17.03.1980
Sameinað þing: 32. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

116. mál, fjárlög 1980

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Í ræðu minni hér í dag vék ég að því, að hæstv. forsrh. hefði ekki enn flutt stefnuræðu sína, sem útvarpa skal samkv. 2. mgr. 52. gr. þingskapa.

Hæstv. forsrh. kom hér í ræðustólinn og sagði að hér væri um misskilning að ræða af minni hálfu, því að þetta ákvæði þingskapa gæti ekki túlkast svo, að honum bæri að halda stefnuræðu samkv. 2. mgr. 52. gr.

Ég hef orðið var við það upp á síðkastið, að gleymska hefur gert vart við sig hjá hæstv. forsrh. Þess vegna langar mig — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp úr fundargerð í Sþ. 18. des. s.l., á fjórða fundi nýkjörins þings, þess er nú situr.

Það var þriðjudaginn 18. des., kl. 2 miðdegis. Skýrsla forsrh. á dagskrá. Forseti Jón Helgason tók til máls og sagði:

„Í 2. mgr. 52. gr. þingskapa segir: „Þá skal og útvarpa innan tveggja vikna frá þingsetningu stefnuræðu forsrh. og umr. um hana, en eftirrit af ræðunni skal afhent þm. sem trúnaðarmál eigi síðar en viku áður en hún er flutt.“ Síðan hélt forseti áfram:

Forsrh. telur að eins og nú er ástatt sé þetta ákvæði ekki framkvæmanlegt og sé því nauðsynlegt að veita afbrigði um frestun stefnuræðunnar þar til síðar á þessu þingi, er ný stjórn hefur verið mynduð.“

Atkvgr. Afbrigði um frestun stefnuræðu forsrh. samþ. með 42 shlj. atkv.

Ég tel ekki ástæðu til að lesa upphaf ræðu hæstv. þáv. forsrh., sem vikur að þessu sem áður hefur verið sagt. En samkv. því, sem ég hef lesið upp úr þingtíðindum, fyrsta hefti, hefur hæstv. forseti Sþ. svo og allur þingheimur skilið þetta svo, að umr. samkv. 2. mgr. 52. gr. þingskapa væri frestað þar til síðar. En þær umr. hafa ekki farið fram. Til þess að forsrh. hafi þetta svart á hvítu — að sjálfsögðu í blárri bók, eins og hann afhenti mér — ætla ég að afhenda honum fyrsta hefti af Alþingistíðindunum 1979 – 1980.