19.03.1980
Neðri deild: 46. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 211, nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., styðja sjálfstæðismenn það frv. sem hér er til umr.

Það vandamál, sem við hefur verið að glíma varðandi söluerfiðleika á umframframleiðslu landbúnaðarins, hefur verið til meðferðar um nokkurn tíma. Það er næsta furðulegt sinnuleysi, sem benda má á í sambandi við það sem gerðist hjá fyrrv. ríkisstj. Þetta vandamál var þegar í sjónmáli á árunum 1976 og 1977, og það var vakin athygli á því af þáv. ríkisstj. Það má vitna í þeim efnum til grg. með fjárlögum fyrir þessi ár, en þá var staða útflutn­ingsbóta þar sérstaklega tekin til meðferðar og það undirstrikað, að þetta vandamál yrði að taka til úrlausn­ar.

Ég vil enn fremur í þessu tilviki minna á þá tilraun sem þáv, hæstv. landbrh., Halldór E. Sigurðsson, gerði til þess að fá fram breytingar á framleiðsluráðslögunum. En hann hafði enn fremur á þingi 1972 frekar en 1973 flutt till. um breyt. á þeirri löggjöf varðandi þessi mál og til þess að ná fram breytingum, sem gætu orðið til úrbóta.

Af hálfu fyrrv. ríkisstj. eða stjórnvalda síðan á miðju ári 1978 hefur nánast það eitt verið gert, að skipuð var nefnd á miðju ári 1979 til þess að gera tillögur um aðgerðir vegna erfiðleika, sem sköpuðust hjá bændum vegna vorharðindanna 1979, og lausn á vandamálum bænda vegna söluerfiðleika erlendis á umframfram­leiðslu landbúnaðarins.

Þessi nefnd vann störf sín bæði vel og rösklega. Ég veit að formaður nefndarinnar, Ingi Tryggvason fyrrv. alþm., vann mikið að því að ná sem bestri samstöðu í nefndinni. Af hálfu okkar sjálfstæðismanna starfaði Steinþór Gestsson alþm. í þessari nefnd og gerði m.a. tillögur um fjármögnun þessa vanda. Hann lagði til að fjármögnunin yrði á innlendum vettvangi og án viðbótarskattlagningar.

En frv. þetta gerir ekki ráð fyrir að farin sé sú leið sem Steinþór Gestsson benti á, enda þótt sjá megi sterk áhrif tillagna hans.

Á fundi í fjh.- og viðskn. óskaði ég upplýsinga, sem formaður og frsm. meiri hl., hv. 3. þm. Austurl., gerði grein fyrir í sinni framsöguræðu. Þar kom fram að lán­taka sú, sem gert er ráð fyrir, verði fyrir milligöngu Búnaðarbanka Íslands, en að gert sé ráð fyrir erlendri lántöku. Við teljum erlenda lántöku til þessara hluta óæskilega leið til fjármögnunar. Miðað við það efna­hagsástand, sem hér er við að glíma, er ljóst mál að ríkisstj. hefði átt að beita sér fyrir innlendri lántöku og gera ráð fyrir þessari lántöku í þeirri lánsfjáráætlun sem sagt er að nú sé í undirbúningi og verði lögð fram síðar á þessu þingi.

Þrátt fyrir þessa skoðun, sem ég hef hér lýst, munum við sjálfstæðismenn styðja frv. og erum reiðubúnir að hraða framgangi þess eins og mögulegt er.