06.12.1978
Neðri deild: 27. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

115. mál, Ríkisendurskoðun

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni að flytja frv. til l, um Ríkisendurskoðun, eftirlit og aðhald í ríkisbúskapnum. Frv. samhljóða þessu var flutt af mér á 99. löggjafarþingi, en hlaut ekki afgreiðslu á því þingi. Ég hef því leyft mér ásamt hv. þm. Ingvari Gíslasyni að endurflytja þetta mál.

Upphaf þessa máls er það, að við afgreiðslu á ríkisreikningi á árinu 1975 vakti ég athygli á því, að hér á Alþ. fylgdu mjög litlar umr. og litlar skýringar ríkisreikningi.

Ég gat þess þá, að mér þætti eðlilegt að hér yrði breyting á, þ.e.a.s. að Alþ. fengi meiri skýringar og gleggri upplýsingar um hina raunverulegu framkvæmd fjárlaga.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar umræður í þjóðfélaginu um ríkisreksturinn almennt, hvernig honum skuli háttað og hvernig skuli standa að lagfæringum á því sviði, hvernig skuli standa að eftirliti og aðhaldi. Það hefur verið mikil útþensla í öllum ríkisrekstrinum. Hið opinbera hefur fengið aukin verkefni og stærri og stærri hluti af þjóðartekjum okkar fer til opinberra þarfa og sameiginlegra þarfa. Þegar slíkur vöxtur á sér stað er mjög hætt við því, að það eigi sér stað sóun á fjármagni, afköst verði lítil á hinum ýmsum stöðum í ríkiskerfinu og nýting fjármagnsins ekki sem skyldi. Þess vegna er ljóst, sérstaklega þegar ekki er hægt að auka hina opinberu starfsemi og samneyslu óendanlega, eins og öllum í þjóðfélaginu er væntanlega ljóst, að það er mjög mikils um hvert að það fjármagn og þeir fjármunir, sem er eytt til sameiginlegra þarfa, sé skynsamlega nýtt og vel í þágu þjóðarheildar. Ég hef eins og sjálfsagt fleiri sannfæringu fyrir því, að það er orðið verulegt vandamál hversu afköst eru lítil víða í hinu opinbera kerfi, og þegar afköstin minnka hefur maður það oft á tilfinningunni, að úr því sé bætt með því að fjölga fólki. Þessi aðferð verður náttúrlega til þess, að þjóðartekjunum er spillt, og þessi aðferð getur ekki gengið til lengdar í framleiðslustarfseminni í þjóðfélaginu. Það er t.d. ekki hægt að leysa málið á þennan hátt á við skulum segja togara eða fiskibáti. Ef afköst eins eru minni en æskilegt er, þá kemur það niður á öðrum. En það er ósköp hætt við því viða í hinu opinbera kerfi, að minnkandi afköst ákveðinna starfsmanna komi ekki niður á öðrum starfsmönnum, heldur verði til þess að starfsmönnum sé fjölgað.

Í þessum umr. um ríkisstarfsemina hefur ýmislegt borið á góma. Margir hafa viljað ráðast að þessari meinsemd, þ.e.a.s. aukinni hlutdeild samneyslunnar í þjóðartekjum, með því að leggja ýmiss konar starfsemi niður og skera þar algerlega á. Menn hafa einnig talað um að rétt væri að skylda þn. til þess að ganga í alls konar rannsóknir á ýmsum sviðum í ríkiskerfinu og einnig að ganga svo langt að þn. fari út í rannsóknarstarfsemi á fyrirtækjum í landinu og yfirleitt allri starfsemi þjóðfélagsins. Allt þetta er út af fyrir sig innantómt, hvaða skoðun sem menn annars kunna að hafa á því, ef Alþ. hefur ekki neina stofnun og aðstöðu til þess að fylgjast með á sviði ríkisrekstrarins. Allir eru sammála um að eftirlit þurfi að auka, en aðalvandamálið er, hvernig þetta skuli gert og hvernig á því skuli haldið.

