19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

45. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það eru út af fyrir sig merkilegar upplýsingar sem fram komu hjá hv. 6. þm. Reykv., Birgi Ísl. Gunnarssyni. Mér var ekki kunnugt um að formaður þingflokks Sjálfstfl. hefði formlega farið þess á leit við forseta, að umr. um tiltekið mál væri frestað. Það er nú ljóst að hann hefur gert það. Hitt var ljóst héðan af ræðustóli, að formaður þingflokks Alþfl. hefur farið formlega fram á slíka frestun, og ég get a.m.k. fullvissað hv. þd. um það, að allur þingflokkur Alþfl. stendur á bak við hann.

Ég fæ ekki betur séð, — vegna þess að mér er ekki um annað kunnugt en hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson séu í þingflokki Sjálfstfl., — ég fæ ekki betur séð en það sé meiri hl. þessarar hv. d. sem fer fram á að tilteknu máli sé frestað. Og úr því að svo er vil ég fyrst spyrja hæstv. forseta þessarar hv. d.: Er honum kunnugt um önnur fordæmi þess, að meiri hl. d. fari fram á frestun á máli og því sé synjað? Getur forseti svarað þessu? Eru einhver fordæmi til í þingsögunni um þetta? (Forseti: Vegna spurningar hv. þm., þá veit ég ekki hvert fordæmi er í þeim efnum. Hins vegar hef ég ekki séð þennan meiri hl. sem þm. talar um.) Ég fullyrði það, að hér er um tvo þingflokka að ræða sem hafa meiri hl. í þessari hv. d. Gæti t.d. forseti aflað upplýsinga hjá skrifstofustjóra þessarar virðulegu stofnunar, sem mun vera allra manna fróðastur um þingmál, hvort fyrir slíku séu fordæmi. Gæti forseti beitt sér fyrir því, að slíkra upplýsinga væri aflað. En mér er kunnugt um það, ég sé það héðan úr sæti mínu, að slíkt er oft gert, að skrifstofustjórinn er sóttur og hann veitir slíkar upplýsingar, og sem fróður maður og heiðarlegur og sanngjarn, þá held ég að oft hafi eftir þeim upplýsingum verið farið. Ef ég er að fara út fyrir ramma minn og leyfi í þessum efnum, þá dreg ég auðvitað spurninguna til baka, en mér þætti vænt um að forseti kallaði á skrifstofustjóra og spyrði hann um slík fordæmi.

Ég er að vísa í skoðanir meiri hl. þm. þessarar hv. d. Ég veit að vísu ekki um hv. þm. Albert Guðmundsson, en ég treysti því, að hann sé skynugur og heilsteyptur maður. (Gripið fram í.) Er þm. sofandi eina ferðina enn? Á að kalla í skrifstofustjóra? Ég hef tekið eftir því að þetta er oft gert, að forsetar hafa gert þetta. (Forseti: Ég veit nú ekki hvort ástæða er til að kalla á skrifstofustjóra varðandi þetta mál. Ég get ekki séð að það komi málinu við, vegna þess að ég hef ekki enn séð neina staðfestingu á því, að hér sé um meiri hl. hv. d. að ræða.) Við erum í þingræðislandi og búum við þingræði, og ég held meira að segja að hæstv. forseti þessarar d. sé þingræðismaður, jafnvel þó að hann sé í Alþb. Og ég fæ ekki annað séð, þangað til hæstv. ráðh. Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson gefa annað upp, — en að hér sé um ósk meiri hl. að ræða um tiltekna afgreiðslu á mjög alvarlegu máli, því að það er alvarlegt mál þegar verið er að hækka útsvör í landinu um 10%. Ég er kannske að fara út fyrir ramma sanngirni, en mér finnst það satt að segja ekki vera svo.

Ég vil halda áfram máli mínu, en þessari ósk er hér með komið áleiðis til hæstv. forseta þessarar virðulegu d. Ég fæ tíma til þess einhvern tíma undir kvöldmatarleytið að bera þessa spurningu fram aftur héðan úr ræðustól væntanlega.

