04.12.1978
Neðri deild: 26. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

114. mál, dómari og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það hafa ýmsir tekið eftir því í þjóðfélaginu, að stjórnmálamenn hafa verið nokkuð hugmyndaríkir að finna upp ýmis nýyrði. Það var einhver sem sagði við mig fyrir stuttu, að sennilega yrði verðbólguvandinn best leystur með samræmdri notkun á þeim nýyrðum sem stjórnmálamenn hefðu fundið upp, þ.e.a.s. að kasta „verðbólguófreskjunni“ á „verðbólgubálið“ og kalla svo til „verðbólguholskefluna“ til að slökkva í.

Það mál, sem hér er til umr., er frv. til l. um sérstakan dómara og rannsóknardeild í skattamálum og bókhaldsmálum. Ég ætla ekki að gera grg. þessa frv. að umtalsefni, það hafa aðrir gert, en í sambandi við skattamálin almennt, og þetta frv. kemur þar inn í, eru nokkur atriði sem skipta verulegu máli.

Það er náttúrlega í fyrsta lagi löggjöfin sjálf á sviði skattamála. Á hana hafa menn lagt mjög mikla áherslu á undanförnum árum, en hins vegar tiltölulega minni áherslu á framkvæmd þeirrar löggjafar, sem fyrir er. Ég hef því enga fullvissu fyrir því, að það, sem fyrst og fremst vanti á sviði skattamála, sé ný og ný löggjöf. Það eru til mörg dæmi þess, að ný löggjöf hefur beinlínis spillt fyrir eðlilegri framkvæmd skattamála. Má í því sambandi vísa til hinna fjölmörgu undanþáguákvæða sem hafa verið sett af Alþ. Hér var nú fyrir stuttu verið að mæla fyrir einn nýju. Þó að það út af fyrir sig geti verið ágæt réttlætismál, þá hafa þessi undanþáguákvæði í söluskattslöggjöfinni mjög torveldað eðlilega framkvæmd þessara laga, þótt rekaviður á Ströndum sé að sjálfsögðu þar ekkert aðalatriði. En ég er t.d. fullviss um að þau undanþáguákvæði, sem nú nýlega eru komin á, torvelda eðlilega framkvæmd skattalaganna og auðvelda mönnum að svíkja undan skatti. Einnig gerir þetta bókhald þessara aðila miklu flóknara og þar með erfiðara að fylgjast með því. Einnig verðum við að hafa það í huga, að það er verulegur skortur á mönnum í þjóðfélaginu til þess að veita leiðbeiningar og annast þetta bókhald í þjóðfélagi eins og okkar, sem er að mestu leyti byggt upp af smáfyrirtækjum, sem hafa oft og tíðum ekki mikla peninga til þess að hafa starfsmann í fullri vinnu á þessu sviði. Í fyrirtæki vinna kannske 1–2 menn. Það er ljóst, að þetta fyrirtæki hefur ekki fjármuni til þess að kosta til að hafa sérstakan mann í bókhaldinu, hvort sem væri þörf á því eða ekki.

Menn ræða um að setja upp nýjan dómstól til þess að greiða fyrir framkvæmd skattalaga, þ.e.a.s. hér er um að ræða að samþykkja ný lög, sem flm. telja að muni bæta mjög úr í framkvæmd skattalaganna. Um það vil ég ekki fullyrða. Það hefur komið hér fram, að refsiákvæði skattalaganna eru talin fullnægjandi, og ég er þeirrar skoðunar. Hins vegar er ég þess fullviss, að það má bæta mjög um varðandi skipulagningu í framkvæmd skattamála. Það hefur nokkuð verið gert í þessa átt. T.d. var sett hér upp skattalögregla fljótlega eftir 1960, og menn urðu mjög greinilega varir við að það var mikil bót að tilkomu þessarar skattalögreglu í þjóðfélaginu. Ég held að menn hafi almennt, sem unnu að þessum málum eða í kringum þessi mál, orðið greinilega varir við það, hvort sem það hefur verið í skattkerfinu eða hjá endurskoðendum og öðrum aðilum sem koma nálægt þessum málum, og það varð að mestu upphaf að ákveðinni hugarfarsbreytingu sem ekki hefur samt orðið nægileg. Við þurfum fyrst og fremst hugarfarsbreytingu í þessum málum, þannig að skattsvik séu fyrst og fremst álitin þjófnaður. Ég held að það, sem sé þýðingarmest, ef menn vilja ná sem mestum árangri á þessum sviðum, sé ekki beint dómstigið. Ég er viss um að þar má ýmislegt bæta, en það, sem ég held að sé mikilvægast á þessu sviði, ef menn vilja ná langt, er frumstigið, þ.e.a.s. efling skattstofanna og aukinn starfskraftur á skattstofunum til þess að vera í daglegu eftirliti.

