10.03.1980
Neðri deild: 41. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Erindi mitt í þennan ræðustól er það, í framhaldi af ummætum hæstv. viðskrh. áðan þess efnis, að forsendan fyrir þeirri ákvörðun ríkisstj. að fresta framkvæmd gildandi laga um verðtryggingu sparifjár eigi sér stoð í því ákvæði málefnasamningsins, sem fjallar um verðlagsmál, að upplýsa um afgreiðslu verðlagsráðs á því máli. Aðrir ræðumenn hafa vikið að þessu efni einnig.

Sem kunnugt er, er stefna ríkisstj. í málefnasamningi yfirlýst á þá leið, að binda skuli verðlag með lögum í tilteknum áföngum. Í því efni hefur hæstv. viðskrh. beitt sér fyrir setningu reglugerðar þar sem þessi stefna er nánar skilgreind, svo hljóðandi:

„Á tímabilinu frá 1. mars 1980 til 31. júlí 1980 skal óheimilt að hækka verð á vöru eða þjónustu frá því sem það var 29. febr. 1980 um meira en 8% á tímabilinu 1. mars til 30. apríl 1980. Það verð, sem gildir 30. apríl 1980, má ekki hækka um meira en 7% á tímabilinu 1. maí til 31. júlí 1980.

Ákvæði þessarar greinar taka einnig til verðs hvers konar vörn og þjónustu sem ríki, sveitarfélög, stofnanir þessara aðila eða aðrir opinberir aðilar láta í té gegn gjaldi.

Markmiðið er að halda verðhækkunum innan við 31% á árinu 1980.“

Þetta mun vera meginstefnan. Það segir sig sjálft, að ef hæstv. ríkisstj. tækist að framkvæma þessa stefnu í reynd, þá hefði það áhrif á hversu réttmætt væri að fresta frekar ákvörðunum í vaxtamálum. En nú vill svo til að hæstv. ríkisstj. ætlar að takast ákaflega ambögulega að koma þessu á. Þau tíðindi eru þegar orðin, að verðlagsráð hefur nú fjallað um þessi drög að reglugerð viðskrh. og komist að þeirri niðurstöðu með öllum greiddum atkv. gegn einu, fulltrúa ráðh. sjálfs, að vara eindregið við því að reglugerðardrög ráðh. taki gildi. Um þetta urðu sammála fulltrúar í verðlagsráði, bæði Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambandsins og fulltrúi Hæstaréttar. Ekki einn einasti aðili í verðlagsráði treysti sér til þess að mæla bót þeirri aðferð, sem ríkisstj. hér reynir að beita, annar en embættismaður hennar sjálfrar.

Rökin fyrir þessu eru þau, að meginákvæði gildandi laga, þ.e. 12. gr. verðlagslaga nr. 56 frá 1978, segir að miða beri verðákvarðanir við það, að tæknilega og fjárhagslega vel rekin fyrirtæki geti starfað a.m.k. án hallarekstrar. Þetta er sú grundvallarregla, lagaregla, sem gildir um verðákvarðanir stjórnvalda, svo gáfulegt sem það kerfi annars er í sjálfu sér. Nú liggur auðvitað alveg ljóst fyrir, að í því verðbólguástandi sem nú er, að það er þegar bullandi hallarekstur í fjölmörgum atvinnuvegum á Íslandi. Fyrir liggja yfirlýsingar t.d. forsvarsmanna fiskiðnaðarins þess efnis, að fiskiðnaðurinn í landinu sé rekinn með u.þ.b. 11 milljarða kr. halla. Það kom fram í fjölmiðlum nýlega í sambandi við vanda ullariðnaðar, að fyrirtæki í þeirri grein, eins og Álafoss, langsamlega stærsta fyrirtækið, sem er vel rekið fyrirtæki og hefur skilað framleiðniaukningu svo nemur rúmlega 8% á s.l. ári, er engu að síður rekið með þvílíkum halla að nemur 600 millj. kr. frá því í nóv. s.l. Með hliðsjón af þessu ástandi er auðvelt að færa rök að því, að stjórnvaldsákvörðun um einhverjar tilbúnar takmarkanir verðlagningar fyrirtækja, sem búa við slíkt efnahagsástand, eru náttúrlega alveg gersamlega út í bláinn, efnislega, burt séð frá þeim ógöngum sem ríkisstj. virðist vera komin í með formlega setningu reglugerðar um framkvæmdina.

Kjarni málsins er sá, að stefnan, sem sett er fram með þessum hætti, er út af fyrir sig algerlega óraunsæ. Það er rétt af þessu tilefni að vitna til ummæla landsbankastjóra, sem eftir honum voru höfð á frægum fundi, flokksráðsfundi sjálfstæðismanna. Hann sagði að væri það ætlun ríkisstj., að framfylgja þessari verðlagspólitík einni sér, án þess að á eftir fylgi aðrar ákvarðanir í veigamiklum þáttum efnahagsmála, ef fyrirtækjum er m.ö.o. ætlað að hlíta þessum fyrirskipunum um verðlagningu, þrátt fyrir að framleiðslukostnaður þeirra verði af öðrum ástæðum miklu meiri en hér er kveðið á um, sé um að ræða eitthvert mesta tilræði sem gert hefur verið í sögu þjóðarinnar við atvinnulíf í landinu. Það er náttúrlega aðall bankastjóra að tala varlega í slíkum efnum, en öllu alvarlegri áfellisdóm er varla hægt að kveða upp um stefnu stjórnvalda.

Ástæðurnar fyrir því, að verðlagsráð hefur nú nær einhuga vísað á bug reglugerðardrögum viðskrh., eru fyrst og fremst þær, að stjórnvaldsákvörðun af þessu tagi brýtur í bága við þá meginreglu verðlagslaganna, að „tæknilega og fjárhagslega vel rekin fyrirtæki“ fái skilað hagnaði. Þar við bætast ýmis lögfræðileg formsatriði sem ég hirði ekki um að rekja hér.

Að lokum þetta: Sá misskilningur er mjög algengur og kom berlega fram m.a. í þessum umr., að viðleitni stjórnvalda til þess að verðtryggja sparifé landsmanna, svo sem kveðið er á um að skuli vera markmið gildandi laga um að koma á raunvöxtum í áföngum, sé hávaxtapólitík og okurvaxtapólitík. Þetta er auðvitað misskilningur á einföldustu hugtökum. Það er auðvitað hægt að koma málefnum einnar þjóðar svo gersamlega í kaldakol með stjórnlausri og ríkisrekinni óðaverðbólgu að vaxtastig hækki við það upp úr öllu valdi. En ef hér væri um að ræða viti borna hagstjórn, svona að meðaltali á við það sem tíðkast með helstu viðskiptaþjóðum okkar, þá mundu raunvextir í raun og veru ekki þýða hærra vaxtastig en u.þ.b. 11%.