27.03.1980
Efri deild: 53. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1437)

131. mál, flugvallagjald

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. stóð upp og sagðist ætla að leiðrétta misskilning sem hefði komið fram í máli mínu. Það var fólgið í því, að hann sagði að á árinu 1979 hefði ekki farið meira en 600 millj. kr. til framkvæmda í flugmálum, en ég hefði sagt að það hefði verið varið 800 millj. kr. til þeirra. Þessi munur, 200 millj. kr., liggur í því, að ég taldi með það sem veitt var til framkvæmda í flugmálum á lánsfjáráætlun. Þannig höfum við báðir rétt fyrir okkur. Ég var að tala um heildarfjárveitinguna til þessara mála, en ekki sérstaklega um það sem hefði verið lagt fram á fjárlögum. Þetta er nú ekki mikið atriði.

En hæstv. ráðh, sagði jafnframt að það væri misskilningur hjá mér, að ekki væri gert ráð fyrir að allt það fé, sem inn kæmi af flugvallagjaldi, færi til flugmála. Hann sagði að öll upphæðin mundi fara til flugmála. Sú fullyrðing er ekki heldur í samræmi við það sem segir í grg. með fjárlagafrv., og hún er ekki heldur í samræmi við það sem enn hefur komið fram í afgreiðslu fjárlaga að þessu sinni. Ef það verður ekki staðfest með breytingu á fjárlagafrv. og komið fram við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1980 verð ég að líta svo á að það sé misskilningur sem hæstv. ráðh. er að segja. Ég vil ekki endanlega fullyrða um það fyrr en við sjáum fjárlagaafgreiðsluna. En það bólar ekki enn þá á því að það sé rétt sem hann segir í þessu efni.