Að mínum dómi þarf Alþ. að eiga hér frumkvæðið, axla ábyrgðina af þessu eftirliti og því aðhaldi sem er í ríkisrekstrinum, gagnrýna og leiðbeina og vísa veginn í stað þess, sem oft vill verða, að Alþ. sé áhorfandi sem gefur heimildir, samþ, fjárframlög án þess að fá fullnægjandi skýrslur um ráðstöfun og nytsemi þessa fjármagns. Það er skoðun mín, að Ríkisendurskoðun skuli vera tæki Alþ. í þessu eftirlits- og aðhaldshlutverki þingsins.

Ég sé ekki út af fyrir sig ástæðu til þess að gera grein fyrir þessu frv. í mjög löngu máli, því fylgir löng grg. og skýringar með einstökum greinum, en ég ætla þó að nokkru að gera grein fyrir aðalefni þess.

Það er fyrir í þjóðfélaginu stofnun sem heitir Ríkisendurskoðun. Þannig er ekki um það að ræða hér, að sett verði upp ný stofnun. Hlutverk þessarar stofnunar, þ.e.a.s. Ríkisendurskoðunar, er ákveðið í reglugerð frá 31. des. 1969. Það er: 1. Endurskoðun reikningsskila embætta, ríkisstofnana og sjóða í vörslu ríkisins. 2. Umsjón og eftirlit með endurskoðun á reikningsskilum ríkisstofnana, en endurskoðendur þeirra eru skipaðir eða kosnir samkv. sérstökum lögum. 3. Eftirlit með opinberum sjóðum samkv. lögum nr. 20/1964. 4. Eftirlit með rekstri ríkisstofnana lögum samkv., sbr. Il. kafla laga nr. 61/1931 og 82. gr. laga nr. 52/1966.

Þessi stofnun er hin ágætasta, vinnur mjög þarft verk og hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Hins vegar er ekki til heildarlöggjöf um starfsemi hennar. Það hafa orðið miklar breytingar á reikningsskilum, upplýsingakerfum og öðru þess háttar. Það hafa orðið byltingakenndar breytingar, sem einar kalla á lagasetningu um þessa stofnun, og í öðru lagi lýtur stofnunin fjmrn. og fjmrh. Það er einn aðaltilgangur þessa frv. að breyta þessu fyrirkomulagi og setja þessa stofnun undir stjórn Alþingis. Þess vegna er gert ráð fyrir því í 1. gr. frv., að Ríkisendurskoðun verði stofnun Alþingis sem framkvæmi endurskoðun, eftirlit og aðhald í ríkisbúskapnum í umboði Alþingis. Stofnunin skal því vera óháð ríkisstj., rn. og öðrum stofnunum sem eru háðar eftirliti Ríkisendurskoðunar samkv. þessu frv.

Út af fyrir sig má vel hugsa sér að koma þessu fyrir á mismunandi hátt og með mismunandi móti. Í öðrum löndum er það svo, að yfirleitt er, a.m.k. í hinum vestræna heimi, til stofnun sem ber nafnið „Ríkisendurskoðun“ eða eitthvert nafn í líkingu við það. Sums staðar lýtur þessi stofnun framkvæmdavaldinu, eins og er hér á landi. Sums staðar heyrir þessi stofnun beint undir þjóðþing viðkomandi landa eða starfar sem dómstóll, eins og t.d. í Vestur-Þýskalandi, Sviss og Frakklandi. En í þessu frv. er lagt til að stofnunin verði stofnun Alþingis og þjóni Alþingi, svo sem einnig þekkist í öðrum löndum, t.d. í Noregi og Kanada.

Í framhaldi af þessu er lagt til í 2. gr. að stjórn Ríkisendurskoðunar verði skipuð sex mönnum, sem skulu að jafnaði vera alþm. sem eiga sæti í fjvn. og fjárhagsnefndum Alþingis. Formaður stjórnarinnar skal vera ríkisendurskoðandi, sem þessi stjórn skipar.

Ég skal fúslega játa að þessi grein hefur verið mér allmikið vandamál. Út af fyrir sig hef ég enga sannfæringu fyrir því, að það sé rétt skipan mála að stjórnin skuli þannig skipuð. Það er í mínum huga ekkert aðalatriði að stjórn þessarar stofnunar verði skipuð alþm. Hins vegar er það í mínum huga aðalatriði, að tengsl stofnunarinnar við Alþ. verði sem best og mest og tryggt sé að Alþ. geti haft mjög gott samband við þessa stofnun sem heyrir beint undir þingið. Ég skal því gjarnan sætta mig við aðra skipan þessara mála, t.d. þá að Alþ. kjósi þessa stjórn án þess að það verði skilyrði að þm. séu í henni.

