19.10.1978
Sameinað þing: 5. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar ný ríkisstj. flytur Alþingisboðskap sinn setja atburðir líðandi stundar oftast svo sterkan svip á slík þáttaskil, að yfirsýn yfir hina sögulegu framvindu víkur fyrir glímunni við hinn daglega vanda. Þótt umr. hér í kvöld gefi ærið tilefni til að rifja upp hvernig launafólkið í landinu kallaði á myndun núv. ríkisstj. til að spyrna gegn þeirri efnahagslegu holskeflu sem íhaldsöflin höfðu skapað, holskeflu óðaverðbólgu, algerrar stöðvunar grundvallaratvinnuvega, erlendrar skuldasöfnunar sem ógnaði efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og hatrammra, langvarandi átaka ríkisvalds og verkalýðshreyfingar, — þótt umfjöllun um þá holskeflu sé freistandi, einkum vegna kokhreystinnar í strandkafteininum Geir Hallgrímssyni og skipsfélaga hans sem hér töluðu fyrr í kvöld, þá ætla ég við lok þessara umr. að skoða fyrstu göngu núv. ríkisstj. frá öðru sjónarhorni. Í önn dagsins verða lærdómar sögunnar oft dauður bókstafur og markmið framtíðarinnar óljósar hillingar. Við skulum því í kvöld staldra við um stund, líta yfir baráttuferil alþýðunnar og árétta þau verkefni sem móta skulu framtíðina. Þótt núv. ríkisstj. verði vissulega frá degi til dags, frá viku til viku miskunnarlaust dæmd af verkum sínum, þá verður íslenskt launafólk, verkalýðshreyfingin og forystuflokkur hennar, Alþb., ávallt að taka mið af hinu sögulega hlutverki sínu.

Í upphafi þessarar aldar var íslensk alþýða án allra lýðræðislegra réttinda, án kosningarréttar og kjörgengis. Fyrstu félög verkamanna og sjómanna voru svo veikburða að sum þeirra dóu innan tíðar. Forréttindastétt embættisaðals og kaupmanna hafði stjórn landsins alfarið í sínum höndum. Hugsjónir um jafnrétti og afnám kúgunar, draumar alþýðunnar um útrýmingu arðráns og sköpun skilyrða fyrir félagslegri velferð, almennri menntun og víðtækum lýðréttindum, — slíkar vonir blunduðu aðeins í brjóstum fáeinna manna. Þær höfðu ekki eignast skipulögð baráttutæki, fjöldahreyfingu sem byðu forréttindaöflunum byrginn.

Átta áratugir eru skammur tími í sögu þjóðar. Samt geyma annálar þessarar aldar rismiklar frásagnir af sókn alþýðunnar til sigurs: Baráttan fyrir almennum kosningarrétti allra án tillits til fjárhags eða eigna. Baráttan fyrir rétti verkalýðsfélaganna til samninga um kaup og kjör og aðstöðuna til að fylgja þeim rétti eftir með árangursríkum verkföllum. Baráttan fyrir skólagöngu allra barna. Baráttan fyrir félagslegri velferð, tryggingum, heilsugæslu, öryggi og forsjá barna og aldraðra, sjúkra og öryrkja. Baráttan fyrir alhliða menningarstarfsemi og tækifærum allra til listsköpunar og sjálfstjáningar. Baráttan fyrir víðtæku lýðræði, ekki aðeins í kosningum, heldur líka í félagssamtökum, á vinnustað og í skólum. Baráttan fyrir raunverulegu frelsi allra einstaklinga án fjötra arðráns og fórna hinnar hatrömmu samkeppni blindrar gróðasöfnunar. Baráttan fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar gegn erlendri hersetu og stóriðjuverum útlendinga. Baráttan fyrir verndun íslenskra náttúru og varðveislu auðlinda, útfærslu landhelginnar og þróun atvinnulífs á félagslegum grundvelli, sem ein veitir Íslendingum þá efnahagslegu líftryggingu sem er bakhjari raunverulegs stjórnfarslegs sjálfstæðis þjóðarinnar. Öll þessi víðtæka barátta hefur á liðnum árum og áratugum því aðeins reynst sigursæl, að samtök launafólksins í landinu, verkalýðshreyfingin og forustuflokkur hennar hafi hönd í hönd sem órofa heild boðið byrginn íhaldöflum og auðstétt þessa lands. Skref fyrir skref, spildu fyrir spildu hefur alþýða Íslands haslað sér völl þar sem áður var veldi ótal Bogesena hins íslenska íhalds.

Á síðustu fjórum árum sórust Sjálfstfl. og Framsfl. í fóstbræðralag forréttindaafla og skáru upp herör gegn alþýðu landsins. Sú saga er enn í fersku minni og íslenskt launafólk mun vegna dýrkeyptrar reynslu geyma hana um ókomna tíð. Í kjölfar stórfelldrar kjaraskerðingar ákváðu ráðh. íhalds og Framsóknar í upphafi þessa árs að brjóta á bak aftur samtakamátt verkalýðsins, beita einhliða lagaboði gegn helgasta rétti launafólksins. Yrði sú atlaga sigursæl skyldi áfram haldið til að eyðileggja þann árangur sem áratugabarátta hefði skilað íslenskri atþýðu á sviði félagslegrar velferðar og víðtækra lýðréttinda.

