráttan gegn verðbólgunni verði að hafa algeran forgang, þar sem hún stofnar lýðræði, einstaklingsfrelsi og lífskjörum fólksins í voða. En við þurfum einnig að horfa fram á við að öðru leyti og beina athygli okkar að öðrum málefnum. Sumir segja að um miðjan síðasta áratug hafi þjóðin náð því marki í öllum meginatriðum að búa við sambærileg lífskjör og aðrar þjóðir, og er það afrek út af fyrir sig, þá hafi athygli okkar og annarra beinst að verndun umhverfis og náttúru og nú hafi tekist að vekja fólk til vitundar um nauðsyn slíkrar umhverfisverndar, í umróti nútímaþjóðfélags hafi hins vegar sálarheill fólksins sjálfs, einstaklingsins, e.t.v. gleymst. Þess vegna þurfum við í vaxandi mæli að beina athygli okkar að einstaklingnum sjálfum. Það er og í samræmi við þá grundvallarstefnu Sjálfstfl. að halda fram hlut hins frjálsa, ábyrga einstaklings, sem neytir hæfileika sinna sjálfum sér til lífsfyllingar og öðrum til gagns í frjálsu, réttlátu samfélagi. — Ég þakka þeim sem hlýddu.