Í framhaldi af þessu varð það niðurstaða mín, að ekki væri eðlilegt að ætlast til þess, að alþm. yrði formaður stjórnar í svo mikilli og stórri stofnun. Þess vegna er lagt til að ríkisendurskoðandi sjálfur verði formaður stjórnarinnar, sem er nokkuð óvenjulegt, og gæti einnig komið til athugunar að breyta því. Þessi meðferð mála er einnig í Noregi, þ.e.a.s. ríkisendurskoðun heyrir undir þjóðþingið, en þar kýs þjóðþingið fimm ríkisendurskoðendur — mig minnir þeir séu fimm frekar en fjórir — sem eru jafnframt stjórnendur þessarar stofnunar og vinna í þeirri stofnun að miklu leyti. Gæti því verið athugunarefni að leita eftir reynslu þeirra á þm sviði.

Það hefur verið sú þróun á undanförnum árum, að menn hafa viljað mæta því vandamáli, ef vandamál skal kalla, að Alþ. fái betur fylgst með hinum ýmsu sviðum í ríkisrekstrinum og ríkisstofnunum, með því að Alþ. kjósi stjórn þessara stofnana. Ég er þeirrar skoðunar, að við höfum verið á rangri braut hvað þetta snertir, t.d. vegna þess að þessi skipan mála treystir á engan hátt böndin og samskiptin milli þingsins og þessara stofnana og tryggir á engan hátt eftirlit og aðhald þingsins með þessum stofnunum. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að Alþ. eigi fyrst og fremst að efla eftirlits- og aðhaldshlutverk sitt með því að koma sér upp stofnun sem geti sinnt því verkefni, en Alþ. eigi ekki að leggja á það megináherslu að ráða því, hvaða menn stjórni viðkomandi stofnunum, eins og þróunin hefur verið á undanförnum árum. Þess vegna vil ég leggja á þá áherslu, að ég vil með þessu frv. opna leið til þess að komast út úr þeim vítahring sem smátt og smátt verður óþolandi ef Alþ. á meira og minna að stjórna beint öllum stofnunum þjóðfélagsins. Ég held að það sé röng leið. Hins vegar er nauðsynlegt að þingið hafi sem best eftirlit með því, að þessum stofnunum sé vel stjórnað. Alþ. setur þessum stofnunum lög, ákveður hvaða fjármagn þessar stofnanir og ríkisreksturinn almennt skuli fá til umráða. Þess vegna er eðlilegt að Alþ. fylgist með því, á hvern hátt þetta er gert og hvort það sé í samræmi við vilja þingsins og þau lög sem Alþ. setur, en Alþ. hafi ekki beinlínis hönd beint í bagga með stjórn viðkomandi stofnana, það sé hlutverk framkvæmdavaldsins.

Það er einnig mikilvægt hvað skuli endurskoða og hverju þessi stofnun, þ.e. Ríkisendurskoðun, skuli hafa eftirlit með. Það kemur fram í 6. gr. frv., að stofnunin skuli setja sér starfsáætlun fyrir eitt ár í senn, þar sem komi fram í meginatriðum að hvaða verkefnum skuli unnið og á hvern hátt. Það er út af fyrir sig ekki hægt að ganga frá slíkri starfsáætlun í einstökum atriðum, en í þessu sambandi bendi ég á grg. þar sem fjallað er í nokkuð ítarlegu máli um ríkisendurskoðun í Svíþjóð, þar sem er lýst tilhögun þess, hvernig þar er unnið að slíkri starfsáætlun og hvernig innihald hennar gæti verið.

Það kemur einnig fram í 10. gr., að endurskoðun samkv. frv. skuli ná til:

a) ríkisreiknings;

b) stofnana, sjóða og annarra þar sem kostnaður eða reikningslegt tap er greitt af ríkissjóði samkv. fjárlögum eða öðrum tekjum samkv. sérstökum lögum;

c) fyrirtækja eða stofnana, sem rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á meiri hluta í, þar með talin ríkisbankar og hlutafélög;

d) reikningsskila Alþingis.

