12.03.1980
Efri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

119. mál, Hitaveita Suðurnesja

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tækifæri hér til þess að fara nánar inn á stefnumörkun þá í skipulagsmálum raforkuiðnaðarins sem hæstv. ráðh. vék nú aftur lítið eitt að. Hann sagði að það næði ekki nokkurri átt að knýja landshlutana til þess að taka þessi mál í sínar hendur. Það dettur engum í hug. Það er ekki hægt að stofna landshlutafyrirtæki nema með vilja landshlutanna. Spurningin er sú, hvort við eigum að útiloka að fólkið úti á landsbyggðinni geri það ef það vill.

Ég þakka hæstv.ráðh. fyrir þau orð sem hann lét falla um Orkubú Vestfjarða. Ég skildi þau svo, að frá hans sjónarmiði ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þar gætu verið virkjanir á vegum Orkubúsins. En ég vil ekki trúa því fyrr en ég reyni, að hæstv. ráðh. vilji ekki láta Austfirðinga sitja við sama borð og Vestfirðinga, þ.e. að ráða þessum málum.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það traust sem hann sýndi mér í þeim orðum að ætla mér að ég hefði verið aðalhöfundur þeirrar stefnu og oddviti sem vildi landshlutafyrirtæki, því að hann sagði að ég hefði ýtt þeirri stefnu að núv. hæstv. forsrh. Ég held að þetta sé mikið vanmat á hæstv. forsrh. Ég hef lítið svo á að hann hafi verið maður til þess að hafa og raunverulega hafi haft forustuna í þessum efnum, þó að bæði ég og margir aðrir hafi komið þar að málum. En hvað felst í þessum orðum hæstv. iðnrh.? Það felst ekki í þeim mikið álit á hæstv. forsrh. Og mér sýnist að þetta hljóti að benda til þess, að hæstv. iðnrh. telji að hann geti ýtt að hæstv. forsrh. í raun og veru hverju sem honum þóknast, því að ekki vil ég að óreyndu ganga út frá því að hæstv. iðnrh. telji sig minni karl í þessum efnum en mig.