19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði s.l. fimmtudag, að líta bæri á heildarskattlagningu fólks, og benti þá sérstaklega á að persónuafsláttur tekjuskattslaga mundi í mörgum tilfellum greiða álagt útsvar lágtekjufólks. Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðh., að í mörgum tilvikum mun sú verða raunin. Um þetta var þó afskaplega erfitt að dæma meðan hvorki var búið að ákveða skattstiga né upphæð persónuafsláttar.

Nú hefur hæstv, fjmrh. gefið upplýsingar um hver skattstiginn og persónuafslátturinn eigi að vera. Samkv. því sýnist mér fljótt á lítið að skattfrelsismörk hjóna með tvö börn verði aðeins undir 3 millj. kr. ef annað hjónanna vinnur eitt fyrir tekjunum. Hjá einstaklingum verða skattfrelsismörkin nokkuð undir 1.5 millj. kr., og er þá átt við tekjur s.l. árs.

En það er eitt sem við megum ekki gleyma í þessu sambandi. Strax og tekjur fara yfir þau mörk sem ég minntist á, þ.e. 3 millj. annars vegar fyrir hjón með tvö börn og 1.5 millj. fyrir einstaklinga, gengur persónuafslátturinn allur á móti tekjuskatti og sjúkratryggingargjaldi þannig að allt útsvarið kemur af fullum þunga á gjaldendur. En auðvitað vinnur hækkandi persónuafsláttur á sama hátt og þessar hugmyndir sem ég hef lagt fram í till. minni.

Vegna þess að við þessi mörk fer persónuafslátturinn allur í að borga tekjuskatt og sjúkratryggingargjald er ég hræddur um að útsvörin komi af fullum þunga á margan lágtekjumanninn þegar búið er að draga tekjuskattinn og sjúkratryggingargjaldið frá. Enn fremur kemur sú 10% hækkun útsvara, sem samþ. var við 2. umr. í þessari hv. deild, af fullum þunga á unglinga innan 16 ára aldurs eða nánast tiltekið til og með 16 ára miðað við greiðsluár. Þar er ekki um neinn persónuafslátt að ræða og þar getur hækkunin orðið margfalt meiri en umrædd 10% sem till. var ætlað að ná, vegna þess að persónuafslátturinn var ekki hækkaður að sama skapi.

Um notkun persónuafsláttar til greiðslu útsvara er margt hægt að segja. Sú notkun er út af fyrir sig góðra gjalda verð, en framkvæmdin finnst mér vera furðuleg. Útsvarið er reiknað út og tilkynningar skrifaðar fyrir hvern og einn og í sumum tilfellum a.m.k. sendar fólki sem greiðslukröfur sem síðan eru svo dregnar til baka. Veldur þetta mörgu gömlu fólki a.m.k. verulegum áhyggjum. Það er alltaf verið að rukka fólk þó það eigi ekkert að borga. Í öðrum tilvikum leggja sveitarfélögin á sig heilmikla vinnu við að flokka þessar tilkynningar og leggja til hliðar áður en almenn útsending greiðslukrafna fer fram. Ég hef aldrei skilið hvers vegna í ósköpunum tölvurnar, sem notaðar eru til að reikna út skatta og útsvör, eru ekki látnar skila einni upphæð fyrir hvert sveitarfélag og spara þannig heilmikinn kostnað, amstur og leiðindi.

Ég er, og hef áður lýst því yfir, sammála því sjónarmiði að nauðsynlegt sé við ríkjandi verðbólguástand að bæta sveitarfélögum upp að hluta þá feikilega miklu tekjuskerðingu sem þau verða fyrir af völdum verðbólgu. Æskilegast hefði auðvitað verið að ríkissjóður sæi sér fært að flytja eitthvað af tekjum sínum til sveitarfélaganna, enda eru það ein höfuðrök sveitarstjórnarmanna, m.a. hv. 1. þm. Vesturl., fyrir nauðsyn aukinna tekna sveitarfélaganna að ríkisvaldið hafi flutt verkefni frá ríkissjóði yfir á sveitarfélögin án þess að sjá um leið fyrir samsvarandi yfirfærslu tekna. Eftir atkvgr. í þessari hv. deild s.l. mánudag liggur ljóst fyrir að ríkissjóður telur sig ekki geta séð af neinu af tekjum sínum til sveitarfélaganna. Er því að mínu mati nauðsynlegt að sjá með öðrum hætti fyrir nokkuð auknum tekjum sveitarfélaga. En það má ekki undir neinum kringumstæðum gera á kostnað þeirra tekjulægstu. Því hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 216 sem nær þessu marki án þess að draga allt of mikið úr því hagræði sem sveitarfélögin hafa af þeirri heimild til 10% hækkunar útsvara sem samþ. var við 2. umr. í þessari hv. deild. — Ég vek athygli á að ég vísa til 6. gr. Þá á ég við 6. gr. í frv. um breyt. á lögunum um tekjustofna, en hún verður 26. gr. í sjálfum heildarlögunum.

Verði till. mín samþ. lækka útsvör hjá hjónum með tvö börn, sem hafa minna en 3.3 millj. í tekjur, og lækka því meira sem tekjur eru minni. Þegar launin fara yfir 3.3 millj. hækka útsvörin fyrst rólega, en hækkunin verður 7 –8% á hæstu tekjur. Hjá einstaklingum er þessi vendipunktur við 1.5 millj. kr. tekjumörkin. Ef till. mín verður samþ. fá sveitarfélögin um það bil 3.4 mill jarða hækkunarheimild ef öll þeirra notfæra sér heimildina. Verði till. felld er heimildin um það bil 5.1 milljarður.