Þetta mundi hafa það í för með sér, að þessi stofnun yfirtæki endurskoðun bankanna og hlutafélaga sem ríkissjóður á meiri hluta í, t.d. Járnblendifélagsins, Áburðarverksmiðjunnar og Sementsverksmiðjunnar. Hér er því um að ræða víðtæka endurskoðun á öllu, sem lýtur að ríkisreikningi, eða öllum stofnunum, sem reknar eru á ábyrgð ríkissjóðs, og einnig hlutafélögunum sem ég gat um. Þessi endurskoðun á sér stað að meira eða minna leyti í dag. Þó er hún á engan hátt alltaf fullnægjandi, eins og komi hefur í ljós á síðustu árum m.a. í bankakerfinu. Með þessu er stefnt að því, að eftirlitið og endurskoðunin sé sem mest á einni hendi. Hins vegar er heimilt samkv. lögum að ríkisendurskoðandi fái aðra utanaðkomandi aðila til að sinna þessu starfi, a.m.k. til að byrja með, þannig að hér þyrfti því ekki að verða um algjöra stökkbreytingu að ræða. Þeir aðilar, sem hafa sinnt slíku starfi, gætu sinnt því í umboði Ríkisendurskoðunar.

Í 11. gr. kemur fram, að þeir aðilar, sem þessi endurskoðun nær til, skuli hafa náið samráð við Ríkisendurskoðun í sambandi við bókhaldskerfi, innra eftirlit og rekstur innri endurskoðunardeilda. Ríkisendurskoðunin skal leggja mat á innra eftirlit, rekstur endurskoðunardeilda og ákveða endurskoðunaraðferðir í samræmi við það mat.

Mér er ljóst að í mörgum stofnunum er innri endurskoðun og eftirlit, en hins vegar er þetta eftirlit oft engan veginn fullnægjandi. Ég tel því nauðsynlegt að Ríkisendurskoðunin hafi hönd í bagga með slíkri starfsemi, stofnunin fái með ákveðnum hætti upplýsingar um slík kerfi og breytingar á þeim, svo hægt sé að fylgjast reglubundið með öryggi þeirra sem grundvelli fyrir endurskoðunaraðgerðum og aðferðum, ásamt mati á starfseminni almennt. Hins vegar er ljóst, að það er fyrst og fremst hlutverk viðkomandi rn. og stofnana að koma á því stjórnunarlega eftirliti, sem talið er nauðsynlegt og fjárhagslega verjandi í hverju tilfelli.

Í 12. gr. kemur fram á hvern hátt þessi endurskoðun skuli fyrst og fremst framkvæmd. Gert er ráð fyrir því, að endurskoðunin skuli beinast að því fyrst og fremst, hvort reikningsskil gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við góðar venjur, í öðru lagi, hvort þeir gerningar og starfsemi, sem þessi reikningsskil fjalla um, séu í samræmi við heimildir fjárlaga, annarra laga, fyrirmæla og almennar starfsvenjur, — við höfum oft rekist á að undanförnu að slíkt er ekki alltaf í heiðri haft, — og í þriðja lagi, sem er út af fyrir sig hvað mikilvægast og mikilvægasta breytingin sem þarna mundi geta orðið, að stofnuninni yrði gert skylt að leggja á það mat, hvort nauðsynleg fjárhagsleg og rekstrarhagfræðileg sjónarmið eru í heiðri höfð við ráðstöfun fjármagns og rekstur þeirra fyrirtækja og stofnana, sem reikningsskilin ná yfir. Að öðru leyti skal endurskoðunin framkvæmd samkv. góðri endurskoðunarvenju á hverjum tíma. Hér er um nýmæli að ræða og með þessu er lögð áhersla á að það sé hlutverk Ríkisendurskoðunar að auka hagkvæmni og árangur í ríkiskerfinu. Það er að vísu grundvallarskylda hvers rn. og stjórnsýslustofnunar að halda uppi hagkvæmu og virku stýrikerfi, en reikningsskilin þurfa, svo vel eigi að vera, að veita upplýsingar um þau afköst og þann árangur sem tengjast þessum útgjöldum.