En stéttvísi og djúpur sögulegur skilningur gerðu verkalýðshreyfingunni kleift að búast skjótt til varnar.

Með ötulu liðsinni Alþb. á hinum pólitíska vettvangi, á Atþingi og utan þess, sneru ASÍ og BSRB vörn í sókn. Verkfallið 1. og 2. mars og útflutningsbann Verkamannasambandsins voru ásamt sigrum Alþb. í sveitarstjórnarkosningunum sú tangarsókn sem splundraði herferð íhalds og Framsóknar gegn íslenskri alþýðu, samtökum hennar og grundvallarréttindum.

Það er vissulega verðugt umhugsunarefni fyrir hólkór Alþfl., sem nú situr hér í þingsölum, en gekk til vinnu sinnar verkfallsdagana 1. og 2. mars, að þá stóðu þeir með tilræðismönnunum, en gegn launafóli. Það sama verkfall og þeir neituðu að styðja varð upphaf að þeirri atburðarás sem í ágústlok skóp ríkisstj. launafólksins. Og reyndar ættu allir þeir, sem ásamt forsöngvurunum í hólkór Alþfl. hlupust undan merkjum verkfallsdagana 1. og 2. mars, að hugleiða hvaða árangri barátta stéttvísasta hluta launafólksins í ASÍ og BSRB hefur skilað öllu íslensku launafólki.

Í kjölfar kosningaósigursins, eftir að atlagan að samtökum launafólks hafði gert Framsfl. að minnsta stjórnmálaflokkinum á Íslandi, dró Framsóknarforustan lærdóm af dýrkeyptri reynslu. Ólafur Jóhannesson lauk myndun ríkisstj. sem Lúðvík Jósepsson hafði lagt grundvöllinn að með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna. Því ber vissulega að fagna, að stefnuræða forsrh. hér í kvöld ber með sér að Framsóknarforustan virðist a.m.k. í bili hafa lært sína lexíu. Hann segist nú staðráðinn í að virða á virkan hátt samráð við hreyfingar launafólks og gera það að raunverulegum hornsteini ríkisstj. Þótt ýmsir telji að í flokki forsrh. séu enn menn sem vilji hefna sín á verkalýðshreyfingunni og króa hana af, þá skulum við vona að sú óheilindakenning reynist ekki rétt.

Málflutningur Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsens hér í kvöld ber það hins vegar glöggt með sér, að Sjálfstfl. hefur ekkert lært. Þeir dýru eiðar, sem Geir Hallgrímsson sór í Washington lagsbræðrum sínum í Bilderbergreglu hins alþjóðlega auðvalds kvöldið sem alþýðan tók stjórn Reykjavíkur í sínar hendur, eru greinilega enn í fullu gildi. Óöld og mannvíg í flokksherbergjum Sjálfstfl. munu líklega á næstu missirum hindra að þessir herramenn átti sig á því, hvað hefur í raun og veru gerst í íslensku þjóðfélagi. Að Íslensk alþýða hefur skapað sér nýja fótfestu í stjórnkerfi landsins.

Alþb. er nú næststærsti flokkur þjóðarinnar, forustuaflið í samtökum launafólks, burðarásinn í ríkisstj. sem formaður flokksins lagði grundvöllinn að, ábyrgt fyrir stjórn fjölmennustu bæjarfélaganna í landinu og fjölda sveitarstjórna um allt land.

Slík þáttaskil skapa flokki okkar margvísleg verkefni og fjölþættan vanda. Við skulum minnast þess, að sigrar síðustu mánaða í baráttunni við ríkisstj. auðstéttarinnar voru aðeins varnarsigrar. Enn er vígstaða lagsbræðra íhalds og erlendrar ásælni ótrúlega sterk í okkar landi. Samtök atvinnurekenda, leyniregla herstöðvasinna í hinum flokkunum þremur og fjandsamlegt embættiskerfi mynda enn öfluga víggirðingu gegn afgerandi þjóðfélagslegri umsköpun. Barátta Alþb. og verkalýðshreyfingarinnar er því aldrei brýnni en nú. Önn dagsins kallar á öfluga vöku. Þjóðfélag jafnréttis og samhjálpar, víðtæks lýðræðis og raunverulegs frelsis til eflingar manngildis, en ekki auðsöfnunar, eru enn langt undan. Fjötrar erlendrar ásælni, hervalds og fjármagns hindra enn í mörgu sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar. Baráttan fyrir sjálfstæðu íslensku samfélagi, þar sem lifandi lýðræði blómstrar á öllum sviðum og arðrán manns á manni leggur ekki lengur steina í götu raunverulegs frelsis allra til að lifa lífinu í samræmi við drauma sína og getu, — sú barátta mun enn standa langa hríð.

Atburðarás sumarsins sneri vörn í sókn alþýðunni til heilla. Nú er það verkefni okkar allra á Alþ. og í sveitarstjórnum, í verkalýðshreyfingunni og öðrum fjöldasamtökum að fylgja sókninni eftir. Ef það tekst mun þessi ríkisstj. marka stærri þáttaskil en flesta hefur grunað. — Góða nótt.