Hæstv. félmrh. Svavar Gestsson kemur hér áðan og segir t. a. m. um hv. 9. þm. Reykv., sem stendur hér í ræðustól, að hann hafi ekki verið að tala um efnisatriði þessa máls. Það er rétt, ég var að tala um hækkun útsvara, ég var að tala um skattstiga. En þannig er, að þm. og ráðh. eru mismunandi, guði sé lof, og þeir hafa mismunandi sjónarmið og það sem meira er, viðmiðanir þeirra eru mismunandi. Mér er þannig farið, og ég hygg Alþfl. öllum, að þegar um er að ræða hækkandi skatta og hærri skatta, þá er okkar viðmiðun fólkið í landinu og við spyrjum fyrst: Hvernig koma skattarnir, hækkandi eða lækkandi, til með að koma niður á fólkinu í þessu landi? Og fólkið er okkar viðmiðun. En aðrir eru þannig gerðir, að þeirra viðmiðun er ekki fólkið, heldur setja þeir sig í spor stofnananna og spyrja, hvernig kemur það til með að reiknast út frá stofnunum? Hæstv. ráðh. Svavar Gestsson segir að sveitarfélagið þurfi þessa hækkun. Ég spyr hins vegar fyrst: Hvernig kemur hækkandi útsvar til með að koma niður á fólkinu sem þarf að greiða þessi útsvör? Þetta er grundvallarmunurinn. Það er þetta sem ég á við þegar ég segi að menn séu orðnir forstjórar að gerð, að tegund. Það er þetta sem er sjónarmið forstjórans. Og þetta er líka munurinn nú orðið á flokkum okkar, hæstv. ráðh. Og mér þykir það vera að fjalla um kjarna málsins þegar ég er að velta því fyrir mér, hver verði greiðslubyrðin á einstaklingana í þessu landi.

Hér kemur þessi hæstv. ráðh. og segir að þetta séu ekki efnisatriði þessa máls. Hvernig í ósköpunum getur þetta hvarflað að manninum, að það séu ekki lengur efnisatriði málsins, hver sé greiðslubyrðin og hvert sé greiðsluþolið og hvert sé samhengið þar á milli varðandi skattborgarana í þessu landi? En síðan breytingarnar urðu á Alþb. og Alþb. varð fyrst og fremst ríkisforstjóraflokkur, — ég skal játa það, að við Alþfl.-menn þekkjum þetta, það var um eitt skeið í sögu okkar nákvæmlega þetta vandamál — en síðan þetta varð sérstakt vandamál í Alþb. leyfir hæstv. ráðh. sér að koma hingað upp og hans viðmiðun, hans reikningar fjalla ekki um fólkið í landinu, nei, þeir fjalla um stofnanirnar í landinu. Fyrst spyrja forstjórarnir: Hvað þurfa stofnanirnar? Hvað þurfa herrarnir? Hvaða áætlanir hafa þeir lagt fram um það sem þeir þurfa? Svo fara þeir eftir því — og skítt með fólkið sem þó þarf að greiða þetta fyrst og síðast. Það er munurinn.

Ég þarf ekki að fara svo óvirðulegum orðum um hæstv. ráðh. sem hann fór um mig. Ég skal viðurkenna að hann var að tala um efnisatriði málsins, hvað sem hann segir um minn málflutning og hvaða flaðuryrði sem hann lét hér falla um þingræðið og hvernig þm. ættu að hegða sér. Ég þarf ekki að nota slíkt um hann. Við erum báðir að fjalla um efnisatriði málsins. En forsendurnar eru mismunandi, því að ég er að hugsa um skattgreiðendurna, hann er að hugsa um fyrirtækin, í þessu tilfelli sveitarfélögin. Þetta er munurinn á okkur. Þetta er munurinn á flokkum okkar, eins og flokkur þinn, hæstv. ráðh., er nú orðinn. Þetta er einasta pólitísk staðreynd sem er orðið tímabært að þú gerir þér ljósa, ef þú ferð einhvern tíma úr stellingum forstjórans.

