21.02.1980
Sameinað þing: 27. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

Umræður utan dagskrár

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að hér og nú komi fram upplýsingar um það sem hefur verið að gerast í hv. Ed. síðustu klukkutímana. Raunar vita allir þm. í stórum dráttum að þar hefur slík óeining ríkt meðal stjórnarsinna að ekki hefur verið unnt að koma fram því máli sem brýnt var talið að koma fram og brýnt er að koma fram, þ.e. lántöku vegna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

Þegar nokkuð var komið fram yfir venjulegan fundartíma tók að brydda á því, að ókyrrð var meðal ráðh. og stjórnarsinna, og augljóst að mikið var í aðsigi. Í fjh. - og viðskn. höfðu sex af sjö alþm. einróma samþ. nál., án allra fyrirvara, og mælt með samþykkt frv. Sjálfstfl. hafði gert um það flokkssamþykkt að gera allt sem í hans valdi stæði til að málið næði fram að ganga, og við í fjh. - og viðskn. hv. Ed. samþ. allar þær brtt. sem formaður n. lagði fram og taldi sig leggja fram í nafni ríkisstj., enda var hann sérstaklega að því spurður, hvort svo væri ekki, og upplýsti hann að hann hefði haft samráð við formann Framsfl., hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh. Þess vegna lítum við svo á, að um samþykki ríkisstj. væri að ræða. Hann bar að vísu fram eina brtt. um að eingöngu yrði heimilt að taka innlent lán. Það samþ. við, enda hefði það verið eðlilegast. Þegar hann óskaði síðar eftir að sú till. yrði dregin til baka samþ. við það einnig. Sem sagt höfum við lagt ríka áherslu á að mál þetta næði fram að ganga.

En hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. héldu því blákalt fram fyrir nokkrum mínútum að ekki væri hægt að koma málinu fram nú á þinginu vegna þess að mikill ágreiningur væri í fjh. - og viðskn. og að tími ynnist ekki til þess. Við sjálfstæðismenn höfum lýst því yfir í Ed., að við værum reiðubúnir til að afgreiða málið þegar í stað úr deildinni umræðulaust. Ég hygg að sjálfstæðismenn í Nd. mundu geta gefið svipaða yfirlýsingu. Alþfl. - menn hafa lýst yfir að þeir vilji að málið nái fram að ganga og muni ekki tefja það. Það er þess vegna verið að beita hér nákvæmlega sama ofbeldinu og beitt var í fyrravor, þegar sömu flokkar, Framsfl. og Alþb., stöðvuðu sama mál með bolabrögðum, nákvæmlega á sama veg og þeir nú gera. Þessu mótmæla sjálfstæðismenn, og ég veit að bændur um allt land munu mótmæla slíkum vinnubrögðum.