05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

89. mál, Vesturlína

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess að upphefja hér umr. efnislega um þá fyrirspurn sem ég bar fram og miklar umr. hafa verið um. Ég vil aðeins í tilefni af orðum hæstv. iðnrh. láta það enn á ný koma skýrt fram, að það var ákvörðun fyrrv. ríkisstj. að ljúka Vesturlínu fyrir árslok 1979. Það hefur verið með skýrum rökum bent á það og sýnt fram á að fyrrv. ríkisstj. var alvara í þessu. Og það var ekkert sem þurfti annað en halda þeirri ákvörðun fram og gera það sem nauðsynlegt var um þær mundir sem núv. ríkisstj. tók við völdum.

Það var aðeins ein leiðrétting sem ég vildi koma fram með í tilefni af ummælum hv. 6. þm. Suðurl. Hann sagði að það hefði komið í ljós, að Orkubú Vestfjarða seldi orku ódýrar en Rafmagnsveitur ríkisins. Mátti skilja það á honum, að af þeim ástæðum hefði verið varhugavert, ef ekki rangt að láta Orkubú Vestfjarða hafa hluta af verðjöfnunargjaldinu. Í þessu sambandi vitnaði hv. þm. í grg. með till. sem Kjartan Ólafsson o.fl. hafa flutt, þar sem eru upplýsingar um taxta yfir heimilisnotkun rafveitna. Auðvitað sagði hv. þm. alveg rétt þegar hann tók fram að samkv. þessum taxta er verð Orkubús Vestfjarða um 3 kr. lægra en verð Rafmagnsveitna ríkisins. En í þessu sama þskj. er annar taxti sem hv. þm. þagði um, þ.e. fyrir vélar, og samkv. honum er taxti Orkubús Vestfjarða milli 3 og 4 kr. hærri en taxti Rafmagnsveitna ríkisins. Auk þess eru tveir aðrir taxtar sem um er að ræða. Annar er fyrir daghitun, og þar er taxti Orkubús Vestfjarða 8 aurum lægri á hverja kwst. Og svo er það taxtinn fyrir næturhitun, og þar er taxti Orkubús Vestfjarða rúmri einni krónu hærri á hverja kwst. Ég vil aðeins láta það koma fram, að það er alveg öruggt, að þegar tekið er meðaltal af þessu er orkuverð Orkubús Vestfjarða ekki lægra en Rafmagnsveitna ríkisins. Orkubúið hefur ekki ráð á slíku. Auk þess vil ég láta það koma fram, að þeir taxtar, sem ég hér vitna í, eru hvað Orkubúið snertir frá 22. sept. s.l., en hvað Rafmagnsveitu ríkisins snertir frá 10. ágúst eða um einum og hálfum mánuði eldri.

Það var ekkert annað, herra forseti, en þetta sem ég vildi að hér kæmi fram. Ég vil ekkert efast um það, að núv. ríkisstj. haldi við það sem nú er í lögum, að Orkubú Vestfjarða fái sinn hluta af verðjöfnunargjaldinu. Ég hef skilið hæstv. iðnrh. á þann veg og ég hef skilið hæstv. fjmrh. á þann veg í orðaskiptum sem urðu milli okkar um þetta efni við 1. umr. fjárlaga.