Vandamálið í sambandi við þetta, til þess að koma að því sem hæstv. ráðh. Svavar Gestsson segir að eitt sé efnisatriði þessa máls, — vandamálið er auðvitað verðbólgan í landinu. Og vandamálið er það, að útsvör eru greidd eftir á. Og vandamálið er það, að þó að lögin nú segi 10 og heimili 11, þá er raunvirði þeirra tekna, sem sveitarfélögin fá, ekki þessi tala, heldur sennilega einhvers staðar á bilinu 7.2–7.4 eða þar um bil. Vandamálið er sem sagt verðbólgan. Og málið er það, að ef hér hefði náðst árangur í viðureigninni við þennan vágest, þá væri þetta ekki vandamál. En leiðin á auðvitað að vera sú að reyna að draga niður í a.m.k. þeim þætti verðbólgunnar sem sannanlega er af innlendum rótum. En það er ekkert í stefnuyfirlýsingu, í gjörðum, í fyrstu verkum núv. ríkisstj. sem bendir, þó ekki væri nema lauslega, í þá átt að eitthvað af þessu standi til. Og því hærra sem verðbólgustigið verður, þeim mun meiri verður auðvitað vandi sveitarfélaganna, og meðan við höfum útsvör greidd eftir á, þeim mun meira verður bilið á milli hinnar uppgefnu tölu og rauntölunnar.Þessu veit ég að hæstv. félmrh. gerir sér ágætavel grein fyrir.

Og þá vaknar spurning: Af hverju er þessu svo farið? Við sátum saman sem stuðningsmenn ríkisstj. hér á heilu ári í fyrra — og illu heilli, það skal ég viðurkenna eftir á og viðurkenndi raunar þegar í upphafi, en að ég hefði svona rétt fyrir mér vissi ég raunar ekki fyrr en eftir á. En allt um það, hér sátum við saman í ríkisstj. og ég varð aldrei var við hina minnstu viðleitni gegn verðbólgu af einu eða öðru tagi. Og því lengur sem Svavar Gestsson verður ráðh., meðan hann skiptir ekki um stefnu eða skoðun, þeim mun meiri verður vandi sveitarfélaganna. Það er augljóst samhengi þarna á milli. Lausnin er ekki sú að hækka útsvörin. Við getum haldið þeim leik áfram endalaust, og nú þegar við erum að tala um töluna 12.1% eða 11+1%, þá erum við auðvitað í reynd, vegna þess hvernig þetta kerfi er upp byggt, að tala um miklu lægri tölu. Því hærra sem verðbólgustigið verður, þeim mun meira verður bilið. Og haldi hæstv. ráðh. Svavar Gestsson áfram hér eftir sem hingað til, hvernig halda menn að talan verði orðin eftir 10 ár, einasta með einföldum hlutfallareikningi?

Hæstv. ráðh. er kannske þeirrar skoðunar, að enn sé ekki verið að tala um efnisatriði málsins. Mér sýnist að hann fái bara grettur í andlitið þegar við minnumst á fólkið í landinu. Og mér sýnist að ég sé ekki nógu virðulegur til að fjalla um þessar virðulegu stofnanir og herrana sem þeim stjórna. (Gripið fram í.) Allt um það, þegar til mín er beint í langri ræðu hæstv. ráðh. þeim ummælum, að ég sé ekki að fjalla um efnisatriði þessa máls, þó að ég gangi út frá öðrum reikniforsendum og öðrum tilfinningaforsendum en hann gerir, þá er það auðvitað móðgandi í alla staði. En válegust eru þó skoðanaskiptin sem maðurinn hefur gegnumgengið. Hér situr umskiptingur.

