05.12.1978
Sameinað þing: 30. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

98. mál, raungildi olíustyrks

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. viðskrh. skýr og ljós svör. Ég held að öllum hafi orðið ljóst af þeim tölum, sem hér voru raktar mjög ítarlega, hver þróun þessa styrks hefur verið á undanförnum árum, og ég ætla ekki að fara að rekja í fsp.-tíma, hvernig með hefur verið farið. Þetta söluskattsstig var fyrst lagt á í fullu samráði við verkalýðshreyfinguna til þessa sérstaka verkefnis og til þessa verkefnis eins. Síðan voru tekjur af þessu söluskattsstigi færðar að hluta til Orkusjóðs, til tiltekinna verkefna sem höfðu vissulega réttlætingu nokkra. Síðan fór þetta alfarið inn í almenna skattheimtu til ríkisins, og samkv. fjárlagafrv. nú er hér aðeins um að ræða 1/5 hluta þess sem eitt söluskattsstig gefur af sér.

Það er sem sagt augljóst, að þessi saga hefur verið samfellt á niðurleið varðandi þennan styrk. Hann hefur sífellt verið að rýrna að verðgildi eða raungildi.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. viðskrh. um það, að ríkisstj. skuli hafa tekið þetta verkefni sérstaklega fyrir og ætli sér að gera þarna á nokkra bragarbót, því á því er full þörf, ekki síst í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu hjá hæstv. viðskrh. um hina miklu olíuverðshækkun sem þegar er orðin og á enn eftir að verða. Síðan eiga auðvitað fjvn. og Alþ. síðasta orðið hér um, e.t.v. enn frekar en næst samkomulag um í hæstv. ríkisstj. En hér þarf að vera viðbúið bæði að færa nokkuð til leiðréttingar og eins að mæta þeirri hækkun sem þegar er orðin og jafna þannig þann mismun sem skapast hefur og kom glögglega fram í máli hæstv. ráðh. að ekki þarf framar um að deila.