Við höfum orðið vör við það í þessu þjóðfélagi, að orðið hefur gífurleg hugarfarsbreyting varðandi landhelgisbrot. Landhelgisbrot þóttu fyrir nokkrum árum ekki neitt sérstaklega alvarleg brot. Þeir þóttu oft menn með mönnum, sérstaklega stórir menn, sem skruppu oft inn fyrir til þess að ná sér í aukaafla. Það má vel vera að einhverjir skipstjórar í þjóðfélaginu hafi hreinlega verið reknir, vegna þess að einn var duglegur að fiska í landhelgi og varð aflakóngur, en hinn var alltaf utan við línu og fiskaði aldrei neitt. Það má vel vera að einhver skipstjóri hafi orðið fyrir því að vera rekinn fyrir það að fiska aldrei í landhelgi. Á þessu hefur orðið gífurleg breyting. Og vegna hvers er það? Það er vegna þess að Landhelgisgæslan m.a. hefur stóraukið eftirlit, hið daglega eftirlit, og einnig hefur umræðum í þjóðfélaginu verið háttað þannig, að mönnum er miklu betur ljóst en áður hversu takmarkaðar auðlindir okkar eru. Það þykir orðið alvarlegt í augum almennings að fremja landhelgisbrot. Með daglegu eftirliti á flugvélum geta skipstjórnarmenn alltaf átt von á að sjá Landhelgisgæsluna, og það er mjög fátítt, leyfi ég mér að fullyrða, að landhelgisbrot séu framin á Íslandi í dag. Það er kannske þess konar jákvætt eftirlit, — það hefur verið jákvætt eftirlit af hálfu Landhelgisgæslunnar, — sem menn þurfa fyrst og fremst á að halda úti í umdæmunum, að menn komi í fyrirtækin í eftirlitsferðir og leiðbeini þá einnig þeim mönnum sem þar starfa, komi ekki bara með því hugarfari að finna einhvern mann sem þurfi að draga fyrir lög og dóm, heldur til að framfylgja slíku jákvæðu eftirliti. Að sjálfsögðu ber að refsa mönnum, sem brjóta skattalög og framkvæma skattsvik, en þessi framkvæmd skattamálanna, þ.e.a.s. lífandi eftirlit, tel ég að sé það sem menn þurfa fyrst og fremst á að halda. Þess vegna hefði ég haldið að það væri hlutverk þeirrar nefndar, sem var skipuð á vegum stjórnarflokkanna í sambandi við skattamál, að finna leiðir til þess að bæta framkvæmd skattalaganna.

Ég sá í fjárlagafrv. fyrir næsta ár, að þar er gert ráð fyrir 75 millj. kr. í þessu sambandi, og það er afskaplega mikilvægt hvernig þessum fjármunum verður varið. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu, að þeim verði best varið í nýjan dómstól, þá er sjálfsagt að verja þeim þannig. En við, skulum líka hafa í huga, að við höfum dómstól á sviði skattamála sem á að fá víðtækari verkefni nú um næstu áramót, og það er ríkisskattanefnd. Eins og ríkisskattanefnd verður sett upp með nýjum lögum um tekju- og eignarskatt, þá er ríkisskattanefnd mjög keimlík dómstól og verður vart annað en dómstóll, því að mál, sem vísað er til ríkisskattanefndar, eru ekki send til héraðsdóms, heldur fara þaðan beint til Hæstaréttar. Ríkisskattanefnd er þarna það millistig sem héraðsdómurinn er í hinu almenna dómskerfi, þannig að ríkis-skattanefnd er ekkert annað en dómstóll á sviði skattamála. Við höfum því þennan dómstól fyrir. Aðeins er spurning um það: Vilja menn breyta þeim dómstól, sem ríkisskattanefnd er? — Ég vildi aðeins benda flm. á að þarna er fyrir hendi dómstóll.