Málið er auðvitað það, að öðrum megin á þessum ferli er gjaldþol borgaranna — og hvað þola þeir? Hinum megin á sama ferlinum er þjónusta, mikil eða lítil. Í smáu og stóru erum við að fjalla nákvæmlega um þennan feril í daglegum störfum okkar í þinginu. Spurningin er: Hvað viljum við, hvað vill fólkið mikla þjónustu og hvað vill það greiða fyrir hana? Það má halda áfram og það má hugsa sér aðra leið. Það má t.d. hugsa sér þá leið, að þetta prósentustig verði ekki hækkað, heldur verði það lækkað, en farið inn á staðgreiðslu útsvars, útsvarsins eins, jafnvel þó að við hefðum tekjuskattinn eftir sem áður enn um sinn greiddan eftir á. Ég nefni hér eina leið sem rædd hefur verið af því fólki sem ég umgengst. Ég nefni aðra leið. Ég nefni þá leið, að Alþ. heimili ekki hækkun á útsvarinu öðruvísi en að undangenginni kosningu í byggðarlaginu. Vill fólkið hækka útsvörin úr 11% í 12% og þá auka þjónustuna á móti? Þetta er alþekkt aðferð, sem beitt er í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Vill fólkið minni þjónustu af einhverju tagi og þá greiða minni útsvör? Væri þetta ekki viturlegri leið en sú einhliða valdbeiting sem hér er. Ég játa það, að ég varð hissa þegar ég heyrði ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar áðan. Ég taldi sjálfsagt að hæstv. félmrh. hefði framfylgt ákvæðum efnahagslaganna, nr. 13 frá 1979, og haft samráð við stærstu launþegasamtökin og Vinnuveitendasambandið. Og ég taldi að hann væri búinn að fá kröftug mótmæli og síðan væri hann sem stjórnmálamaður að taka ákvörðun, hann þyrði og væri ekki hræddur við fólkið. Ég hélt að þessi hetjudáð og þetta væri allt saman yfir gengið. Nei, nei, hvað kemur í ljós? Ég sá það á þögninni og andlitinu, að hann hafði auðvitað ekki haft samráð við einn eða neinn. Hann hefur þverbrotið lög ofan á allt annað. (Félmrh.: Má ég minna hv. þm. á, að hér er um að ræða þingmannatillögu sem aðalágreiningi veldur, og hefur verið fjallað um í ríkisstj. og stjórnarflokkunum.) Það breytir engu um það, að þetta er orðið í reynd stjfrv. og verður það einnig með þeirri afstöðu sem hæstv. ráðh. og þeir ráðh., sem um þessi mál hafa talað, hafa tekið til þessa máls. Og þar að auki gildir þetta ákvæði laganna einnig um þingmannatillögur, svo þetta kemur ekki málinu við frekar en margt annað sem hæstv. ráðh. hefur látið frá sér fara.

Allt um það, kjarni málsins er enn þessi, að þetta eru, hæstv. ráðh. Svavar Gestsson, ekki aðeins efnisatriði málsins, þetta eru aðalatriði málsins sem við erum hér að fjalla um. Og það er enn sem fyrr aðalatriði málsins hvað hægt er að bjóða þegnunum. Ráðh. kom hér og flutti þá ræðu sem við var að búast, og hann neitaði frestun. Hann hefur ekki farið eftir ákvæðum nefndra laga, hann væntanlega neitar enn. Hann neitar að þm. fái að átta sig til hlítar, sem er auðvitað gerræði. Þeir þm., sem vilja vera vandir að virðingu sinni og vilja vanda sín vinnubrögð, sem hygg að gildi um nærfellt alla hér inni, þeir suðvitað átta sig ekki til hlítar fyrr en þeir hafa tvo pappíra á borðinu hjá sér. Annað er útsvarsprósentan og hitt er skattstiginn. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að slíkt standi í mannlegu valdi.

Má ég gera hlé á máli mínu og spyrja, hvort hæstv. forseti hafi aflað þeirra upplýsinga sem ég bað um áðan? (Forseti: Ég get upplýst hv. þm. um það, að ég hef heyrt spurningar hans og mun svara, ef mér þykir ástæða til, spurningum hans þegar hann hefur lokið máli sínu.)

Já, hæstv. forseti. Mér þykir það leitt og ég vil auðvitað ekki munnhöggvast við hann héðan úr ræðustól, en þetta heitir nú á einhverri mállýsku að standa ekki „ í stykkinu“. Allt um það, ég veit að hér er um 2. varaforseta að ræða og skil hann. Hann er óvanur þessu starfi, og það er kannske ómaklegt að spyrja hann um eitt eða neitt, svo að ég læt þar við sitja. En satt er það, að hér er um að ræða óvenjulega afgreiðslu hjá hæstv. forseta.

Ég hef þar fyrir utan lýst hér afstöðu okkar til þessa máls. Þegar við bætist það sem við hæstv. ráðh. Svavar Gestsson hefðum báðir, þegar við skrifum í blöð, einhvern tíma kallað hneyksli, það að ráðh. hafi ekki farið að því, þegar það er ótvírætt tekið fram í lögum, að samráð skuli haft við aðila vinnumarkaðarins. Þessari frumskyldu sem lögbundin var af vinstri stjórn, hefur ráðh. augljóslega ekki framfylgt. Hann hefur ekki hugmynd um hvað Verkamannasambandið, hvað Alþýðusambandið, hvað sjómannasamtökin, hvað Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafa um þetta mál að segja. Til hvers heldur ráðh. að við höfum verið að tryggja þetta ákvæði í lögunum á sínum tíma? Um margt vorum við ósammála í þessum lögum, en ekki þetta atriði. Til hvers heldur ráðh. að þessi leikur hafi verið gerður?

