25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er mikill misskilningur, svo að notað sé lítillátt orðfæri hæstv. forsrh., ef menn halda því fram að það mál, sem hér er til umræðu, fjalli um skilning hæstv. forseta Sþ. á einu eða öðru. Hann skiptir auðvitað engu máli. Það, sem skiptir máli í þessum efnum, er að Alþ. sem slíkt hefur tiltekið vald til að ákvarða í þessu tilfelli hvort tiltekin ræða og umræða um hana skuli koma á dagskrá eða ekki. Það eru fordæmi fyrir því, t.a.m. frá því í des. s.l., sem hér hefur verið lýst, að þessi ræða í fyrsta lagi skuli flutt, en ef frá því sé gerð undanþága sé það Alþ. sem slíka undanþágu veitt. Það er ekki hæstv. forseti, það er ekki hæstv. forsrh., það er Alþ. sem slíkt á að ákveða. Það er þess vegna gersamlega út í hött að láta fara fram atkvgr. um skilning hæstv. forseta á einu eða öðru. Það einfaldlega kemur málinu ekki við. Og úr því að þetta er svona einfalt, hvers vegna í ósköpunum láta mennirnir ekki atkvgr. fara fram? Þar með er þetta mál úr sögunni, þar með þarf ekki að vefengja vald Alþ. — það vald Alþ. sem bæði er og á að vera til.

Hæstv. forsrh. tók hina 59 þingmenninga í kennslu­stund í lögum er hann lýsti því, að ákvæði um þessa tilteknu ræðu hefði komið inn í þingsköpin í stað fjár­lagaræðu. Ef gamla ákvæðið hefði staðið og hér hefði verið fjallað um fjárlagaræðu hefði slík ræða og stefna hæstv. ríkisstj. á formi slíkrar ræðu verið flutt í síðustu viku, vegna þess að þingstörf eru að því leyti með óvenjulegum hætti í vetur að ríkisstj. er mynduð á miðj­um vetri og umr. um fjárlög eru þess vegna nú í deigl­unni, eins og hv. þm. auðvitað vita. Af þessu og m.a.s. af lögskýringum hæstv. forsrh. sjálfs að ráða er fullkomlega ljóst hver hefur verið vilji höfunda þingskapa að því er þessi atriði varðar. Þetta vald er hjá Alþ. og á að vera hjá Alþ. Lögskýringar hæstv. forsrh. skipta nákvæmlega engu máli þar um.

Æskilegast væri auðvitað að hæstv. forsrh. flytti stefnuræðu og að um hana færi fram umr. Slíkt væri bæði hollt fyrir þingið og áreiðanlega ekki síður fyrir þjóðina.