Það er ýmislegt fleira í gangi í þjóðfélaginu varðandi hert eftirlit með bókhaldi fyrirtækja. Það var hér á Alþ. s.l. vetur samþ. mjög ítarleg löggjöf um hlutafélög. Þessi hlutafélög mörg hver, miðað við ákveðna veltu, verða skyldug til þess að skila reikningum sínum árituðum af löggiltum endurskoðanda sem hefur mikla ábyrgð með tilvísun til þeirrar áritunar. Þetta hefur einnig verulega þýðingu.

Það er sem sagt ekki aðalatriðið að koma upp sem mestu eftirliti á vegum ríkisins. Þarna eiga að vera óháðir aðilar sem eiga að framkvæma visst eftirlit sem bæði kemur skattyfirvöldum til góða, hinum almenna hluthafa og þeim sem skipta við þessi félög. Þetta verðum við allt að hafa í huga. Þó að þetta út af fyrir sig komi ekki þessum dómstól við vildi ég aðeins benda á það.

Þá er eitt vandamál varðandi eftirlit skattamála sem er einnig verulegt, og það er að fá til starfa sérhæfða starfskrafta. Þetta hefur verið verulegt vandamál. Jafnvel þótt skattstofur og rannsóknardeild ríkisskattstjóra hafi til þess heimild að ráða starfsmenn, þá hefur það oft og tíðum reynst þeim erfitt að fá sérhæft starfsfólk til þessara starfa vegna þess að þessum mönnum er oft betur greitt annars staðar í þjóðfélaginu en er á vegum ríkisins. Það er sem sagt ekki nóg að koma upp nýjum og nýjum stofnunum. Það verður einnig að liggja ljóst fyrir, að mögulegt sé að fá þar sérhæft starfsfólk til starfa. Mér hefur verið sagt, að það hafi gengið erfiðlega að fá sérhæft starfsfólk á sviði bókhaldsmála til starfa hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Þess vegna verður einnig að hyggja að því, að það reynist mögulegt að fá slíkt fólk til starfa við þennan nýja dómstól verði hann settur upp.

Skattsvik eru örugglega nokkur í þjóðfélaginu, og við verðum sennilega aldrei fær um að útiloka þessi svik algerlega, en það hlýtur að vera markmiðið að þau verði eins lítil og mögulegt er. Í þessu sambandi er alltaf spurning hversu langt á að ganga í því að fylgjast með högum manna. Það er hægt að fylgjast miklu nánar með högum manna í þjóðfélaginu en gert er, fylgjast miklu betur með einkaneyslu þeirra. Það er sjálfsagt ekkert vandamál að fara í bókhald þess eina millilandaflugfélags sem er hér á landi, fá lista yfir það, hverjir fara til útlanda, og setja miða um það inn í skattframtal hvers einasta manns. Það er ekkert vandamál að fá lista um það frá gjaldeyrisdeildum bankanna, hverjir fá gjaldeyri til þess að ferðast til útlanda. Það er ýmislegt hægt að gera. En það er sem sagt spurningin: Hvað á að ganga langt í því að Fylgjast með högum hvers einasta einstaklings í þessu þjóðfélagi? Það eru takmörk fyrir því, jafnvel þótt við gætum fengið stórbætt skattaeftirlit með því, sem er ekki nokkur vafi.

Menn mega ekki skilja þetta svo, að ég sé að mæla á móti skattaeftirliti. Ég hef oft áður hér á Alþ. lagt á það áherslu að bæta framkvæmd skattamála og bent á, að það væri mönnum betra að Leggja meiri áherslu á það en vera alla tíð að breyta löggjöf um skattamál. Hins vegar verðum við að hafa það í huga varðandi þessi mál eins og önnur, að það eru vissulega takmörk fyrir því, hvað við gætum gengið langt í þessum efnum.