Ráðh. er væntanlega þeirrar skoðunar, að nú sé ekki verið að fjalla um efnisatriði málsins, að þetta sé aukahjal fyrir utan þetta mál. Það sé ekki efnisatriði þessa máls að hafa eigi samráð við aðila vinnumarkaðarins um hluti, sem stórkostlega varða tekjur og afkomu fólks. Og ég á von á því, að hann komi hér aftur í ræðustólinn og flytji aftur sömu ræðuna fyrir hönd sömu fyrirtækjanna og áðan. Og ég á von á því, að honum þyki þar vera farið út fyrir efni þessa máls og þingið gert óvirðulegra með því að bent sé á það, að hæstv. ráðh. hlítir ekki landslögum.

Þetta eru mjög alvarleg tíðindi sem hér hafa verið upplýst, og nú ætti ráðh. — hann hefur streist við vel og lengi og hann er baráttuglaður maður, — en nú hefur hæstv. ráðh. hins vegar fulla ástæðu til þess að bjarga skinninu og segja með fullri reisn að honum hafi orðið á mistök. Það getur alla hent. Engu að síður getur ráðh. staðið upp og sagt að þessi mistök séu ljós og umr. verði frestað. Stjórnarandstaðan getur þá vel við unað, og ráðh. hefur fulla ástæðu til að láta fresta þessu máli. Hæstv. ráðh. er væntanlega kunnugt um það, að eitt orð til forseta, jafnvel þó óvanur sé, dugir til þess að þessu máli verði frestað.

Það hefur nú verið í löngu máli fjallað um þetta. Það er alveg ljóst, að núv. ríkisstj. hafa með flumbruhætti sínum orðið á mjög veruleg mistök. Og kannske eru þau stærst sem síðast voru nefnd af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni. Ég trúi því ekki, að hæstv. ráðh. Svavar Gestsson sé þannig innréttaður, að þegar hann er sestur í hægri stjórn telji hann sig ekki þurfa að hlýða lögum sem samþykkt voru í vinstri stjórn. Það er skoðun út af fyrir sig. En þetta er þingræðið. Hæstv. ráðh. vinnur ekki þannig og hefur aldrei gert og á ekki að gera. Jafnvel lög, sem sett eru í tíð vinstri stjórnar, gilda jafnt í tíð hægri stjórnar þangað til þeim hefur verið breytt. Mergur málsins er það, að það er auðvitað flokkspólitískt mál einnig hver útsvarsprósentan í landinu á að vera, og það er mjög eðlilegt, að menn hafi skoðanir á því nokkuð eftir stjórnmálaflokkum. En ráðh., sá stofnanaglaði, kemur hér í ræðustól og segir að það sé flokkspólitískt skæklatog hvaða skoðanir menn hafi á þessu. Áður fyrr hafði þessi marxistaforingi aðrar skoðanir á því, hvernig flokkakerfið í landinu væri. Auðvitað er rétt og eðlilegt að menn skiptist nokkuð varðandi skoðanir eftir stjórnmálaflokkum um það, hver útsvarsprósentan á að vera, vegna þess, eins og hér hefur verið rakið, að það eru náskyld og innantengd mál, annars vegar verðbólgustigið og hins vegar hlutfall útsvarsprósentu, fyrst og fremst vegna þess að útsvarið er greitt eftir á.