Ég gat þess hér í upphafi, að lítil afköst í ríkiskerfinu á mörgum sviðum og léleg nýting fjármagns væru orðin verulegt vandamál í þjóðfélaginu. Þess vegna er miklu nauðsynlegra en áður að notuð séu reikningsskilakerfi þar sem veittar séu upplýsingar um þau afköst og þann árangur sem tengjast þessum útgjöldum. Ég vil í þessu sambandi benda á til glöggvunar, og það kemur einnig fram í grg. með frv. þegar fjallað er um ríkisendurskoðun í Bandaríkjunum, að það var strax á árinu 1966, þegar ríkisstjórn Bandaríkjanna þá, sem oft hefur komið fyrir síðan, beitti sér fyrir kostnaðarlækkunaraðgerðum í því landi, setti upp kerfi sem reynst hefur, eftir því sem ég best veit, mjög vel, — kerfi sem átti að mæla framleiðni og skilvirkni í hinu opinbera kerfi. Þetta hefur einnig verið tekið upp og gert í allstórum stíl hjá sænsku ríkisendurskoðuninni. Slík starfsemi er viðhöfð í nokkrum löndum, og af því má mikið læra að mínum dómi. Er því nauðsynlegt fyrir Alþ. að fylgjast með rekstri þessara stofnana og ríkissjóðs yfirleitt. Það er þess vegna að mínum dómi alls ekki að ástæðulausu, að nauðsynlegt sé að slíkt eftirlit og slík kerfi séu tekin upp í ríkari mæli en nú er. Ég vil í því sambandi vísa til þess, sem segir í grg. um þau frávik sem hafa orðið á undanförnum árum milli fjárlaga annars vegar og ríkisreiknings hins vegar. Þessi frávik eru mjög mikil. Ég vænti þess og ég veit að þessi frávik eiga sér eðlilegar skýringar í ýmsum tilfellum. Hins vegar hefur Alþ. alls ekki fengið nægilegar skýringar á þessum frávikum. Þingið eyðir hér næstum því öllu haustinu á hverju ári í það að ræða hvernig fjárlagafrv. skuli úr garði gert. Síðan kemur ríkisreikningurinn með gífurlegum frávikum, kannske 10%. En það fer enginn tími af starfstíma Alþ. til að ræða þetta plagg, sem er árangurinn sem kemur í ljós af þeim fjárlögum sem Alþ. samþ. Ég þarf út af fyrir sig ekki að fjölyrða um það.

Gert er ráð fyrir því í þessu frv., að auk þeirrar endurskoðunar, sem ég hef áður getið um, geti Ríkisendurskoðun með aðstoð viðkomandi rn., ef nauðsynlegt r talið, krafist þess að fá reikningsskil frá stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum sem taka á móti fjármagni, t.d. styrkjum, tekjum samkv. sérstökum lögum, svo og reikningsskil þeirra aðila sem njóta ríkisábyrgðar eða annars stuðnings frá ríkissjóði. Ekki er gert ráð fyrir því, að Ríkisendurskoðun endurskoði beint reikninga þessara aðila, en geti ávallt krafist þess að fá þá.

Við vitum að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginn frá styrki og stuðning frá ríkinu, ríkisábyrgð og annan stuðning, t.d. í formi lána. Nauðsynlegt er að þessi stofnun hafi ótvírætt vald til þess að fá þessa reikninga, til þess að 1 jóst sé að þessar fjárhæðir hafi verið notaðar — í samræmi við upphaflegan tilgang.

Í 14. gr. frv. kemur einnig fram að Ríkisendurskoðun skuli hafa heimild til að rannsaka þann hluta reikninga sveitarfélaga sem varðar starfsemi sem er greidd eða rekin af ríkissjóði og sveitarfélagi í sameiningu. Allir vita að þetta er gert á mörgum sviðum og sveitarfélögin taka við verulegu fjármagni í þessu skyni. Þess vegna er ljóst, að það verður að vera til heimild fyrir þessa stofnun að ganga úr skugga um það með einhverju móti að þessum fjármunum sé ráðstafað í samræmi við upphaflegan tilgang, ef menn sjá ástæðu til.

