25.03.1980
Sameinað þing: 36. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1370)

128. mál, stórvirkjun

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr. íslenskukennsla í Ríkisútvarpi.

Ég vil fyrst lýsa þeirri skoðun minni, að ég er mjög fylgjandi því að íslenskukennsla eigi sér stað í Ríkisút­varpi, bæði í hljóðvarpi og sjónvarpi. Hitt skulum við líta á, að það er afskaplega erfitt að framkvæma tjáskipti í gegnum þessa umræddu fjölmiðla. — Ég bið 4. þm. Norðurl. e. afsökunar ef ég hef nefnt leiðinlegt orð, en við verðum stundum að taka inn ný orð í tunguna samhliða tækninni. Ég ætlaði að segja, að það, sem helst skortir e.t.v. út frá þeim sjónarhóli að auka orðaforðann hjá afkom­endum okkar sem og okkur sjálfum, þ.e. að æfa meðferð málsins, er að því miður er það dálítið erfitt gegnum sjálfa fjölmiðlana.

5. þm. Vesturl. minntist á skólana í því sambandi að styrkja eða efla íslenskukennsluna. Ég er honum sam­mála í því að skólakennsluna þurfum við að athuga mjög vel með tilliti til íslenskunnar. Ég hef þá skoðun, að nemendur nú á tíð séu miklu síður látnir tjá sig standandi í báða fætur inni í skólastofu en áður var. Ég hef iðulega veitt því athygli að menn, sem eru sjötugir til sjötíu og fimm ára — margir þeirra manna sem tóku þátt í mótun ungmennafélagsstarfsins upphaflega —flytja snjallari og málríkari ræður en annars heyrast á landi hér.

En úr því að spjallað er um Ríkisútvarp hér og kennslu, íslenskukennslu sérstaklega, hljótum við að leiða hugann að því, að andríki í málfari kemur auðvitað inn á atvinnu­sögu okkar. Unglingar fara hér um götur. Umhverfið, sem þessir unglingar lifa í, er tiltölulega fábreytt og gefur ekki tilefni til mikils orðavals, þrátt fyrir allan sinn fjölbreyti­leika, að því er sumir vilja halda fram, og allan hraða.

Vegna ummæla áðan um fréttamennsku, útvarpsmenn, þá sem starfa við fjölmiðla, þá held ég að þeir vandi yfirleitt málfar sitt. Hins vegar ber þar ýmislegt til. Það eru miklar kröfur gerðar til þessara manna um starfshraða. Þeir verða að útbúa ýmsa þætti, ýmiss konar dagskrár með mjög skömmum fyrirvara, en eigi að síður eiga þeir auðvitað að ganga á undan með góðu eftirdæmi. Í flestum tilfellum hygg ég að þeir geri það.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri. En ég vil enda með því að segja, að ég hygg að það megi nota Ríkisút­varpið, þessa stóru og áhrifamiklu fjölmiðla okkar, frekar en gert er, ekki aðeins í íslenskukennslu, heldur og ekki síður í annarri kennslu.