Að völdum í landinu hefur sest ríkisstj. sem augljóslega ætlar sér að halda áfram á fullri ferð út í verðbólgufenið, stjórn sem mun standa á efnahagslegum rústum hér eftir ekki mörg ár, sem mun hafa komið málum svo að það verði stórfelld hætta á landflótta á nýjan leik, vegna þess að við erum að dragast aftur úr iðnvæddum ríkjum í kringum okkur þar sem efnahagsstefna er skynsamlegri. Og með hvaða rétti get ég sagt þetta? Ég get sagt þetta með þeim rétti, að ég bendi á fyrstu aðgerðir nýrrar ríkisstj. í vaxtamálum, sem eru náskyldar verðbólgustiginu og sýna skilning eða skilningsleysi á þessu vandamáli. Þessi ríkisstj. hefur minni rétt til þess að leggja til að útsvarsprósentan sé hækkuð. Og af hverju hefur hún minni rétt til þess? Vegna þess að hún er að glíma við heimatilbúin vandamál. Hún er að leysa eigin vandamál. Ef ríkisstj. gæti hins vegar tryggt sveitarfélögum að verðbólgustigið hér yrði svo og svo miklu lægra, 20% lægra eftir 12 mánuði eða eitthvað slíkt, þá væri ríkisstj. í raun og veru að færa tekjur til sveitarfélaganna. En auðvitað er þetta kjarni málsins líka, sem ég veit að hæstv. ráðh. skilur. Og þegar hæstv. ráðh. heldur því fram, að við eigum auðvitað ekki að hafa pólitískar eða flokkspólitískar skoðanir á þessu máli, heldur að við eigum að koma hér sem ein samtryggð heild og rétta öll upp höndina, helst vera alltaf sammála öll um allt, þá er þessi hæstv. ráðh. kominn óravegu frá uppruna sínum og fyrri skoðunum. Þetta er flokkspólitískt mál, og þeir sem ekki aðeins hafa í raun verið að slást við verðbólgu, verið að slást fyrir því, að h¢r kæmi heilsteypt efnahagsstefna í málaflokki eins og vaxtamálum t.d., og haft dug til þess, þeir geta með fullum rétti og góðri sannfæringu haft þær skoðanir í þessum útsvarsmálum sem t.d. Alþfl. hefur.

Ég sé að genginn er í salinn hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson. Ég sé að hann er að ræða við hæstv. ráðh. og ég treysti því, að Guðmundur sé að hvísla að honum að segja: Frestaðu málinu, Svavar! Og ég hef ástæðu til að ætla að Guðmundur sé að hvísla því í eyrnasnepilinn á hæstv. ráðh., vegna þess að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson þekkir hag sinna umbjóðenda og hann veit hvað þeir vilja. Hann veit hvað þeir þola og hann gerir sér þó t.d. far um að hafa nokkur tengsl við fólkið sem lifir og býr í þessari borg.

Ef hæstv. ráðh. er ekki orðinn sannfærður eftir svona ræðu og ef hæstv. ráðh. er enn við sama heygarðshornið og hann var fyrr í dag, þá er þetta mikill klettur. (Gripið fram í.) Já, allt um það. Fyrri skoðanir skulu ítrekaðar og hér hefur nokkuð verið vikið að efnisatriðum þessa máls út frá fleiri forsendum en þeirri sem ég talaði um hér fyrr í dag. Ég hef vikið máli mínu fyrst og fremst að Alþb.mönnum, því að ég hélt raunar að við í Alþfl. gætum átt nokkra samstöðu með þeim í málum af þessu tagi. En svo kann að vera, að það sé jafnvel meiri misskilningur en mig uggði. Við því er þá sennilega ekkert að gera.

Ég sakna þess eiginlega, að hv. þm. Albert Guðmundsson skuli ekki leyfa okkur að heyra í sér um þetta mál og hvaða skoðanir hann hefur á þessu máli. Hv. þm. Albert Guðmundsson er að vísu í seinni tíð farinn að skipta oftar um skoðun en við hinir um buxur. Það er kannske út af fyrir sig ekkert við því að gera. En er hann virkilega stuðningsmaður þess sem hér er að gerast? Það kann að vera að þetta — menn sem hér eru — sé orðin allnokkur önnur stofnun, jafnvel þó að hér sitji mikið til sömu menn og gerðu í fyrra. Það eru þá miklar breytingar.

Ég vil svo að lokum aðeins endurtaka það enn, að ekki er annað að sjá en það sé vilji tveggja þingflokka með 22 þm., að ég hygg, að þessu máli sé frestað. Ég sé að hér á eftir mér hefur kvatt sér hljóðs hæstv. landbrh. Hann ætlar sennilega að gefa vinum sínum í Sjálfstfl. sprautu af einu eða öðru tagi, kannske segja að hann standi ekki með þeim í þessu máli frekar en öðrum. Ég vil hins vegar mælast til þess, að hæstv. landbrh. fari nú ekki að bregðast sínum fyrri flokksbræðrum í þessu máli. Það eru nóg önnur tækifæri þar sem hann getur skeytt skapi sínu á sínum fyrri félögum þó að hann fari ekki að skerast úr leik hér, af því að við erum að tala um raunverulegt hagsmunamál fólksins í þessu landi.