Í 15. gr. er síðan skilgreint að hverju endurskoðunin skuli miða. Hún skal fyrst og fremst miða að því, að reikningsskil séu endurskoðuð á fullnægjandi hátt, að skilyrði fyrir móttöku fjármuna séu uppfyllt og fjármunir notaðir í samræmi við ákvæði laga og annarra fyrirmæla. Í því sambandi, eins og ég hef áður getið, er mikilvægt að tryggt sé að slíkur stuðningur, sem ákveðinn er með fjárlögum, og það fjármagn, sem þar er ráðstafað, sé notað á réttan hátt.

Ég vil aðeins víkja að því, hvernig gert er ráð fyrir að Ríkisendurskoðun komi fram gagnvart Alþ., ef svo má segja, þ.e.a.s. skili af sér til Alþingis. Í 21. gr. kemur fram, að stofnunin skuli leggja fyrir Alþ. endurskoðunarskýrslu með A- og B-hluta ríkisreiknings, þar sem fram kemur álit Ríkisendurskoðunar á reikningsskilunum og viðkomandi starfsemi í samræmi við 12. gr., eins og ég hef áður getið. Þá er gert ráð fyrir því, að þegar umræða fer fram um ríkisreikninginn liggi þessi skýrsla til grundvallar þeirri umræðu, þannig að Alþ. geti metið á hvern hátt framkvæmdavaldið hafi staðið að notkun og nýtingu þeirra fjármuna sem því hafa verið fengnir í hendur með samþykki Alþingis.

Þá skal Ríkisendurskoðunin einnig leggja fyrir Alþ. endurskoðunarskýrslu varðandi aðra starfsemi, sem skylt er að endurskoða samkv. þessum lögum. Hér er um að ræða reikninga fyrirtækja og stofnana, sem ekki koma beinlínis til afgreiðslu Alþingis. Hins vegar er nauðsynlegt, að Alþ. geti fylgst með starfsemi þessara stofnana og nýtingu þess fjármagns, og því er eðlilegt að Ríkisendurskoðun leggi skýrslu um þau mál fyrir Alþingi.

Þá er einnig gert ráð fyrir því, að þessi stofnun geti verið og skuli vera fjvn. Alþ. til ráðuneytis við ráðstöfun fjárveitinga, eftir því sem nauðsynlegt er talið að dómi fjvn. Mér er það alveg ljóst, að fjárlaga- og hagsýslustofnun veitir mikilvæga aðstoð í sambandi við undirbúning og afgreiðslu fjárlaga. Hins vegar ætti það að vera í jóst, að stofnun eins og Ríkisendurskoðun fylgist og á að fylgjast vel með allri starfsemi á vegum ríkisins og þess vegna hlýtur hún að búa yfir mikilli þekkingu um þessa starfsemi. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að nýta þessa þekkingu í þágu fjvn. og þess starfs sem þar er unnið í sambandi við ákvörðunartöku um fjarveitingar. Þetta fer að sjálfsögðu eftir vilja n., en það kemur fram í 16. gr. frv. að þetta skuli vera hlutverk stofnunarinnar.

Ég vil að síðustu fara um það örfáum orðum í samandregnu máli, hver er aðaltilgangur þessa frv., til viðbótar því sem kemur fram í grg.

Í fyrsta lagi miðar þetta frv. að því að auka eftirlits- og aðhaldshlutverk Alþingis yfir stofnunum ríkisins og meðferð fjármuna í ríkiskerfinu og þar með að auka ábyrgð Alþingis. Ég tel að slíkt muni verða til þess að auka virðingu Alþingis í þjóðfélaginn. Þess vegna vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. þm., sem hér starfa, muni leggja þessu máli lið og íhuga það vel, þannig að það gæti komið til framkvæmda á næstunni, því ég er þess fullviss að allir, sem hér starfa, vilja stuðla að því að auka virðingu Alþingis og að hún verði sem mest meðal þjóðarinnar.

Í öðru lagi er stefnt að því með þessu frv. að koma á stofnun, sem geti unnið að bættri nýtingu fjármuna og bættum afköstum í ríkiskerfinu og þar af leiðandi unnið að bættum ríkisrekstri þannig að við getum gert meira fyrir það fjármagn, sem við höfum til ráðstöfunar.

