31.03.1980
Efri deild: 56. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

49. mál, almannatryggingar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 257 er hin breytta gerð frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar. Þetta frv. fjallar um svokallað sjúkratryggingagjald, sem fyrst var lagt á með lögum nr. 115 1978 og hefur síðan verið lagt á til árs í senn, trúi ég. Málið hefur hlotið meðferð hv. Nd. Alþ., en í meðferð Nd. var frv. breytt nokkuð til samræmis við hin nýju skattalög sem Alþingi hefur nú afgreitt.

Frv. gerir ráð fyrir að á árinu 1980 skuli skattstjórar leggja á sjúkratryggingagjald. Gjaldstofn sjúkratryggingagjalds verði hinn sami og gjaldstofn álagðra útsvara árið 1980, þó að frádregnum:

Bótum samkv. II. og IV. kafla laga nr. 67/1971, með síðari breytingum, öðrum en elli- og örorkulífeyri. 650 þús. kr. í viðbót við þær fjárhæðir elli- og örorkulífeyris, sem frá eru dregnar samkv. 4. mgr. 23. gr. laga nr. 8/1972, með síðari breytingum, hjá þeim mönnum sem orðnir eru 67 ára fyrir 1. jan. 1980 eða nutu örorkulífeyris á árinu 1979.

Í 3. tölul. 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því að gjaldið verði 1.5% af fyrstu 4.5 mill j. kr. af gjaldstofni, en 2% af því sem umfram er hjá hverjum gjaldanda. Þá segir að sjúkratryggingagjald skuli lagt á í heilum hundruðum króna, en gjald sem ekki nær 4 þús. kr., skuli fellt niður við álagningu.

Í 4. tölul. er kveðið á um að um álagningu og innheimtu þessa gjalds skuli gilda sömu reglur og gilda um tekjuskatt og eignarskatt.

Í 5. tölul. segir: „Við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um framlag ríkissjóðs til sjúkrasamlaga skal tekið tillit til þess gjalds, sem um ræðir í þessari grein, til hlutfallslegrar lækkunar á framlagi ríkissjóðs.“

Staðreyndin er vitaskuld sú, að hér er um beina tekjuöflun fyrir ríkissjóð að ræða. Þannig hafa þessi lög í rauninni alltaf verið, enda þótt þau beri nafnið sjúkratryggingagjald, og þannig eru tekjur af sjúkratryggingagjaldinu líka ævinlega færðar í fjárlögum hvers árs.

Á þessu ári er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sjúkratryggingagjaldi nemi 7.2 milljörðum kr.

Ég vænti þess að ekki þurfi frekari útskýringa við frv. Hv. þm. þekkja þetta mál. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.-og trn.