Og í þriðja lagi er stefnt að því með þessu frv., að umræða um ríkisreksturinn og starfsemi ríkisins verði meiri og opnari. Það kemur af sjálfu sér, að ef Ríkisendurskoðun skilar til Alþingis skýrslum, hlutlausum skýrslum um alla starfsemi ríkisins, en þessi stofnun á ekki að vera neinum háð, þá fer fram miklu meiri og opnari umræða um þá starfsemi, sem fer fram á vegum ríkisins, og þar með hlýtur aðhald almennings og þjóðarinnar allrar að verða mun meira í ríkisrekstrinum og ríkisbúskapnum. Það held ég að sé einnig mjög mikilvægt. En það aðhald þarf að vera byggt á hlutlausu mati.

Ég vil einnig geta þess, að með þessu frv. fylgir nokkuð löng grg. um ríkisendurskoðun í öðrum löndum. Hún er út af fyrir sig ekki fullnægjandi, en gefur nokkra innsýn í það, hvernig unnið er að þessum málum í nokkrum öðrum löndum.

Eins og fram kemur í lok grg. um ríkisendurskoðun í öðrum löndum, sem ég hef reynt að kynna mér lítillega, eru það niðurstöður þeirrar athugunar, sem ég hef gert, að um alllangt skeið hafi verið mikill áhugi á því viða um lönd að víkka verksvið þeirra stofnana sem fjalla um þessi mál. Þannig eru í starfsreglum margra ríkisendurskoðunarstofnana ákvæði sem lúta að því, að endurskoðunarstarfið skuli ekki aðeins miða að því að leita uppi skekkjur og misferli og annað því um líkt, heldur beri einnig að kanna skilvirkni og hagkvæmni í stjórnsýslukerfinu og auka það, og að því er stefnt í þessu frv. Fyrirmælum í þessa átt hefur hins vegar almennt reynst nokkuð erfitt að framfylgja, og ég geri mér grein fyrir því, en hér á sér stað mikil þróun og þess vegna held ég að menn séu að komast á nokkuð góða braut, sérstaklega í Bandaríkjunum og Svíþjóð, í sambandi við markvissa þróun endurskoðunarstarfseminnar.

Ég vil einnig geta þess, að á þessu ári, eða seint á síðasta ári mun það sennilega hafa verið, samþykkti kanadíska þjóðþingið ný lög um ríkisendurskoðun, en þau lög gera ráð fyrir því að ríkisendurskoðun í Kanada þjóni þjóðþinginu. Það var talin mjög veruleg framför í því landi. Slík þróun hefur einnig verið í Bandaríkjunum. Bandaríska ríkisendurskoðunin þjónar þinginu þar, þótt hún heyri ekki beint undir þingið. Þessi háttur hefur verið á í Noregi allt frá 1918, og nú um þessar mundir og í nokkur ár hefur verið í undirbúningi ný löggjöf um þessa starfsemi í Noregi. Þar hefur starfað nefnd að því að undirbúa nýja löggjöf, sem ekki er komin fram, en sjálfsagt má einnig læra margt af.

Ég geri mér ljóst, að það hefði á margan hátt verið æskilegt og nauðsynlegt að nefnd manna hefði starfað að undirbúningi þessa máls, sem ég hef leyft mér að flytja, og ég geri mér grein fyrir því, að það muni reynast nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar á frv. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, að það hafi verið nauðsynlegt að færa þetta mál fram í nokkuð heillegum búningi, og þess vegna hef ég gert það. Ég hef starfað að þessu máli um nokkurra ára skeið og hef komist að þeirri niðurstöðu, að sú breytta skipan, sem lagt er til í þessu frv. að taka upp, geti orðið til verulegra bóta í þjóðfélaginu.

Ég vil að öðru leyti vísa til frv., grg. og skýringa sem þar eru og legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. Ég vil mega vænta þess, að hv. n. taki þetta mál til vinsamlegrar athugunar og geri sitt ítrasta til þess að málið megi koma til afgreiðslu eins fljótt og auðið er. Ég geri mér grein fyrir því, að erfitt er að senda mál sem þetta til umsagnar. Það er út af fyrir sig enginn sérstakur aðili sem getur veitt þar umsögn. Hins vegar gæti hv. n. kallað ágæta menn sér til ráðuneytis, t.d. þá menn sem vinna í Ríkisendurskoðun, og leita eftir reynslu þeirra á þessu sviði. Ég mundi telja það eðlilegt við meðferð þessa máls.